08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

34. mál, varðskip landsins

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg verð að svara báðum síðustu ræðumönnum nokkrum orðum. Háttv. 3. landsk. fór út í þann skoðanamun, sem er á milli okkar um það, hversu há laun skipstjórarnir eigi að hafa. Samkvæmt lögunum frá því í fyrra var þeim ætlað 6000–7000 kr. auk dýrtíðaruppbótar og aukatekna. — Jeg lækkaði þessi laun í samræmi við laun Skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu. Það vakti fyrir fyrverandi stjórn, að núverandi skipstjórar skyldu fá 3000 kr. hærri laun en þeir, sem á eftir þeim kæmu, vegna munnlegra samninga, er látinn maður, fyrverandi stjórnarformaður, hafði gert við þá. Þetta kom fram í plöggum í stjórnarráðinu, þar sem gert var ráð fyrir, að skipstjórarnir fengju 12000 kr. — Mjer fanst þetta ekki rjett, ekki af því, að jeg hjeldi, að landið myndi fara á höfuðið, þó að þessum mönnum væru borguð þessi laun, heldur af því, að þetta er eitt af mörgum dæmum til að skapa launaafstöðu, sem verður landinu um megn. Jeg er ekki eins bjartsýnn eins og margir aðrir, að jeg búist við, að hægt sje að launa mönnum yfirleitt svona vel. Jeg lít á þetta frá almennu sjónarmiði, og því fleiri embætti, sem þingið stofnar, því erfiðara er að koma sparnaði við. Jeg skal minnast á það í þessu sambandi, þegar Jón heitinn Magnússon samdi við Eggert Claessen um 40 þús. króna bankastjóralaun. Þetta var gert á þeim tíma, þegar landið var orðið fátækt og búið að tapa mörgum miljónum. Auðvitað heimtuðu svo bankastjórarnir við Landsbankann laun í líkingu við þetta, enda er svo komið, að þeir hafa 20 þús. kr. á ári. Jeg tók það fram við umr. um þetta mál, að mjer þætti þetta of hátt. Eins er það með togaraskipstjórana; þar er sett met, sem aðrir miða við, enda hefir komið fram megn óánægja meðal embættismanna yfir launakjörum þeirra, þegar þeir hafa borið sig saman við bankastjóra og togaraskipstjóra. Sá veldur miklu, sem upphafinu veldur. Þegar nú verður farið að semja upp launalögin að nýju — hvað á þá að segja við skrifstofustjórana í stjórnarráðinu, rektor mentaskólans og ýmsa fleiri? Jeg var um daginn staddur hjá ríkisfjehirði og sá af tilviljun á kvittun, sem einn mentaskólakennarinn gaf fyrir launum sínum. Þau voru 450 kr. á mánuði. Þetta er þektur fræðimaður, sem varið hefir 12 árum æfi sinnar til undirbúnings starfi sínu, með langan þjónustualdur að baki. Það er því ekki aðeins að ræða um sparnað á launum yfirmanna varðskipanna, heldur um fordæmi fyrir marga tugi embættismanna.

Það hlýtur að stafa af ókunnugleika hjá hv. 3. landsk. þm., ef hann heldur, að allir skrifstofustjórarnir í stjórnarráðinu hafi aukatekjur. Honum hefði þó átt að vera kunnugt um, að sá skrifstofustjórinn, sem hann sjálfur hafði mest saman við að sælda, hefir engar aukatekjur. Hann hafði að vísu í fyrra endurskoðun landsreikninganna á hendi, en nú hefir hann engin aukastörf.

Það kemur að því, að við verðum að miða launin fyrst og fremst við það, sem við getum fengið mennina fyrir, og í öðru lagi við það, sem þeir geta lifað af. Það er náttúrlega ekki hægt að telja það til fastra launa, þó að mennirnir hafi einhverjar aukatekjur um stundarsakir. En það mun vera af ókunnugleika, að hv. þm. gerir ráð fyrir, að skipstjórarnir á varðskipunum geti engar aukatekjur haft. Jeg get gefið þær upplýsingar, að árið sem leið fjekk annar þeirra 2000 kr. fyrir björgun, og hinn 1800 kr. í sinn hlut fyrir að draga upp keðjur og akkeri á Vestmannaeyjahöfn. — Þetta er einmitt tekjugrein, þó lítið sje, sem yfirmenn og skipsmenn á Þór hafa haft undanfarin ár. Jeg vil ekki segja, að það sjeu fastar tekjur, en það er þó hliðstætt við það, sem er í landi.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um það, að starf þessara manna væri mjög vandasamt og að mikil ábyrgð fylgdi því að taka innlenda og erlenda lögbrjóta. Mjer dettur ekki í hug að neita þessu, en það sama er að segja um lögregluna í landi. Í Englandi er lögreglan sjerstaklega fræg. Jeg leigði einu sinni hjá enskum lögreglumanni. Hann var einn af þessum glæsilegu mönnum, sem allir líta upp til, en honum var borgað eins og verkamanni fyrir starf sitt. Í Englandi hefir tekist að skapa þessa virðulegu stjett manna án mikilla launa. Jeg bendi á þetta aðeins til að sýna, að þetta er hægt án fjeboða. Og jeg er þeirrar skoðunar, að það sje vafasamt, hvort fátæk þjóð eins og við getur skoðað það sem aðalgrundvöllinn undir sínu mannavali, að borga hátt. Jeg veit, að ýmsir menn kenna í brjósti um mig og hæstv. fjmrh., af því að við höfum „ekki nema“ 12 þús. kr. í laun. En jeg verð að segja, að mjer finst þetta eiginlega of hátt. Það er mín skoðun um þá ráðherra, sem ekki eru forsætisráðherrar og þurfa þess vegna að leggja fje í aukakostnað, að landið beri það ekki, að borga þeim aðra eins óhemju eins og gerist hjá einstökum fyrirtækjum, sem ætla sjer að fá mannaval fyrir fje. Jeg er óánægður með laun bankastjóranna. Það er afleiðing af hinni miklu yfirsjón, sem hv. 3. landsk. gerði sig sekan í, þegar hann setti einn bankastjórann á 40 þús. kr. laun. Aðrir bera sig svo saman við það.

Jeg lít á starfsmenn varðskipanna eins og lögreglu og jeg álít, að þeir mættu vera vel sæmdir, ef þeir kæmust jafnhátt ensku lögreglunni. Hún nýtur álits og virðingar, ekki vegna gyltra borða eða fjár, heldur vegna þeirrar „traditionar“, sem skapast hefir í kringum hana. Jeg lít svo á, að bæði núverandi stjórn og þær, sem á eftir koma, eigi að hafa hugfast að skapa einmitt þá tegund af sjólögreglu, sem hafi þann dug og karlmannskjark til að bera, sem þarf til þess að hún vinni sjer fullkomið traust innlendra og erlendra manna. Jeg vil leitast við að styðja hana með því að koma í veg fyrir, að nokkrir þeir, sem hún á að hafa eftirlit með, geti haft þá aðstoð úr landi, sem miðar að því að brjóta lög landsins. Jeg vil hefja okkar sjólögreglu upp í það veldi, sem við verðum að óska, að hún komist í.

Hv. þm. hefir áður minst á, að hann byggist við, að það, sem ein stjórn hefði gert í launamálinu, yrði að vera bindandi. Jeg vil benda honum á það — og það er auðsjeð af frv. —, að jeg lít svo á, að um það atriði sjeu ákveðnir samningar milli landsins og starfsfólksins. Þar eigi engin miskunn eða kunningsskapur að koma til greina. Landið á að vera eins og hver annar atvinnurekandi. Það segir: „Jeg vil fá hrausta og duglega menn fyrir ákveðið kaup. Ef þið viljið ekki ganga að því, fæ jeg aðra menn“. Á þessu er frv. bygt. Jeg er í engum vafa um, að þessi tímabundni samningur muni í framtíðinni verða yfirfærður á marga aðra staði, og þetta leysir úr einu vandasömu atriði: Hvernig getur ríkið trygt sjer það, að hafa vakandi starfsmenn? En frá tíma fyrverandi stjórnar eru dæmi, sem sanna, að hún hefir litið á þetta eins og jeg, nefnilega, að hún gæti ekki skoðað sig bundna við gamlar ráðagerðir. 1917, þegar breyting var gerð á landsversluninni, rjeði stjórnin í þjónustu sína ungan hagfræðing, Hjeðin Valdimarsson. Hann hafði áður fengið veitingu fyrir starfi í hagstofunni. Það varð því að samkomulagi á milli hans og forsætisráðherra, að starf hans í hagstofunni biði eftir honum, meðan hann væri í landsversluninni, og þetta varð úr, þangað til á síðasta kjörtímabili. Þá skrifaði fyrverandi forsætisráðherra honum og gaf honum nokkurra daga frest til að ákveða sig. Hjeðinn Valdimarsson mótmælti því, að hann væri skyldugur til að taka ákvörðun strax, og svo var embættið veitt á bak við hann og á sama tíma gerði stj. ráðstafanir til að leggja landsverslunina niður. Nú var hjer um ungan og duglegan mann að ræða, svo að hann var ekkert brjóstumkennanlegur. Jeg er alveg sammála hv. 3. landsk. um, að hann hafði rjett til að gera eins og hann gerði. Það verður að líta fyrst og fremst á það, sem nauðsynlegt er fyrir landið. Um alla starfsmenn einstakra manna eða fjelaga, til dæmis bæði skipstjóra og háseta á togurum, er það svo, að það er ekki álitin skylda útgerðarinnar að halda þeim lengur en hún álítur sig hafa hag af. Þegar annar sættir sig ekki lengur við þá samninga, sem gerðir hafa verið, er samningnum sagt upp. Eitthvað í þessa átt álít jeg, að ríkið verði að taka upp. Þá fyrst getur það trygt sjer það, að hafa jafnan hina færustu krafta í þjónustu sinni. Ef það heldur áfram að hafa sömu mennina, þó að það geti fengið aðra færari í þeirra stað, er búið að bjóða sleifarlaginu heim. Þetta er að vísu nokkuð hart, en svona verður það að vera. Í dag er verið að grafa 10 sjómenn, sem öll þjóðin harmar rjettilega. En ef dauðinn hefði ekki tekið þá, hefðu þeir, þegar þeir voru farnir að slitna, verið sendir í land hver á fætur öðrum og nýir og hraustir menn komið í staðinn. Þeir hafa enga tryggingu. Ef þeir hafa ekki styrkt aðstöðu sína meðan tími var til, eru þeir illa farnir. Svona er okkar þjóðlíf enn. Næststærsta vinnandi stjettin í landinu á við þessa óvissu að búa.

Þá kem jeg að ræðu hv. 5. landsk. Hann hefir aðra skoðun en jeg á launamálinu. Það er rjett, að hann er miklu bjartsýnni en jeg á það, hvað hægt er að borga. Jeg er mjög óánægður með til dæmis það fyrirkomulag á skipum okkar, að við höfum fleiri vjelstjóra en einn. Við höfum apað það fyrirkomulag eftir einni ríkustu þjóðinni í Norðurálfu, Dönum. Aðstaða Vjelstjórafjelagsins er sú, að það hefir boðið birginn bæði landsstjórninni, Eimskipafjelaginu og einstökum atvinnurekendum, vegna þess, hve vjelstjórar eru eftirsóttir, og heimtað kaup, sem er í ósamræmi við það, sem aðrir fá. Það er átakanlegt dæmi um óframsýni löggjafarvaldsins, að landið heldur uppi dýrum skóla til þess að ala upp þessa stjett manna, en tryggir sig ekki gegn því, að þeir beiti hinni ítrustu harðdrægni á móti. En það er geymt, en ekki gleymt. Það er ekki einungis landsstjórnin, sem hjer á um sárt að binda, heldur líka atvinnuvegirnir. Hið háa kaup skipstjóranna á Eimskipafjelagsskipunum er ákveðið af því að vjelstjórarnir skrúfa upp sitt kaup. Þá koma skipstjórarnir og segja: „Við erum þó æðstu mennirnir á skipunum“. Þessar launagreiðslur og margar aðrar eru gerðar fyrir tekjuhalla í mörg ár. Ef við hættum að taka eyðslulán, verður þjóðin að endurskoða sína launalöggjöf. Það er rjett hjá hv. 5. landsk., að við verðum að endurskoða okkar kaupmál. Þjóðin verður að reyna að fá starfskrafta sína sem ódýrast.

Jeg er ekki samdóma brtt. hv. 5. landsk. viðvíkjandi verkföllum á skipunum. Jeg geri mun á ríkisvaldi og einstökum fyrirtækjum. Jeg skal játa, að jeg álít verkföll leyfileg í iðnaðarlöndunum gagnvart einstökum fyrirtækjum, en viss störf í þágu þjóðfjelagsins eru þess eðlis, að þau þola enga stöðvun. T. d. er í löngum og þrálátum kaupdeilum og verkbönnum í kolanámunum í Englandi samkomulag milli vinnuveitenda og verkamanna um að láta þá menn, sem dæla vatninu í námunum, altaf halda áfram. Annars mundu námurnar eyðileggjast. Jeg lít svo á, að varðskipin sjeu í þjónustu þjóðfjelagsins á líkan hátt og vatnsdælumennirnir í kolanámunum, svo að þar á engin kaupdeila að koma til mála. Mönnunum á varðskipunum á að vera ljóst, að þeir gegna sjerstöku trúnaðarstarfi. Hitt er annað mál, að kaup verkamanna á varðskipunum á vitanlega að mótast af kaupi annara manna við sambærilegt starf í landi. En jeg álít bæði þarflaust og skaðlegt fyrir þá að hafa verkfallsrjett. Sú tegund af baráttu á ekki að ná til þeirra.

Um sjómannakenslu á varðskipunum ætlaði jeg að bera fram sjerstakt frv. í vetur, en þetta frv. er þegar búið að vera svo lengi á leiðinni, að það er ekki sýnt, að annar fylgifiskur þess nái samþykki. En jeg er enn sömu skoðunar og áður, að hægt sje að spara með því að nota varðskipin sem skólaskip.