31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

141. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg gæti látið nægja að vísa til nál., en vil aðeins bæta við þeim ummælum frá nefndinni, að hún álítur, að þetta mál þurfi að komast þannig til framkvæmda, að ekki verði stöðvun á lánum úr veðdeildinni. Nefndin álítur, að ef ekki verður nægilegt fje til þess að kaupa brjefin, þá muni verð þeirra falla og kannske komast ofan í 60–70% af ákvæðisverði, eins og var, þegar erfiðast var um þessi lán.

En það væri mjög mikið óhapp fyrir alla, ef menn þyrftu að taka lánin með þeim ókjörum, að fá ekki nema 2/3 af nafnverði brjefanna.

Í 25. gr. frv. er stjórninni heimilað að taka lán erlendis til kaupa á alt að 3 miljónum króna í bankavaxtabrjefum. Vaxtabrjef þau, er ríkisstj. kaupir samkv. heimild þessari, skulu vera flokkur út af fyrir sig, og skal koma honum þannig fyrir, að ríkissjóður verði undir öllum kringumstæðum skaðlaus af kaupunum.

Hverjum augum sem menn líta á fjárhag ríkissjóðs, þá hlýtur það að vera alveg áhættulaust að taka þetta lán, þar sem úr veðdeild er einungis lánað gegn 1. veðrjetti, og aldrei nema nokkur hluti af matsverði eignanna, matsverði, sem oft er langt fyrir neðan sannvirði þeirra. Og það virðist benda á, að veðdeildarlán sjeu örugg lán fyrir veðdeildina, að þess heyrist sjaldan getið í seinni tíð, að eignir sjeu seldar á uppboði vegna vanskila við veðdeild Landsbankans.

Jeg vona, að hæstv. stj. hagi svo til, að brjefin falli aldrei í verði og aldrei verði stöðvun á lánum úr veðdeild Landsbankans. Því að ef stöðvun verður, þá verður afleiðingin sú, að þegar opnað er aftur, þó sópast á skömmum tíma burtu margar miljónir úr veðdeildinni, af því að menn eru búnir að bíða svo lengi eftir lánum. Á næstu árum má lána minna en verið hefir á seinustu árum, en það verða vandræði, ef útlánin stöðvast alveg.

Jeg geri ráð fyrir því, að auðvelt verði fyrir stj. nú eins og hingað til að fá lán í þessu skyni. Jeg þori að fullyrða, að þetta er mjög mikilsvert mál, bæði fyrir sveitir og kaupstaði.

Sú mótbára kom fram í hv. Nd., að greið veðdeildarlán ykju strauminn til kaupstaðanna, vegna þess að lánin væru mest notuð þar. En þetta er hinn mesti misskilningur. Það eru alt aðrar ástæður, sem eru fyrir þeim straumi, eins og sjá má af því, að sá straumur minkaði ekkert, meðan veðdeildarlánin lágu niðri.

Að lokum vil jeg mæla með því, að deildin samþykki þetta frv., og vil enn á ný þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa lagt þetta frv. fram.