08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Úr því að hv. 5. landsk. hefir leitt umræðurnar inn á það svið að tala um lögbrot, þá er rjett, að jeg víki nokkrum orðum að því atriði. — Það nær engri átt að halda því fram, að sú stj., sem fór frá um síðastl. ágústmánaðarlok, hafi brotið þessi lög. Það hefir verið viðurkent, að í tíð fyrv. stj. hafi verið búið að gera ráðstafanir til þess að koma þessum lögum til framkvæmda. Það var búið að ákveða það, hverjum skyldi veita stöðurnar eftir lögunum. Sú stjórnarráðsskrifstofa, er átti að undirbúa þetta, var búin að fá fyrirskipun um að gera það. Hið eina, sem áfátt var, var það, að þetta afgreiðslustarf var ekki búið. En það er heldur ekki undarlegt, þegar þess er gætt, að ekki voru liðnir að fullu tveir mánuðir frá því lögin gengu í gildi. Á þeim tíma höfðust skipin lítið við hjer í Reykjavík. En það þurfti að ná til allra mannanna, sem á þeim störfuðu, til þess að vita, hvort þeir vildu taka á móti veitingu. Það var ákveðið að auglýsa ekki þessar stöður; hitt þótti sanngjarnara, að láta þá menn, er störfuðu á varðskipunum, ganga fyrir starfinu, ef þeir vildu. — Þá er það líka mishermt, að skjölin hafi legið á borði ráðherrans, er stjórnarskiftin urðu. Þau voru ekki þangað komin, er fyrverandi stjórn fór frá; skrifstofan var þá ekki búin að ganga frá þeim. Stjórnarskiftin fóru fram um helgi, og hefir skrifstofan lokið því eftir helgina að ganga frá þessum skjölum, en þá var nýja stjórnin tekin við. Í fjármálaráðuneytinu var strax ákveðið að búa til launalista samkv. lögum þeim, er gengu í gildi 1. júlí. En til þess að geta gert þessa skrá, þurfti að fá upplýsingar um mennina og starfsaldur þeirra, þar sem launahæðin átti að fara eftir því. En um þetta leyti voru skipin á verði við Norðurlandið, vegna síldveiðanna, og varð því nokkur dráttur á því að geta lokið þessu, en varð þó lokið fyrir annað skipið. En vegna þessa dráttar, sem hlaut að verða á þessu vegna fjarveru skipanna, þá var ákveðið að greiða fyrst um sinn áætlaða upphæð til þessara manna, sem svo yrði lagað að fullu, þegar launalistinn, væri orðinn ákveðinn. Það fer því fjarri, að fyrverandi stjórn bryti þessi lög á nokkurn hátt. Hún gerði einmitt alt, sem hægt var að gera til framkvæmdar á lögunum. En það tók eðlilega sinn tíma, og að það var ekki að fullu búið, stafaði aðallega af fjarveru skipanna um þetta leyti.

Fyrst nú á annað borð út í þetta mál er farið, þá vil jeg stuttlega minnast á það atriði, er hæstv. dómsmrh. blandaði látnum mönnum inn í þetta mál. Hæstv. dómsmrh. sagði, að Hannes Hafstein ráðherra hefði brotið lög; en það er ekki rjett. Hann gerði einungis það, að leggja ekki ein lög fyrir konung. Er það ekkert lögbrot, því stjórnarskráin gerir ráð fyrir því og mælir svo fyrir, að þau lög falli niður, er næsta Alþingi kemur saman. Það hefir því aldrei verið um þetta deilt á þeim grundvelli, að þetta hefði verið lögbrot, heldur að það hafi verið brot á þingræðinu. Jeg skal ekki fara nánar út í þetta. Aðeins geta þess þó, að ef ráðherrann hefði lagt þessi lög fyrir konung, þá hefði þeim verið synjað staðfestingar, vegna þess að í lögunum var ákvæði, er laut að danskri löggjöf og kom í bága við hana, eins og hún þá var orðin. Hitt dæmið, sem hæstv. dómsmrh. tók og beindi að Jóni Magnússyni, var það, að lögin um ríkisveðbanka Íslands hefðu ekki verið látin koma til framkvæmda. En það var hvorki Jón Magnússon nje heldur Magnús Guðmundsson, sem þá var líka í stjórn, heldur þriðji ráðherrann, sem nú er látinn, sem átti sök á því, ef um sök var að ræða. En hingað til hefir þetta ekki verið álitið neitt lagabrot, enda mundi slík ásökun hitta fleiri menn, og ekki síður flokksmenn núverandi hæstv. dómsmrh. en aðra þá, sem farið hafa með bankamálin í stjórn landsins. En af því jeg vil ógjarnan fara í deilur í dag, þá læt jeg ósvarað því, er hæstv. dómsmrh. vjek að okkur fyrverandi stjórn.

Þá fór hæstv. dómsmrh. allmörgum orðum um hinar almennu ástæður, sem lægju til grundvallar fyrir því, að hann hefði viljað lækka laun varðskipaforingjanna. Jeg get nú tekið undir það svona alment, að gát þurfi að hafa á því, hvað þjóðfjelagið þoli í því efni. Þá talaði hæstv. ráðh. um vond fordæmi um of há laun, sem hefðu haft víðtæk eftirköst. En hæstv. dómsmrh. svaraði því ekki, sem jeg benti á í ræðu minni, að þó skipstjórum varðskipanna væru greidd hærri laun en frv. stjórnarinnar eða brtt. meiri hl. gerir ráð fyrir, þá er ekkert fordæmi gefið með því, þar sem hliðstæð störf eru áður launuð hærra, svo sem er um skipstjórastöður Eimskipafjelagsskipanna og skipa ríkissjóðs. En mjer finst alls ekki hægt að ganga framhjá launakjörum þeim, er skipstjórinn á Esju hefir, þegar ákveða skal launakjör varðskipstjóranna. Hæstv. dómsmrh. tók enga afstöðu til ummæla minna um þetta, og jeg óska heldur ekki eftir því, að hann geri það strax. Jeg óska miklu frekar eftir því, að hæstv. dómsmrh. athugi þetta mál í ró og næði, og vonast jeg þá til þess, að hann komist að þeirri sanngjörnu niðurstöðu, að rjett sje að ákveða laun þessara manna í samræmi við aðrar hliðstæðar stöður.

Hæstv. dómsmrh. fór, máli sínu til sönnunar, að vitna í bankastjóralaunin. En þar fór nú hæstv. ráðherra fyrst og fremst út fyrir fordæmi ríkissjóðs, þar sem hann fór að tala um laun Eggerts Claessens, bankastjóra við Íslandsbanka. Jeg hefi nú í raun og veru ekki ástæðu til að fara inn á það atriði. En þó þykir mjer rjett, að það komi hjer fram, að eftir því, sem mjer hefir verið sagt, þá var sá samningur bygður á tvennu. Í fyrsta lagi, að það þótti miklu skifta að fá duglegan og kunnugan mann, er vænta mátti, að helst væri fær um að leiða bankann út úr þeirri kreppu, sem hann var þá kominn í. Hinsvegar var þessi maður atvinnurekandi hjer í bænum, og var kaupið miðað við það, sem sú atvinna gaf honum í arð, enda gaf hann ekki kost á sjer, nema telja mætti, að hann slyppi skaðlaus af að taka bankastjórastöðuna að sjer.

Mjer var alveg ókunnugt um það, að skipstjórarnir á varðskipunum hefðu nokkrar aukatekjur. Og jeg hygg nú, að þessi dæmi, sem hæstv. dómsmrh. tók fram, beri fremur að skoðast sem fágæt höpp heldur en að rjett sje að reikna með þeim sem venjulegum tekjum. En sje sú ályktun röng hjá mjer og þetta sje venja, þá hefi jeg ekkert að athuga, þó gert sje ráð fyrir því, þegar launin eru ákveðin. Hæstv. ráðherra sagði, að skrifstofustjórinn í fjármálaskrifstofu ráðuneytisins hefði engin aukastörf. En hann hefir haft þau. Nú er hann veikur og mun varla geta þess vegna sint sínum eigin störfum að fullu, og þá því síður gegnt aukastörfum. Um skoðun hæstv. dómsmrh. um afstöðu stjórnarinnar alment til starfsmanna ríkisins vil jeg segja það, að jeg er á gagnstæðri skoðun við það, sem fram kom hjá honum. Hæstv. dómsmrh. sagði beint, að ef stjórninni líkaði ekki við starfsmennina, þá ætti hún að láta þá fara og fá aðra, og að ríkið væri ábyrgðarlaust gagnvart starfsmönnum sínum og ætti að geta sagt þeim upp, þegar þeir væru ekki lengur bestu fáanlegir starfskraftar, og rjett væri þar að fara að dæmi atvinnurekenda. En því er til þess að svara, að mjög fáir atvinnurekendur gera þetta. En hinsvegar er staða atvinnurekenda venjulega ekki svo trygg, að hægt sje að ráða þangað menn til langrar þjónustu. En ríkið hefir sjerstöðu á þessu sviði, því ekki er hægt að gera ráð fyrir því, að það leggist niður, sje ekki farið út fyrir eðlileg takmörk. Getur því ríkið boðið tryggari stöður heldur en atvinnurekendur alment geta, og á að nota aðstöðu sína til þess að skapa fordæmi á því sviði. Ríkið á því að nota þessa sjerstöðu sína á þann hátt, að láta starfsmenn sína ekki tapa stöðum sínum fyrir það eitt, að þeir sjeu komnir af hinu ljettasta skeiði, meðan þeir þó leysa störfin af hendi með alúð og samviskusemi. — Það er yfirleitt talið óheppilegt, að mikið los sje á starfskröftum ríkisins. Þess vegna er það trygt með stjórnarskránni, að ekki sje hægt, þegar stjórnarskifti verða, að setja starfsmönnum ríkisins stólinn fyrir dyrnar, hvorki af flokkslegum nje öðrum pólitískum ástæðum. Að vísu eru til ríki, þar sem gagnstæðri reglu hefir verið fylgt. Svo er um Bandaríki Norður-Ameríku. Þegar ný stjórn sest að völdum, þá sónar hún burtu starfsmönnum og setur aðra í staðinn. Yfirleitt er samt talið, að þetta gefist illa. En að það hefir ekki komið alvarlega að sök í Bandaríkjunum, stafar af því, að þau eru svo auðugt land og möguleikar til atvinnurekstrar eru þar svo miklir á öllum sviðum, að þetta hefir ekki gert þjóðfjelaginu verulegt tjón. En þar sem atvinnuvegirnir eru fábreyttir og landið fátækt, væri hreinn og beinn þjóðarvoði að losa þannig um starfsmannahald ríkisins.

Jeg hefi ekki komið auga á neina ástæðu til að láta aðra reglu gilda um starfsmenn ríkisins á varðskipunum en aðra starfsmenn þess. Hinsvegar hefi jeg altaf haldið því fram, að ríkinu bæri engin skylda til að halda þá lengur en þörf er á. Jeg hygg líka, að það sje fullljóst af núgildandi lögum, að landið geti losnað við þá.

Hæstv. ráðh. mintist á þann starfsmann í hagstofunni, sem skipaður var til starfs þar og fjekk leyfi til að gegna öðru starfi og neytti þess leyfis í 7 ár. Lögin um hagstofuna mæla svo fyrir, að þar skuli vera hagstofustjóri og annar starfsmaður ásamt honum, lærður hagfræðingur, ef völ er á slíkum manni. Nú var um nokkur ár ekki völ á öðrum lærðum hagfræðingi en Hjeðni Valdimarssyni, en aukastarfi hans var nú svo háttað, að hann kom alls ekki að starfi sínu í hagstofunni. En svo kom breyting á þetta. Lærður hagfræðingur kom hingað og sótti um stöðuna og fjekk hana, af því að jeg áleit, að hagstofan þyrfti á öllum þeim starfskröftum að halda, sem henni eru ætlaðir.

Jeg skal svo geta þess, að jeg er mótfallinn brtt. hv. 5. landsk. um að fella burtu það ákvæði frv., sem þar um ræðir.