04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1382)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Í eðli sínu er nú jafnan svo, að breyting á stjórnarskipunarlögum er stórmál. Og þótt af ýmsu megi draga þá ályktun, að margir telji, að hjer sje eigi um stórvægilegar breytingar að ræða á stjórnskipunarlögum þeim, er nú gilda, þá er þó breyting á stjórnskipunarlögunum jafnan mikilsvert mál. Jeg skal þó eigi tefja með langri ræðu að þessu sinni, einkum vegna þess, að mál þetta hefir verið allmikið rætt hjer í deildinni á þinginu í fyrra.

Eins og um getur í nál. meiri hl., þá hefir nefndin eigi getað orðið samferða, og hefir hvor hluti nefndarinnar skilað sínu áliti.

Í nefndaráliti meiri hl. er þess getið, hvert verið hefir helsta áhugamálið um stjórnskipunarlagabreytingu á undanförnum þingum, sem er það, að þing skuli haldið aðeins annaðhvert ár. Því hefir verið haldið fram, og það sennilega með allmiklum rökum, að meiri hluti þjóðarinnar óskaði eftir þeirri breytingu. En nú má telja, að síðustu kosningar ættu að snúast um þær breytingar, sem hjer liggja fyrir, þar sem þing var rofið og kjördagur ákveðinn með sjerstöku tilliti til þeirra. En hvernig hefir svo þjóðin tekið í þessar breytingar? Jeg verð að líta svo á, að þjóðin hafi tekið þeim fremur fálega. Þar sem jeg þekki til hafa þær alls ekki verið aðalmálið, er rjeði úrslitum kosninganna, og sumstaðar alls ekki hreyft. — Að vísu má nú segja, að þekking mín á þessu sviði nái skamt. En jeg hefi þó aðrar og allgóðar heimildir, þar sem eru þingmálafundagerðir þær, er til Alþingis hafa borist. Jeg hefi farið yfir þær allar, sem til þingsins hafa borist, 19 að tölu, auk hjeraðssamþyktar úr Vestur-Ísafjarðarsýslu, eða 20 alls. Og hvað segja þær? Þær, sem hafa tjáð sig samþykkar breytingunum, eru 5, 10 hafa samþykt að fella þær, og í 4, auk hjeraðssamþ. V.-Ísf., er ekki minst á stjórnarskrárbreytingarnar. Þegar þetta er athugað, að á langflestum þingmálafundunum eru þær ýmist ekki virtar þess, að um þær sje talað, eða þá lagt beint á móti þeim, þá fer að verða lítið úr þeirri ástæðu, að þjóðin óski eftir þessari breytingu, og aðalástæðan fyrir þinghaldi aðeins annaðhvert ár er þar með fallin.

Því verður varla neitað, að fækkun þinga væri í raun og veru spor stigið aftur á bak og í íhaldsáttina. Með því væri valdið í stjórnmálunum að nokkru dregið frá kjósendum, og vald stjórnarinnar aukið að sama skapi. Auk þess er það tvímælalaust, að eins og fjármálum þessa lands er nú varið, þá er mikill vandi að semja fjárlög til tveggja ára í senn, svo vel fari. Reynslan sýnir, að það er fullerfitt fyrir eitt ár í senn.

Þá vil jeg lítillega minnast á 4. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að þingmenn skuli kosnir til 4 ára, hinir landskjörnu sem þeir kjördæmakjörnu, og að þingrof nái til þeirra. Það má nú að vísu segja, að þetta sje spor í þjóðræðisáttina. Vinna því þessar tvær greinar, sem jeg hefi talað um, 1. og 4. gr., hvor á móti annari, frá því sjónarmiði. Má því, frá því sjónarmiði sjeð, segja, að 4. gr. sje til bóta. En þegar aftur á móti litið er á upphaflegan tilgang landskjörsins, þann, að skapa festu í þingið, þá er sýnilega hvikað frá þeirri stefnu með frv. Sjálfur lít jeg nú svo á, að festa sje góð og meira öryggi í því að breyta til smám saman. En um það má sjálfsagt lengi deila, hvort betra er. En landskjörið veitir einnig rjett í öðrum skilningi, þann, að bæta að nokkru úr misrjetti því, er nú þykir koma fram vegna gildandi kjördæmaskipunar. Og sje eingöngu litið á breytinguna frá því sjónarmiði, má segja, að hún eigi rjett á sjer, því að þá er ekki nema eðlilegt, að þessir þingmenn sjeu sömu lögum háðir og aðrir þingmenn.

5. gr. frv. er að vísu breyting til bóta. En hinsvegar tel jeg hana ekki svo þýðingarmikla, að til mála komi að samþ. frv. hennar vegna.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, tel jeg stefnu þá, sem fram kemur í 1. gr. frv., mikla afturför, eða stórt spor aftur á bak enda sýnist svo, sem flytjendum málsins hafi verið það ljóst, að hjer var um tvírætt atriði að ræða, að hafa Alþingi annaðhvert ár. Má þar til vísa í síðustu málsgr. 1. gr., sem jeg vil lesa hjer, með leyfi hæstv. forseta: „Með lögum má ákveða, að reglulegt Alþingi skuli háð árlega.

Það á því að vera komið undir vilja þingsins í það og það skiftið, hvort Alþingi skuli háð árlega eða ekki. Þetta virðist mjer benda til þess, að flytjendum málsins hafi ekki verið mikið alvörumál um þetta atriði. Verð jeg að telja þetta atriði beint hættulegt, því að það getur farið alveg eftir geðþótta meiri hlutans í þinginu, á hverjum tíma, hvort Alþingi er háð annaðhvert ár eða á hverju ári, eða: jafnvel tvisvar á ári.

Þó að meiri hl. nefndarinnar viðurkenni að vísu, að í frv. felist nokkrar rjettarbætur, þá eru ókostir frv. svo miklir, að hinar fáu breytingar, sem til bóta eru, yrðu of dýrkeyptar. Þess vegna á að fella frv.

Jeg hygg, að engum hv. þdm. komi til hugar að gera breytingartillögur við frv. Á það var aðeins minst í nefndinni, en þar voru allir sammála um, að sú leið kæmi ekki til greina. Hv. þdm. munu vera búnir að gera upp við sjálfa sig, hvern veg þeir greiða atkv. í þessu máli. Mun því óþarft að hafa þetta mál lengra að sinni.