03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1929

Ólafur Thors:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram, ásamt tveim öðrum þdm., eina brtt. við þennan hluta fjárlagafrv. Hún er um 2000 kr. árlegan styrk til frú Guðrúnar Egilson, og auk þess 100 kr. með hverju barni hennar í ómegð. Jeg þarf ekki að hafa mörg orð um þessa brtt. Aðeins skal jeg skýra hv. deild frá því, að efnahagur þessarar konu er mjög þröngur og hún á 5 börn í ómegð, og einnig tvær dætur 16–17 ára. Þörf hennar er því mjög brýn. Hún er ekkja Gunnars Egilsonar erindreka, manns, sem fyrir vitsmuna sakir skaraði fram úr flestum öðrum Íslendingum. Ekkja hans er þess mjög verðug, að ríkissjóður greiði henni þessa upphæð árlega fyrir margt það, er hann hefir gert fyrir landið. — Jeg vona, að hv. þdm. sjái hina ríku þörf og sjái sjer fært að greiða brtt. atkv., þótt farið sje fram á nokkru hærri upphæð en venja er til, þegar líkt stendur á. Þó eru til fordæmi fyrir slíkri fjárveitingu sem þessari, síðast frá Alþingi í fyrra. Jeg ætla ekki að rökstyðja till. frekar, en reiði mig á góðvild hv. þdm.