08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

34. mál, varðskip landsins

Halldór Steinsson:

Jeg held, að með þessu frv. sje farið inn á mjög varhugaverða braut, þar sem laun skipstjóranna eru gerð svo lág. Því hefir verið haldið fram af hæstv. dómsmrh., að þessi laun væru sambærileg við laun prófessora og skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, en þó að þær stöður sjeu veglegar og ábyrgðarmiklar, þola þær ekki samanburð við stöðu skipherranna hvað alla ábyrgð snertir. Það er enginn vafi á því, að staða skipherranna er með ábyrgðarmestu stöðum í okkar þjóðfjelagi. Ef á að fara að bera saman launin, verður það að vera við laun annara skipstjóra. Skipstjórar á millilandaskipunum og strandferðaskipunum hafa hærri laun en skipherrunum eru ætluð. Það má og geta þess, þó að ekki hafi verið á það minst, að togaraskipstjórar hafa allir miklu hærri laun en hjer er um að ræða. Þess vegna má ganga út frá því, þegar þessi samanburður er gerður, að hann geti orðið til þess, að ekki fáist vel hæfir menn á varðskipin. Þó eiga þessir menn að gæta sóma landsins útávið og innávið, og í því liggur hin mikla ábyrgð þeirra. Auk þess er það mikið fjárhagsmál fyrir ríkissjóð, að þessar stöður sjeu vel af hendi leystar. Varðskipin færa ríkissjóði árlega hundruð þúsunda í sektir. Það getur því ekki talist sæmandi að launa æðstu menn þeirra svo lágt, sem hjer er farið fram á.

Þá er annað atriði, sem skiftir allmiklu máli, en það er, að skipherrarnir sjeu efnalega sjálfstæðir menn, svo að þeir þurfi ekki að leita sjer neinnar annarar atvinnu. Það er alkunnugt um hæstlaunuðu starfsmenn landsins, hæstarjettardómara og bankastjóra, að þeim er launað svona hátt af því, að stöður þeirra eru svo ábyrgðarmiklar, að talið er nauðsynlegt, að þeir sjeu efnalega óháðir, svo að þeir þurfi ekki að gefa sig að annari atvinnu eða jafnvel „spekulationum“. En því verður ekki neitað, að það er frekar opin leið fyrir grun um, að skipherrarnir gæti ekki fullkomlega skyldu sinnar, ef þeir eru lágt launaðir.

Jeg hefi ekki miklu við þetta að bæta, en vil aðeins minnast á byrjun ræðu hv. 5. landsk. Jeg vildi aðeins geta þess að síðustu, að mjer þótti ljeleg vörn sú, er hv. 5. landsk. bar fram vegna stjórnarinnar út af lögbrotum hennar. (JBald: Jeg var ekkert að verja stjórnina. — Dómsmrh. JJ: Hann var að deila á stjórnina). Hann var að afsaka stjórnina og gerði það með tvennu. Hið fyrra var, að fyrverandi stjórn hefði líka gert sig seka í lagabroti, en hið síðara, að Framsóknarflokkurinn hefði mestallur verið á móti lögunum um varðskipin á síðasta þingi. Aðrar afsakanir færði hann ekki fram. Um þá fyrri er nú það að segja, að hún er engin afsökun. Þó gamla stjórnin hefði brotið lögin í þessu efni, sem jeg enganveginn vil halda fram eða viðurkenna, að hún hafi gert, þá er það engin afsökun fyrir núverandi stjórn að hafa gert það líka. En um síðari ástæðuna er það að segja, að hún er ekki rjett. Á síðasta þingi var þetta ekkert flokksmál, enda voru margir framsóknarflokksmenn með samþykt laganna. En þó hvorttveggja hefði verið rjett, þá var það þó ekki rjetta leiðin, sem stjórnin tók í þessu máli. Rjetta leiðin var auðvitað sú, að halda lögunum í heiðri fram til þess að þing kæmi saman, en breyta þeim svo, ef meiri hluti þingsins reyndist því fylgjandi.