08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

34. mál, varðskip landsins

Jón Baldvinsson:

Jeg vil aðeins bæta við lítilsháttar upplýsingum út af því, að hv. 2. þm. Reykv. var vikið úr embætti við hagstofuna. Jeg veit ekki betur en hann færi fram á það, þegar hann fjekk brjef frá fyrverandi fjmrh., þar sem þess var krafist, að hann gæfi ákveðið svar strax um það, hvort hann ætlaði að setjast í embættið, að þá hafi háttv. 2. þm. Reykv. óskað eftir fresti til vors, því þá gat hann vitað, hvort landsverslunin yrði lögð niður eða ekki.

Jeg verð að segja, að það var talsverð óbilgirni, sem fyrv. stjórn sýndi þessum starfsmanni landsins, sem hafði loforð fyrir stöðu hjá ríkinu.

Það er út af fyrir sig gleðilegt, að hv. 3. landsk. og hæstv. dómsmrh. Skuli einhverntíma geta verið sammála, en jeg vildi aðeins óska, að þeir vildu fylgjast að um eitthvert betra málsatriði en þetta, sem þeir nú eru sammála um. Jeg hygg nú líka, að hv. 3. landsk. þætti hart, ef honum væri bannað að vera í því stjettarfjelagi, sem hann er í, og að hann væri ranglæti beittur, ef honum væri meinað að taka þátt í fjelagsskap stjettarbræðra sinna, en það er það ranglæti, sem hann vill beita sjómennina á varðskipunum.