04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1389)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Það hafa verið einkar lærdómsríkar umræður, sem hjer hafa farið fram, og þær hafa brugðið ljósi yfir það, sem gerðist í sambandi við þetta mál í þinglokin í fyrra. Er þá fyrst á það að minnast, sem hv. frsm. minni hl. sagði um atkvgr. hjer. Að vísu var frv. afgreitt til Nd. með 9 atkvæðum, en 4 voru á móti.

Hv. 3. landsk. sagði, að í fyrra hefði þetta verið mál þáverandi stjórnar, en nú væri það mál núverandi stjórnar. Jeg læt stjórnirnar um að skifta því á milli sín, en svo mikið er víst, að mál þetta er fyrst og fremst dæmt sem mál fyrverandi stjórnar. Vegna þess var kosið á síðastliðnu sumri. Kosningarnar fóru fram, af því að stjórnin þóttist ekki geta dregið þær lengur vegna stjórnarskrárbreytingarinnar.

En hvernig fer svo, þegar málið kemur út til þjóðarinnar? Ýmist snúast menn eindregið á móti því, eða sinna því alls ekki. Það er mesti misskilningur hjá hv. 3. landsk., að menn sjeu svo sinnulausir um jafnmikilvægt mál og þetta, að þeir hafi ekkert aðhafst, af því að þeir hafi „haldið“ að það yrði samþykt. Nei, það var af því að menn fyrirlitu breytinguna. Ef til hefði verið sá áhugi fyrir málinu, sem látið var uppi af flokkunum í fyrra, þá hefði hann sannarlega átt að koma í ljós á þingmálafundum. En þar sem jeg var á þingmálafundum, vissi jeg ekki betur en að þeir, sem voru með stjórnarskrárbreytingunni; færu í felur með það. Svo komu úrslit kosninganna, og þau voru fyrst og fremst dómur á fyrverandi stjórn og hennar verk, meðal annars fyrir það, að hafa borið fram þetta frv. Það þarf engan að furða á því, þó að þjóðin dæmdi þennan dóm. Ástæðan, sem hv. 3. landsk. og samherjar hans færa fyrir máli sínu, er svo merkilega hlægileg, að það gengur ósköpum næst, að greindir menn skuli leyfa sjer að bera hana fram. Þeir segja, að betra sje að semja fjárlög fyrir 2 ár í senn, heldur en fyrir eitt ár. Þess meiri sem óvissan er, þess lengra sem þarf að sjá fram í tímann, þess betra ætti þá að vera að gera ábyggilega fjárhagsáætlun. Skárri er það viskan! Mig skyldi ekki undra, þó að einmitt það ákvæði, að fjárlög skyldu samin fyrir 2 ár í senn, hefði verið aðalorsökin til þess, að fjárhagur okkar var svo erfiður árin 1919–21. Jeg efast ekki um, að ef það hefði gilt 1919, að fjárlög skyldu samin aðeins til eins árs, þá hefðum við sloppið betur en raun varð á. Það gefur að skilja, að erfiðara er að áætla fyrir tvö ár en eitt. Mjer er alveg óskiljanlegt, að önnur eins ástæða og þessi skuli vera fram komin á Alþingi.

Jeg hreyfði því í fyrra í umr., að stjórnin mundi geta látið kosningarnar fara fram á venjulegum tíma, nefnilega um haustið, þótt breyting væri samþykt á stjskr. En stjórnin vildi alls ekki, meðan þingið sat, láta uppi, hvenær kosningar færu fram. Það var ekki fyr en komið var að þingslitum, að það fór að kvísast. Nú er alt komið upp, og játning liggur fyrir um það, að það hafi verið samkomulag þeirra flokka, sem stóðu að stjórnarskrárbreytingunni, svo að hún var ekki annað en brella til þess að fá sumarkosningar. Að minsta kosti gat jeg ekki skilið ræðu hæstv. dómsmrh. öðruvísi. Jeg held ekki, að það sje að öllum jafnaði svo, að bændur geti betur notið sín við sumarkosningar en við haustkosningar. Hv. 3. landsk. þýðir ekki að neita því lengur, að kosningar voru ákveðnar á síðastl. sumri með það fyrir augum að veikja Alþýðuflokkinn og nota sjer það, að kjósendur hans voru fjarverandi úr kjördæmum sínum, frekar en t. d. Íhaldsmenn.

En það fór eins og stundum áður. „Þjer ætluðuð að gera mjer ilt,“ en svo varð annað uppi á teningnum, eins og maklegt var. Jeg sje ekki annað en að alt þetta mál sje svo til orðið, að það er alveg ósæmilegt að halda áfram þessum skollaleik á Alþingi. Ef á að breyta stjórnarskránni, þá er óviðeigandi að vera að togast á um smámuni, eins og þegar hv. 3. landsk. var að reyna að nagla út eitt atkvæði handa sínum flokki með stjórnarskrárbreytingunni. Slíkt er alveg óhæfilegt.

Jeg er sömu skoðunar og áður um það, að þó að lítilsháttar bót felist í frv., þá er það í heild sinni til skaða. En hv. 3. landsk. getur verið ánægður. Hann fjekk kosningar í júlí, eins og hann hafði svo heitt óskað sjer, en í staðinn hefir hann fengið þann dóm hjá þjóðinni, sem hann verður að láta sjer lynda, hvort sem honum líkar betur eða ver. En dómurinn er meðal annars fyrir það, að hafa verið að nudda við þessa lítilfjörlegu stjórnarskrárbreytingu, í eiginhagsmunaskyni fyrir flokk sinn.