04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. 2. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg hefi ekki getað orðið sammála hinum fjórum samnefndarmönnum mínum í þessu máli. Jeg hefi verið þeirrar skoðunar, eins og Alþýðuflokkurinn yfirleitt, að ekki þyrfti svo miklar umbúðir um varðskipin, sem fram komu í lögunum frá síðasta þingi, þar sem ekki var annað sýnna en að verið væri að stofna vísi til sjóhers. Okkur hefir fundist nægilegt, að yfirmennirnir einir skuli vera sýslunarmenn ríkisins, en aðrir skipverjar skuli ráðnir með svipuðum kjörum og tíðkast á Eimskipafjelagsskipunum eða skipum ríkisins, Esju og Selfossi. En að taka hjer upp fjölda manna og kalla þá sýslunarmenn ríkisins, og setja sjerstök lög um kyndara og háseta, sem máske eru ekki nema mánuð á varðskipunum, það er beinlínis hlægilegt, og þá til hins verra.

Fyrverandi stjórn tók upp þessa stefnu og núverandi stjórn hefir fetað í fótspor hennar, enda þótt hún hafi ekki gengið út af eins langt í hernaðaráttina, þótt frv. þetta sje að vísu svo keimlíkt hinu fyrra, að mismunurinn megi teljast bitamunur en ekki fjár. Þó þykist jeg sjá, að skárra verði, að frv. þetta verði að lögum en að lögin frá í fyrra haldist, og mun því verða því fylgjandi, að frv. þetta nái fram að ganga með vissum breytingum.

Í fyrsta lagi tel jeg þá breytingu sjálfsagða, að ekki verði aðrir skipverjar en yfirmenn taldir sýslunarmenn ríkisins. Aðrir skipverjar sjeu ráðnir með sömu kjörum og tíðkast á skipum Eimskipafjelagsins. Þessir hásetar sjeu undir hinum almennu sjólögum um rjettindi og skyldur og aga yfirmannanna. 5. og 6. gr. frv., þar sem eru sjerstök ákvæði um skyldur og störf skipverja á varðskipunum, falli því niður.

Þá vil jeg ekki skerða athafnafrelsi þessara manna svo mjög, að þeim sje bannað að hætta vinnu. Það stappar næst þrældómi, að menn sjeu neyddir til að vinna á móti vilja sínum. En bann gegn verkfalli háseta á varðskipunum er í frv. þessu eins og lögunum í fyrra.

Jeg þori að fullyrða, að enginn vandi er að komast hjá verkföllum á varðskipunum, ef skynsamlega er að farið. Þótt verkfall kynni að verða á Eimskipafjelagsskipunum, mætti setja það ákvæði í varðskipalögin, að greiða skuli sama kaup á varðskipunum og var er verkfallið hófst, uns sættir eru komnar á aftur og samningar hafa tekist, eða einungis fara svo að í framkvæmd laganna með samningi við Sjómannafjelagið. Með þessum hætti mætti komast hjá öllum verkföllum á varðskipunum, og ætti því engin hætta að stafa af því að fella greinina um bann gegn verkföllum niður.

Í fyrra var rætt allítarlega um muninn á afstöðu sjómanna eftir varðskipalögunum og hinum almennu sjólögum. Má í fám orðum segja, að í varðskipalögunum sje einvörðungu um. skyldur að ræða, en í sjólögunum komi ýms rjettindi á móti, í sjúkratilfellum og oftar. Kjör skipverja eftir varðskipalögunum eru því mun lakari en ella.

Við alþýðuflokksmenn álítum, að til þess að landhelgigæslan sje í góðu lagi, sje jeg ekki einhlítt, að yfirmenn skipanna sjeu vanir og kunnugir, heldur þurfi og kjör hásetanna að vera svo viðunandi, að þeir geti tollað á skipunum og vanist störfum sínum. En sjeu kjör þeirra lakari en farmanna yfirleitt, verður afleiðingin auðvitað sú, að þeir fara af skipunum undir eins og þeir geta og þangað safnist yfirleitt ljelegar skipshafnir, sem ekki eiga annars úrkostar. Mjer virðist því, að þau lög, sem nú gilda, og einnig þetta frv. eins og það er, miði að því, að gera landhelgigæsluna lakari en hún þyrfti að vera.