11.04.1928
Neðri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

34. mál, varðskip landsins

Jón Auðunn Jónsson:

Það var sjerstaklega um brtt. okkar háttv. þm. Vestm. á þskj. 723, sem jeg vildi segja nokkur orð. Okkur þótti vel hlýða að gefa hæstv. dómsmrh. tækifæri til þess að standa við þá samninga, sem gerðir hafa verið milli skipherranna og ríkisstjórnarinnar, enda finst okkur ótilhlýðilegt í alla staði, að Alþingi samþ., að ríkisstjórnin skuli ekki standa við gerða samninga, hver sem í hlut á. En mjer finst, ef hv. meiri hl. fellir þessa brtt., þá sjeu flokksbræður hæstv. dómsmrh. að þvo einhvern blett af honum, og að sú samþykt eigi að notast sem einskonar skjól fyrir misgerðir ráðherrans. En slíkt skjól — jeg vil ekki segja skálkaskjól — á Alþingi ekki að vera, enda á engan hátt sæmandi virðingu þess.

Annars hefði það verið ánægjulegt að heyra sparnaðartölu þá, er hæstv. dómsmrh. flutti hjer, ef hún hefði ekki verið jafnhjáróma við framkvæmdir hæstv. ráðh. og raun ber vitni. T. d. er nú vitanlegt, að þann stutta tíma, sem þessi ráðh. hefir farið með völd, hefir hann verið frekar ógætinn í launagreiðslum til þeirra manna, sem hann hefir skipað til ýmsra starfa, bæði fastra og lausra, að ógleymdri margskonar bruðlunarsemi, er hann hefir gert sig mjög beran að á þessu þingi.

Það er ekki nema sjálfsagt að viðhafa sparnað þar, sem honum verður við komið án þess að sýna órjettlæti eða brjóta lög. Hækkunartill. okkar eru því ekkert annað en að nálgast þá samninga, sem gerðir hafa verið um laun þessara manna, og þar eru þau ákveðin hærri en í brtt. og með hliðsjón af því, sem tíðkast á öðrum skipum, eins og t. d. hjá Eimskipafjelagi Íslands. Það er ekki hægt að bera saman launagreiðslur til sjómanna við þá, sem vinna í landi við skrifstofustörf eða annað þess háttar. Það tíðkast líka altaf, að greidd eru hærri laun á sjó en í landi. Enda er þetta ekki nema rjettmætt og eðlilegt, þegar litið er á hættu þá og erfiði, sem sjómenn hafa fram yfir þá, sem í landi vinna.

Í þessu sambandi vil jeg benda á, að hjá fjelagi, sem jeg er viðriðinn, var launagreiðslan sú árið 1925, að það voru aðeins þrír menn á skipunum, hjálparkokkurinn og tveir kyndarar, sem höfðu lægri laun en framkvæmdarstjórinn; allir hinir, sem á skipunum unnu þetta ár, höfðu hærri laun en framkvæmdarstjórinn, og sumir mun hærri.

Þess vegna mótmæli jeg því eindregið, að brtt. okkar á þskj. 724, ef samþ. verða, feli í sjer nokkurt fordæmi eftirleiðis um laun embættismanna yfirleitt. Því að ef um fordæmi gæti verið að ræða, þá hefir það verið skapað, þegar ákveðin voru laun yfirmannanna, sem vinna við útgerð ríkisins á Esju. Að starfið á varðskipunum sje miklu einfaldara og ljettara en á þeim skipum, sem siglingar stunda milli landa og með ströndum fram, er mesti misskilningur. Starf varðskipanna er margfalt erfiðara og hættumeira. Þau verða að vera úti í öllum veðrum og t. d. leggja sig í hættu við að bjarga öðrum skipum. Starf þeirra manna, sem á varðskipunum vinna, hlýtur að verða óreglubundnara en manna á farskipum. Ef þeir eiga að ná í skip, sem er að brjóta landhelgilögin, verða þeir að vinna hvernig sem á stendur og neita sjer um svefn eða önnur þægindi, sem farmenn geta veitt sjer reglulegar.

Jeg er samþ., hæstv. dómsmrh. um það, að stefnt er í óefni með útgjöld ríkisins, ef eitthvað verulega út af ber. En þar sem hann játar þetta, kemur mjer það undarlega fyrir sjónir, að hæstv. dómsmrh. með sínum trygga meiri hl. skuli ekki hafa viðhaft meiri gætni í afgreiðslu fjárlagafrv., heldur hækkað útgjöldin stórum, og ekki nóg með það: bætt ofan á stórum útgjaldaauka utan við fjárlögin. Í þessu finst mjer koma fram meira ósamræmi en svo, að ástæða sje til að taka mark á því, sem hæstv. dómsmrh. Segir í þessu efni. Ef þetta sparnaðartal hans nú er annað en blekking, sem notast á í þessu eina máli, þá mætti hann segja: „Hið góða, sem jeg vil, það geri jeg ekki, en það vonda, sem jeg vil ekki, það geri jeg“.