03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Þegar umræðurnar hófust um þetta mál hjer í gær, gerði jeg grein fyrir því, hvernig jeg teldi rjettast að snúast við því, eins og nú standa sakir, og að því er snerti störf fjvn., þá gæti jeg fallist á, að þau væru í flestum tilfellum vel af hendi leyst, enda þótt jeg sje mótfallinn sumum till. hennar.

Til þess nú að flýta fyrir og tefja ekki tímann um of, hefi jeg hugsað mjer að fara ekki að ræða einstakar till. eða svara einstökum þm., enda þótt jeg hafi skrifað hjá mjer kjarnann úr ræðum þeirra. Í þess stað ætla jeg aðeins að benda á, hverjum till. jeg hefði greitt atkv., ef jeg hefði átt atkvæðisrjett í deildinni, og hverjum jeg hefði lagst á móti.

Af till. fjvn. eru fáar, sem jeg tel miður fara. Þó tel jeg vafasamt, að styrkurinn til hafnabóta komi a$ tilætluðum notum. Þá hjelt jeg, að búið væri að ganga frá styrknum til orðabókarstarfseminnar, og því væri ekki ástæða til þess að koma með þ.essa till. nú. Þetta eru þær till. hv. fjvn., sem jeg álít ekki heppilegar.

Þá hefði jeg fremur kosið, að styrkurinn til Hydrographic Bureau hefði fengið að standa. En undarlegast finst mjer, að nefndin skyldi finna ástæðu til að leggja til, að styrkurinn til útgáfu kenslubóka fyrir barnaskóla skuli falla niður.

En af þeim brtt. einstakra hv. þm., sem jeg tel rjett, að nái samþ., skal jeg nefna fáeinar. Jeg býst ekki við að þurfa að geta um efni þeirra, þar sem hv. þdm. hafa þskj. fyrir framan sig og geta því fylgst með röðinni.

Það verður þá fyrst fyrir mjer XVI. brtt. á þskj. 353, sem jeg álít, að fylsta sanngirni mæli með, að verði samþ. Þá er það XIX. brtt. á sama þskj., um styrk til Páls Ísólfssonar, og mundi jeg telja það miður farið, ef hún yrði ekki samþ. Ennfremur vil jeg benda á XXIII. brtt., sem er í raun og veru lítilsháttar viðurkenning til þess rithöfundar, sem þar getur, enda geri jeg fastlega ráð fyrir, að hún verði samþ.

Sama er og um XXVI. brtt. að segja, að jeg álít, að mikil sanngirni mæli með því að samþykkja hana, að minsta kosti að því er snertir stafliðina b. og c.

Þá vil jeg benda á XXXI. brtt., og þó að segja megi, að það kunni að vera varhugaverð stefna, sem upp sje tekin með henni, þá sje jeg ekki, að hjá því verði komist að veita viðkomandi ekkju einhvern styrk.

Að lokum er það XXXIII. brtt., sem jeg tel sjálfsagt að samþ., enda er þar um litla upphæð að ræða.

Þá eru þær upptaldar, brtt. einstakra hv. þdm., sem jeg mundi hafa ljeð liðsinni, hefði jeg átt atkvæðisrjett í þessari hv. deild. Af þessu má sjá, að það eru æðimargar brtt., sem jeg get ekki á neinn hátt gefið meðmæli mín, og sjerstaklega á jeg þó við þær till., sem fara fram á eftirgjöf ýmsra lána.

Jeg get búist við, að slíkar till. sjeu fram komnar meðfram vegna þess, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar var tekin upp eftirgjöf á láni Árnessýslu til Flóavegarins. En þó öll sanngirni mæli með, að Árnessýslu verði gefið eftir þetta vegalán, þá finst mjer, að varla geti komið til mála að samþ. nú að þessu sinni tvær síðustu brtt. á þskj. 353, og sama er að segja um báðar till. á þskj. 374.

Það hljóta allir að sjá þann mikla mismun, sem er á þessum till. og þeirri lánseftirgjöf, sem í frv. stjórnarinnar stendur, þegar borin er saman notkun veganna og viðhaldskostnaður þeirra. Þá verður og að líta á það, að þegar samþ. voru lögin um, að sýslur tækju að sjer viðhald akbrauta, óraði engan fyrir hinni miklu umferð bíla, sem eykst nú með hverju árinu og gerir Árnessýslu erfitt um viðhaldskostnaðinn.

Jeg býst nú við, að hv. tillögumenn þessara eftirgjafa muni halda því fram, að líkt sje ástatt um þá vegakafla, sem þeir bera fyrir brjósti, og Flóaveginn. En svo er þó ekki, því að Flóavegurinn er langfjölfarnastur allra vega austanfjalls. (GunnS: Þetta er gersamlega rangt!). Að minsta kosti er áreiðanlega ekki eins mikil umferð bíla um Rangárvallasýsluveginn eins og þann, sem Árnessýsla hefir staðið straum af. En þó svo væri, að umferðin væri jafnmikil austan Þjórsár eins og utan hennar, þá vil jeg benda þeim hv. þm. Rang., sem að XXXV. brtt. á þskj. 353 standa, að það er talsvert öðru máli að gegna fyrir stjórnina, þegar lagt er fyrir hana mál vel undirbúið af viðkomandi hjeraðsbúum, heldur en þegar þm. bera fram í metnaðarskyni till. á Alþingi, af því að þeir sjá, að aðrir hafa fengið einhver hlunnindi. Þess vegna vildi jeg leyfa mjer að beina því til þessara hv. þm., að þeir legðu ekki mikið kapp á till. sína nú að þessu sinni. Enn er málið ekki nægilega undirbúið fyrir hv. þdm. til þess að átta sig á því. Þess vegna hygg jeg, að öllum væri fyrir bestu, að málið biði næsta þings og þá tekið upp, er komin væru fram þau rök, er hjeraðsbúar gætu fært fyrir því, að sanngjarnt væri að endurgreiða sýslunni þennan vegakostnað.

Sama hygg jeg, að gæti átt við XXXVI. brtt. Jeg geri sem sje ráð fyrir, að hv. þdm. þyki ekki þessar till. nægilega undirbúnar eða rökstuddar til þess að þeir sjái sjer fært að leggja þeim liðsinni með atkv. sínu. Enda gæti jeg búist við, ef svona lítið undirbúnar till. fengju áheyrn, að samskonar óskir víðsvegar frá mundu streyma inn í þingið.

Annars kæmi mjer ekki á óvart, að út af þessum ummælum mínum og því, að jeg hefi ekki tekið liðlegar í þessar till., hefjist umr. um þær að nýju. En þó að ekki verði hjá þeim komist, verða þær þó ekki til þess að breyta skoðun minni á málinu, sem þegar er ákveðin, og heldur ekki vænti jeg, að þær umr. breyti svo skoðun hv. þdm., að meginþorri þeirra sjái sjer fært að ljá till. þessum fylgi.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. En hins vænti jeg, að meginþorri háttv. þdm. sje svo sanngjarn og láti sjer skiljast, að það sje ekki mikil ástæða til að taka liðlega undir útgjaldatill. á meðan ekki er sjeð fyrir um, hver afdrif bíða hinna ýmsu tekjuaukafrv.

Og það því síður, þar sem fram er komin yfirlýsing frá hv. minni hluta fjhn. Ed. og formanni Íhaldsflokksins, að ekki sje þörf á neinum tekjuauka. Eftir þessu að dæma virðist hann og flokkur hans ekki þess fýsandi, að ríkissjóður fái þær tekjur, sem hann óhjákvæmilega þarf til þess að fyrirbyggja halla á þjóðarbúinu.

Þessi skoðun formanns Íhaldsflokksins hefir smámsaman verið að gera vart við sig, þegar þessi tekjuaukafrumvörp hafa komið til umræðu. En samt sem áður hefði maður nú síst búist við andstöðu úr þessari átt, af því að ástandið á þessu ári, sem hann sleppir fjármálastjórninni, er ekki í neinu sjerstöku himnalagi, þar sem skýrt hefir verið frá, að mikið vanti til, að tekjur og gjöld standist á og margar kröfur og óskir komið fram um aukin fjárframlög til þess að atvinnuvegirnir geti blómgast og verði reknir eftirleiðis án tekjuhalla.

Annars furðar mig á þeirri andúð, sem bólað hefir á gegn nauðsynlegum tekjuauka handa ríkissjóði, því jeg lít svo á, að það eigi að vera helgasta skylda hvers einasta þm. að fara mjög varlega í að stofna til aukinna útgjalda án þess að sjá ríkissjóði jafnhliða fyrir tilsvarandi tekjuauka.