11.04.1928
Neðri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

34. mál, varðskip landsins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg gat þess við 2. umr. málsins, að jeg mundi verða að hafa af því nokkur frekari afskifti við 3. umr., en skal reyna að haga orðum mínum svo, að það gefi ekki tilefni til langra umræðna eða þurfi að vekja deilur. Mun jeg gera mjer far um að ræða málið eingöngu á grundvelli brtt. minna. Brtt. mínar eru allmargar, en ekki að sama skapi róttækar. Byggjast þær fyrst og fremst á þeirri skoðun minni, að jeg lít öðrum augum á starf þessara manna á varðskipunum en ýmsir aðrir. Bak við mína skoðun liggur skoðun allflestra, sem unnið hafa á skipunum fram á þennan dag, og fjölmargra annara. Jeg verð að segja, að bæði í þessu frv. eins og það nú er, og þó einkum í lögunum frá í fyrra, finst mjer þess kenna alt of mikið, að herskip annara þjóða eru tekin til fyrirmyndar. Jeg hefi þá skoðun, að þessi skip okkar eigi sem allra mest að vera fráskilin slíku. Á þá menn, er á þeim vinna, ber að líta sem hverja aðra farmenn, er sigla við strendur landsins.

Þessi skoðun kemur skýrt fram í 1. brtt. minni, að því er tekur til háseta, viðvaninga eða lærisveina, kyndara og að vissu leyti um þann flokk manna, er annast matreiðslu og þjónustu á skipunum. Þetta eru þeir menn, sem kallaðir eru undirmenn, og mjer er óhætt að fullyrða, að langflestir þeirra, ef ekki allir, líta á siglingarnar með varðskipunum eins og hverja aðra atvinnu. Þeir sigla með þessum skipum tvo til þrjá mánuði, en sæta færi að komast í betra skiprúm, ef það býðst annarsstaðar. Þetta á þeim að vera frjálst. Þeir eiga að geta komið og farið eftir því samkomulagi, sem alment gildir um vinnu á sjó. —. Jeg hefi getað fallist á þá skoðun, að yfirmennirnir, það er að segja þeir af skipverjum, sem einhver próf eða sjerkunnáttu þurfa að hafa, skipstjórar, stýrimenn og vjelstjórar, megi og verði jafnvel að hafa sjerstöðu að þessu leyti. Þeir hljóta að verða nokkurskonar embættismenn. Samfara próflærdómi sínum hafa þeir orðið að leggja á sig meiri eða minni verklega æfingu, sem alment er ekki heimtuð af hásetum. Þó er það víða, t. d. hjá Eimskipafjelagi Íslands, að enginn getur orðið fullgildur háseti, nema hann hafi siglt a. m. k. eitt ár sem viðvaningur. Um það verður að krefjast hins sama á varðskipunum. Aldurstakmark er ekki talað um, enda hlýtur það atriði mjög að fara eftir því, hve snemma menn hafa byrjað sjómensku, ásamt líkamsþroska hvers eins. — Það eru einmitt miklar líkur til, að sá flokkur skipverjanna, sem mesta sjerkunnáttuna hefir, verði fastastur í ríkisins þjónustu, og því er rjett, að þeir sjeu opinberir sýslunarmenn. Hina er engin ástæða til að nefna því nafni, frekar en aðra, sem vinna í þjónustu landsins stuttan tíma, við tolleftirlit, vegagerð eða annað.

Þá kemur önnur brtt. mín, og er hún um nýja orðun á 4. gr. frv. Breytingin er í því fólgin að ákveða, hvaða launakjör undirmenn skipanna eiga að hafa. Segir svo í brtt., að launasamningar, er yfirvjelstjóri og skipstjóri gera, skuli vera samhljóða samningum þeim, er gilda á íslenskum verslunarskipum á hverjum tíma. Jeg verð að segja það sem mína skoðun, að með tilliti til launa annara á skipunum hafa undirmennirnir mjög lágar tekjur. Fullgildur háseti fær röskar 2500 kr. og aðrir þaðan af minna. Það er of lágt, því að á þessi skip eins og önnur hljóta að veljast m. a. menn, sem hafa fyrir heimili að sjá. Það er ómögulegt að heimta, að á skipunum sjeu eingöngu einhleypir menn. Mjer er kunnugt um mjög skýran, efnilegan og duglegan mann, sem ráðist hafði á annað varðskipið, en varð að fara þaðan, því að kaupið var of lágt til að framfleyta honum og heimili hans. Þó bjó hann í kauptúni úti á landi, þar sem einum þriðja hluta ódýrara er að lifa heldur en hjer í bæ. Hjer í hv. þd. eru menn, sem geta vitnað, að jeg fer hjer rjett með. Um það þarf engum getum að leiða, að laun undirmannanna eru of lág, hvort sem miðað er við farmenn alment eða við þarfir manna. Því er brtt. mín fram borin, til að fá nokkra rjettingu á þessu misrjetti. Ef hún verður samþykt, geta þessir menn verið alveg lausir við að taka nokkurn þátt í launadeilum, og er þar með fallin úr sögunni sú grýla, sem ýmsir hafa viljað gera mikið úr, að þessir menn mundu taka þátt í verkföllum.

3. brtt. mín er við 5. gr. og breytir henni nokkuð frá því, sem er í frv. Í frv. er gert ráð fyrir, að skipstjóri sje sá einvaldi maður, sem geti sagt skipverja upp skiprúminu án nokkurrar gagnrýni, fyrir hverjar þær sakir, er honum sýnist. Jeg þekki það inn í viðskiftalíf manna, að það þarf ekki mikið út af að bera til þess að mönnum verði sagt upp starfi án þess nokkrar gildar ástæður sjeu fyrir hendi. Fyrir þetta vil jeg byggja á þann hátt, að farið sje eftir sjólögunum á hverjum tíma og þeim ákvæðum, sem eru í 3. brtt. minni, að dómsmálaráðuneytinu sje tilkynt, ef slík uppsögn fer fram, og sje því gefinn kostur á að úrskurða, hvort rjett sje að farið gagnvart hlutaðeigandi mönnum. Jeg verð að líta svo á, að þó að um undirmenn á skipunum sje að ræða, þá eigi þeir fullan rjett á allri sanngirni, þegar atvinnuuppsögn á sjer stað, engu síður en yfirmenn skipanna. En eftir frv. er ómögulegt að sjá, að rjettur þeirra í þessu efni sje á nokkurn hátt trygður.

Þá er 4. brtt., um þau störf og skyldur, sem þessir menn eiga að inna af hendi. Jeg hefi að nokkru leyti lýst því; jeg álít svo mikinn skyldleika milli þeirra starfa, sem menn verða að vinna á skipunum, að það geti nákvæmlega sömu reglur gilt um skyldur og störf þessara manna eins og á verslunarskipunum alment. En þar sem sjólögin eru allónákvæm um vinnutíma og ýms hlunnindi, sem farmenn njóta alment nú, þá hafa verið gerðar ýmsar takmarkanir og breytingar með samningum við útgerðarfjelögin, er veita mönnum meiri rjett og frjálsræði en sjólögin gera ráð fyrir. Heyrt hefi jeg því mjög haldið fram, að það þurfi að vera svo afarstrangur agi og regla á þessum skipum. En jeg vil aðeins benda á, að eftir þeim almennu sjólögum, sem bæði við og aðrar þjóðir lifum undir, þá er aginn svo strangur, að óhætt er að segja, að við finnum ekki í neinni löggjöf jafnmikið vald gefið í hendur þeim, sem stjórna, eins og skipstjórum er gefið. Það er því algerlega óþarft að semja einhverjar reglur um strangari aga en nú er.

Þá er það 5. brtt., við 7. gr. Það stendur í frv., að það skuli kenna stýrimannaefnum fræðilega og verklega sjómensku. Jeg er kannske einn um þá skoðun, sem jeg nú vil setja fram. Skilji maður þessi orð bókstaflega, virðist mjer hugmyndin, að skipin sjeu nokkurskonar stýrimannaskóli. Sje svo, get jeg ekki fallist á þessa grein. Hjá erlendum siglingaþjóðum þekkist það ekki, að á herskipum eða verslunarskipum sje nein fræðileg kensla í orðsins fylstu merkingu; þar með meina jeg þá bóklegu fræðslu sem kend er í stýrimannaskólum. Á herskipum Dana ættu ef til vill að vera skilyrði fyrir þessari kenslu, en jeg veit ekki betur en danski herinn haldi uppi þremur skólum, fyrir þrjár tegundir yfirmannaflokka. Yfirleitt er skoðun manna sú, að hin fræðilega kensla þurfi svo mikla árvekni, svo mikla kyrð og góða aðstöðu, líkt og gerist um skólanám í öðrum fræðigreinum, að ekki sje hægt að hafa hana um hönd á siglingum á höfum úti. En öll verkleg kensla, sem lýtur að sjómensku, er yfirleitt kend á verslunarflotanum, og jeg vil segja á herskipunum, eins og tök eru á. Svo hafa sumar þjóðir líka nokkurskonar skólaskip, og er í Danmörku eitt slíkt. Jeg skal ekki fullyrða, hvort það er kostað af ríkinu eða útgerðarfjelagi. Slík skip eru eins og unglingaskólar fyrir þá, sem ætla að gera sjómenskuna að lífsstarfi sínu, og kenslan þar er fyrst og fremst verkleg, — þeir „læra Sjóinn“, eins og sagt var í gamla daga. En fræðilega kenslan er látin fram fara í landi. Jeg held því, að það yrði aldrei barn í brók, ef ætti að koma fyrir fræðilegri kenslu um borð í þessum skipum. Ef gæslustarfið á að verða rekið með nokkuð mikilli árvekni, þá er það ærið nóg starf bæði fyrir undirmenn og yfirmenn, og sjerstaklega ef þessi skip eiga að meira eða minna leyti að vera björgunarskip, eða ávalt reiðubúin til hjálpar í því efni, eins og þingið virðist vilja stefna að. Ef sú fræðilega kensla ætti að fara fram að mestu á sjó, er gengið framhjá stýrimannaskólanum, — og hvað eigum við þá að gera með að hafa stýrimannaskóla í landi? Annars ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta, en vildi láta skoðun mína koma fram í þessum fáu orðum.

Þá er það 6. og síðasta brtt., sem jeg bæti aftan við; hún heyrir undir þá flokka, sem jeg hefi gert að umtalsefni, skipstjóra, stýrimenn og vjelstjóra, sem í raun og veru er búið að ákveða, að skuli vera á föstum launum. Jeg lít svo á, að það sje ekki nema sanngjarnt, að þessir menn verði sama rjettar aðnjótandi eins og aðrir starfsmenn ríkisins, — eigi rjett til eftirlauna, og greiði þá að sínum hluta í eftirlaunasjóð. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að Eimskipafjelagið hefir komið upp eftirlaunasjóði handa sínum yfirmönnum öllum. Og jeg veit ekki betur en að á því eina skipi, sem ríkissjóður á og rekur, nefnilega Esju, njóti skipverjar þess sama rjettar í skjóli Eimskipafjelagsins.

Jeg lofaði í upphafi, að jeg myndi ekki tala með neinni áreitni til neins manns í þessu máli. En jeg vænti þess, að hv. þdm. skilji, að þessar brtt. eru bygðar á nokkurri sjerþekkingu á þessum málum, því að jeg þykist vera það vel kunnugur öllu því lífi, sem tíðkast á sjó á hafskipum okkar, að jeg geti upplýst þetta mál af meiri sjerþekkingu en hver annar þingmaður hjer í hv. deild. Vænti jeg því, að hv. þdm. taki til greina það, sem jeg hefi flutt hjer fram í málinu, og samþ. brtt. mínar.