31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

141. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg get verið ánægður með það, að heimildin verði notuð, ef nauðsyn ber til. Ef hætta er á, að veðdeildarlán stöðvist, eða brjefin falla í verði, þá lít jeg svo á, að sú nauðsyn sje fyrir hendi, sem hæstv. fjmrh. talaði um, og þá álít jeg, að stjórnin eigi að nota þessa heimild til að taka lán.

Það er rjett, að töluvert af brjefunum mun seljast innanlands til einstakra manna og ýmiskonar sjóða, og sjálfsagt selst líka eitthvað af þeim erlendis.

En ef svo færi, að brjefin seldust eingöngu á þeim markaði, sem innanlands er, þá mundi skapast það ástand, sem áður var, þegar verð brjefanna fjell niður í 60–70% af nafnverði. Þess vegna er sjálfsagt, að heimilt sje að taka þetta lán, til þess að halda uppi verði brjefanna með því. Það getur verið, að einstöku menn og sjóðir græði við það, að brjefin falla í verði, en almenningur tapar við það.

Annars vona jeg, að vel rætist úr þessu máli. Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. sagði um stöðvun lánanna, þá vil jeg enn benda á, að hafi verið tregða á útlánum eða engin lán veitt um langan tíma, þá safnast margar lánsbeiðnir fyrir, og svo þegar nýr flokkur kemur, þá er honum sópað út á svipstundu, og getur það orðið til þess, að verð brjefanna falli. En það má ekki ske, og jeg treysti hæstv. fjmrh. til að sjá svo um, að slíkt ástand komi ekki.