31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

141. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi að vísu ekkert á móti því, að þessi heimild til lántöku var sett inn í frv. En hinsvegar get jeg ekkert sagt um það, hvort eða hvernig hún verði notuð, því að það getur verið alveg álitamál, hvað við eigi í því efni í hvert skifti.

Mjer fanst það nokkuð stórt tekið til orða hjá hv. 5. landsk., að veðdeildarlánin mættu aldrei stöðvast, en hinsvegar geri jeg mjer bestu vonir um, að þessi brjef geti selst töluvert innanlands, og kannske eitthvað utanlands, og mjer þætti æskilegast, að sem mest af brjefunum gæti selst á þann hátt. En fyr en útsjeð er um það, hvernig það tekst, er ekki hægt að segja um það með neinni vissu, hvort þessi lánsheimild er nógu há til þess að aldrei verði stöðvun á lánum.

Jeg held, að ekki sje gott að fullyrða um það, hvort slíkt lán fæst með sæmilegum kjörum og til nógu langs tíma. Því að í nánustu framtíð er nauðsynlegt að taka lán til ýmsra annara þarflegra hluta. Og tíminn verður að leiða það í ljós, hvað hægt er að gera í málinu. Jeg vil bæta því við, að jeg tel ekki nauðsynlegt að nota þessa heimild á næsta sumri, því að bæði er nokkuð eftir af fyrri lánum og jeg geri ráð fyrir allmikilli sölu brjefanna.

Háttv. 5. landsk. áleit, að brjefin mundu falla í verði til muna, ef ekkert lán yrði tekið. En jeg hygg, að þau brjef, sem þegar hafa verið látin úti, muni ekki hafa áhrif á gangverð hinna. Hitt getur verið, að stjórn bankans sjái sjer ekki fært að láta brjefin af hendi nema með töluverðum afföllum. En ef þau ganga kaupum og sölum með miklum afföllum, þá er það álitamál, hvort það borgi sig að setja meira af brjefum í umferð fyrst um sinn á ábyrgð ríkissjóðs. En ef það er álit hv. þm., að ríkissjóður eigi að kaupa brjefin sem næst ákvæðisverði, þá verður hann líka að bera öll skakkaföll, sem af kynnu að leiða.

Það má vel vera, að lítið af þeim eignum, sem lánað hefir verið út á, hafi undanfarið verið selt á nauðungaruppboðum. En jeg býst við, að ekkert sje hægt að fullyrða um, að slíkt geti ekki komið fyrir. Því að oft er lánað út á lítt vönduð hús, og ekki er ómögulegt, að sumstaðar á landinu, a. m. k. á tímabili, geti eignirnar orðið mjög lítils virði.

Hinsvegar er það ekki meining mín, að þessi heimild megi ekki vera í lögunum. En jeg geri ráð fyrir, að henni verði ekki beitt nema nauðsyn beri til.