03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1929

Sveinn Ólafsson:

Jeg mun vinna mjer fremur ljett verk í þetta skifti og ekki fara í liðsbón. Jeg þykist ekki þurfa þess, af því að jeg að þessu sinni á ekki neinar brtt., sem lúta að fjárbeiðnum eða auknum útgjöldum. Að vísu er nafn mitt tengt við eina brtt. í þeim kafla fjárlaganna, sem liggur fyrir, 34. till. á þskj. 353, en þar er aðeins um að ræða ábyrgð á láni, sem Búðahreppur ætlar að taka og hefir lengi áformað að taka vegna rafveitu þeirrar, sem til stendur að koma þar á.

Tvisvar sinnum áður hefir þessi ábyrgðarheimild v erið veitt, 1920 og 1923, en í hvorugt skiftið notuð, vegna þess að bygging var þá of dýr og alt, sem til þurfti, með því ókjaraverði, að hreppurinn sá sjer ekki fært að nota hana. Nú er verðlagið á þessum hlutum, eins og líka að nokkru leyti á vinnu, það fallið, að tiltækilegt getur verið að ráðast í þetta. Vatnsfallið, sem nota á, er nærri og tiltölulega vel lagað til notkunar.

Jeg ætla þó ekki að þessu sinni að óska eftir atkvæðum um þessa till.; jeg ætla af sjerstökum ástæðum að taka hana aftur til 3. umr.

Mjer þykir tilefni til, áður en til atkv. er gengið um till. þær, sem fyrir liggja, að taka fram, að jeg mun í þetta skifti styðja þær till. einar, sem ekki lúta að mjög freklega aukinni eyðslu á ríkisfje. Og það geri jeg vegna þess, að þótt jeg viðurkenni margar af þeim frambærilegar, þá vil jeg fyrst sjá hilla undir afgreiðslu einhverra tekjuaukafrv.

Jeg vildi taka það fram um 26. till. á þskj. 353, að mjer hefði þótt betur við eiga, að hún hefði verið tekin aftur til 3. umr. Jeg vil sem sje ekki viðurkenna að fullu kröfur þær, sem komið hafa fram, hvorki frá prentsmiðjunni, sem orðabókina prentaði, nje heldur frá manni þeim, sem prófarkirnar las, — kröfur um aukna greiðslu fram yfir það, sem um var samið; — jeg vil ekki viðurkenna þær á þann hátt, sem gert er í brtt., en jeg vil hinsvegar leggja lið mitt til, að einhver uppbót verði veitt. Mjer þykir meira en verðugt að veita útgefendum bókarinnar einhverja viðurkenningu.

Um 23. till. á þskj. 353 vil jeg taka undir þau orð, sem fjellu nýlega hjá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Mjer finst það makleg viðurkenning fyrir þessa konu, að hún fái þennan styrk.

En á þessu sama þskj. eru tvær tillögur, sem jeg finn sjerstaka ástæðu til að vara við; það er 35. og 36. till. Af sama toga er spunnin ein till. á þskj. 374. Það eru eftirgjafir á lánum eða uppbót á kostnaði, sem hlutaðeigandi sýslufjelög hafa lagt í á sínum tíma vegna vegagerðar. Jeg sje ekki betur en að það muni hver á fætur öðrum koma með þvílíkar kröfur, ef þetta verður samþ., og að hvert einasta sýslufjelag á landinu hafi hliðstæðan rjett við það sýslufjelag, sem hjer á hlut að máli. Þær till. tel jeg mjer því ekki fært að styðja. Mjer mundi vera mjög óljúft að koma með slíkar till. fyrir mitt hjerað, en jeg veit vel, að það hefir engu minni rjett til þessara eftirgjafa.

Þetta var það helsta, sem jeg vildi segja í þessu efni; að öðru leyti mun jeg við atkvgr. sýna, hvernig jeg lít á þær einstöku till.