04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1384)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, enda gaf ræða hv. frsm. minni hl. ekki ástæðu til þess að segja margt. Eru það aðeins örfá atriði í ræðu hans, er jeg vil víkja að nokkrum orðum.

Hv. frsm. sagði, að meiri hl. gæti ekki skilið, að sparnaður yrði að þessu fyrirkomulagi. Jeg vil ekki neita því, að reikningslega sjeð mun ef til vill hægt að spara eitthvað með þinghaldi annaðhvert ár, en hvort þar verður um nokkurn raunverulegan sparnað að ræða, er vafamál. Eins og jeg hefi áður bent á, hlýtur sú stjórn, er að völdum situr í hvert sinn, að taka til sinna ráða, þegar fjárlögin eru samin svo löngum tíma áður, eða 2½ ári áður en þau koma til framkvæmda, og hljóta því að verða að ýmsu leyti ónákvæm. Reynslan sýnir, að hver stjórn hlýtur að taka til sinna ráða að meira eða minna leyti, og er þá ekki víst, að mikið yrði úr sparnaðinum.

Þá benti hv. frsm. minni hl. á það, að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu frá því í fyrra. Því hefi jeg þar til að svara, að kosningarnar, sem fram fóru í sumar, hafa greinilega sýnt, að meiri hl. þjóðarinnar ætlast ekki til, að breytingar þessar nái fram að ganga. Þar, sem jeg þekki til, hefir þetta mál, sem frv. fjallar um, hvergi verið gert að aðalatriði við kosningarnar. Hv. frsm. sagði, að ekki væri hægt að byggja á 19 þingmálafundar gerðum í þessu efni. Jeg vil spyrja: á hverju á þá að byggja? Jeg trúi því vel, að í hans kjördæmi sjeu menn breytingum þessum fylgjandi, en þar fyrir þarf það ekki að vera og er alls ekki almennur vilji þjóðarinnar. Jeg sje ekkert á móti því, að byggja á þessum 19 fundargerðum. Mjer virðist undarlegt, ef þetta væri þjóðarvilji, að þess hefði ekki gætt meira við kosningarnar í sumar. Mundi þjóðin þá aðeins hafa kosið þá menn eina á þing, er breytinguna vildu, eða hefði látið þá skoðun sína í ljós á einn eða annan hátt. Nei, mjer finst heimildin góð, og mín aðstaða miklu betri, að byggja á þingmálafundargerðum, en aðeins á örfáum hjeruðum, eins og hv. frsm. minni hl. vill gera. Jeg verð að álíta, að jeg hafi valið bestu heimildina fyrir vilja þjóðarinnar í þessu máli.