04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (1383)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Jeg er sammála hv. frsm. meiri hl. um það, að lítið sje unnið við langar umr. í þessu máli. Jeg mun því reyna að verða enn stuttorðari en hann.

Jeg vil strax taka það fram, að eftir að sú breyting við frv., sem jeg flutti á síðasta þingi, um afnám landskjörinna þingmanna, var fallin, taldi jeg þetta frv. ekki eins mikils virði, þótt jeg þá greiddi því atkv. Jeg mun einnig nú greiða því atkv. mitt, og það aðallega af sparnaðarástæðum.

Eins og kunnugt er, hefir nefndin klofnað í þessu máli, og aðallega vegna þess, að meiri hl. getur ekki skilið, að hjer sje um neinn verulegan sparnað að ræða. Aðalástæða meiri hl. gegn frv. er sú, að með því að hafa þinghald annaðhvert ár, verði ekki um neinn verulegan sparnað að ræða, og leggur sjerstaka áherslu á það, að með því fyrirkomulagi verði óhjákvæmilegt að hafa aukafjárlagaþing árlega. Minni hl. getur ekki verið samþykkur áliti meiri hl. að þessu leyti. Þinghöld hafa altaf verið töluverður baggi á þjóðinni. Undanfarin ár hefir kostnaður við þinghald verið þetta um og yfir 200 þús. kr. Þegar talað er um að spara, og til þess dregið úr verklegum framkvæmdum, þá sýnist svo, sem ekki ætti að fleygja frá sjer sparnaði á öðrum sviðum, ef hægt er að koma honum í framkvæmd að skaðlausu. Það er einnig alveg víst, að þótt svo fari, að aukaþing verði við og við háð hjer eftir, þá mundu þau ekki verða á hverju ári. Má í þessu efni ekki dæma eftir reynslunni frá 1912–'20. Árin 1914–'19 stóð stríðið yfir, sem kunnugt er, og mátti því mikið um kenna, að haldin voru aukaþing á því tímabili, og þarf því ekki að ganga að því sem vísu, að svo mundi fara hjer eftir. Ekki fæ jeg heldur sjeð, að þótt haldið væri þing annaðhvert ár og fjárlögin samin fyrir tvö ár í senn, þá sje það nokkur nauðsyn að hafa aukafjárlagaþing. Reynslan hefir sýnt, að slíkt þarf ekki, enda hefir það ekki komið fyrir síðan 1923.

Mjer virðist, að afstaða manna í þessu máli hafi ekki getað breyst mikið frá því í fyrra. Frv. var afgr. frá Nd. í fyrra, með 18:6 atkv., og frá Ed. með 9:3 atkv. Nú hafa tveir nýir þm. bæst í Ed. og 3–4 í Nd., en sú tala getur tæplega breytt úrslitum málsins, þótt þeir allir væru á móti því. Ekkert nýtt hefir komið fram síðan, svo að þm. geti skift um skoðun. (JBald: Kosningarnar í sumar!). Nei alls ekki. Og hvað viðvíkur þessum 19 þingmálafundargerðum, þá eru þær ekki mikils virði í þeim efnum.

Það er vitanlegt, að almennur vilji þjóðarinnar fyrir síðasta þing var sá, að koma á þinghaldi annaðhvert ár, og þótt einstaka þm. hjer kynni að hafa skift um skoðun, þá heldur meiri hluti kjósenda fast við þessa breytingu. Ástæðan fyrir þeirri breytingu er sparnaðurinn, sem af þessu mundi leiða, enda hefir enn ekki verið hægt að sýna fram á það með rökum, að enginn sparnaður verði að þessu fyrirkomulagi.

Hv. frsm. meiri hl. er óánægður með 4. gr. frv., um breytingu á kosningu landskjörinna þm. Jeg lít svo á, að þetta sje fremur til bóta, þótt jeg hins vegar fyrir mitt leyti telji heppilegra að afnema landsk. þm. með öllu.

Mun jeg svo ekki fara frekari orðum um þetta mál að svo stöddu, en vænti þess, að þeir hv. þm., sem greiddu frv. atkv. í fyrra, hafi ekki skift um skoðun. — Annars er það ekkert undarlegt, þótt nefndin hafi skifst í þessu máli. Hv. frsm. meiri hl. var einn þeirra þriggja manna, sem voru frv. andvígir í fyrra, og hinir tveir eru nýir þm., sem ætla má að hafi verið frv. mótfallnir, þegar í byrjun.