08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

34. mál, varðskip landsins

Jón Baldvinsson:

Út af orðum hv. þm. Snæf. vil jeg taka það fram, að jeg var enga vörn að færa fram vegna hæstv. stjórnar. Jeg álít, að hún sje fullfær um að verja gerðir sínar sjálf, og mjer hefir, satt að segja, ekkert heyrst standa upp á hana í því efni, og síst hæstv. dómsmrh. Jeg vildi aðeins slá því föstu, að ef þessi stjórn hefir gert sig seka við þessi lög, þá hefir fyrverandi stjórn verið það líka. Það er að minsta kosti mjög skrítið af henni að hlaupa frá skjölunum tilbúnum að öllu öðru leyti en því, að undirskrift ráðherra vantar. Það getur varla verið langrar stundar verk að skrifa undir nokkur blöð. Og þetta sýnir, að fyrv. stjórn hefir ekki verið ant um þessi lög, því það vissi hún þó, að hæstv. núv. dómsmrh. var mjög á móti þessu lagafrv. í fyrra. — Mjer er sem jeg heyri tóninn í vissum blöðum hjer í bænum, þegar hæstv. dómsmrh. hefði verið búinn að samþykkja þessa skipun. Jeg býst við, að það hefði kveðið við, að ráðherrann hefði ekki verið lengi að eta ofan í sig skoðanir sínar frá síðasta þingi. Það er ómögulegt að verjast því að láta sjer detta í hug, að fráfarandi stjórn hafi þarna verið áð búa til gildru handa þeirri, er við tók. Annars sagði jeg það sem álit mitt alment, að stjórnir hvorki ættu nje mættu hindra framgang þeirra laga, sem þær ættu að framkvæma að vilja Alþingis. Ef því núverandi stjórn hefir brotið þá reglu, þá á hún áminningu skilið. En þá á fyrverandi stjórn líka skilið þá áminningu. Annars sker nú þingið úr því, hvort það telur þetta saknæmt hjá stjórnunum, með afgreiðslu þessa frv. — Þetta var þá svar við því, sem hv. þm. Snæf. beindi til mín í ræðu sinni.

Þá vil jeg beina máli mínu til hæstv. dómsmrh. og segja honum það, að mjer þótti það ekki vera neitt fínn „mórall“, sem kom fram í ræðu hans, þar sem hann vildi taka einstaklingsatvinnureksturinn sjer til fyrirmyndar í því að losna við starfsmenn ríkisins, þegar þeir væru komnir af ljettasta skeiði. Þetta er ekki gott hjá atvinnurekendum, og því síður af ríkinu. Það ætti því ekki að taka sjer slíkt til fyrirmyndar.

Viðvíkjandi brtt. minni á þskj. 327, um að fella niður síðari málslið 6. gr. frv., vil jeg taka það fram, að jeg býst ekki við, að til verkfalls komi hjá þessum mönnum. Jeg geri ráð fyrir því, að þó til verkfalls komi, þá bíði þessir menn eftir úrlausn verkfallsins og leggi ekki niður vinnu á meðan, svo varðskipin geti haldið áfram eftir sem áður. En þessi grein hindrar hásetana frá því að vera í almennum fjelagsskap um þessi efni og taka þátt í stjettarsamtökum. Þetta fer því, eins og lögin frá 1915, sem til er vitnað, í einræðisáttina. En jeg tel þetta ákvæði ekki hafa „praktiska“ þýðingu.