04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (1391)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Erlingur Friðjónsson:

Það hafa verið nefndir nýir þingmenn í sambandi við þetta stjórnarskrárfrv., og í sambandi við atkvgr., sem fram hefir farið um breytinguna á stjórnarskránni á undanförnum þingum.

Af því að jeg er nýr þingmaður, vildi jeg gera grein fyrir minni afstöðu og atkv. með örfáum orðum. Það er þá skjótt frá að segja, að frá mínum góðu kjósendum norðurfrá hafa komið fram eindregnar áskoranir um það, að fella þessa stjórnarskrárbreytingu. Jeg man ekki betur en talin væru á þingmálafundi aðeins tvö atkvæði með stjórnarskrárbreytingunni, eins og hún var fram borin, en allur þingheimur, sem mun hafa verið um 500 manns, var á móti breytingunni. Þetta veganesti, sem kjósendur gáfu mjer, er nokkurnveginn nægilegt til þess að sýna, að ef jeg vildi gera vilja kjósenda minna, þá mundi jeg að sjálfsögðu vera á móti því frv., sem hjer um ræðir.

En það er vitanlega ekki nóg, að kjósendur mínir fyrir norðan æsktu eftir þessu, ef jeg hefði ekki sjálfur fyllilega þá skoðun, sem að sjálfsögðu eggjaði mig til að greiða atkvæði móti henni.

Jeg vil þá rökstyðja örlítið aðstöðu mína. Jeg lít þannig á, að sá vafasami sparnaður, sem þessi breyting á stjórnarskránni kynni að hafa í för með sjer, sje ekki eftirsóknarverður, — jeg segi vafasamur sparnaður, af því að líkurnar eru svo litlar til sparnaðar, að hann er í mínum augum ekki þess virði, sem óþægindunum nemur við að hafa þing annaðhvert ár. Mjer er það ekki ljóst, hvernig mál þjóðarinnar hljóti að verða betur afgreidd með því að þau sjeu tekin fyrir annaðhvert ár heldur en árlega. Ef gera mætti ráð fyrir, að sömu málin væru tekin fyrir ár frá ári, þá væri það til sparnaðar, en sje gengið út frá því eðlilega, sem reynslan hefir leitt í ljós, þá er þingið ekki að fjalla um sama málið ár frá ári, nema þörf sje á einhverri breytingu. Það má því yfirleitt ganga út frá því sem sjálfsögðutn hlut, að hjer sje verið að vinna þau verk fyrir þjóðina, sem ekki eru endurtekningarverk, heldur framþróunarverk. Og það mundi að sjálfsögðu leiða af sjer kyrstöðu í þjóðlífinu, ef þing væru ekki háð nema annaðhvert ár. Um slíkt þarf ekki að fjölyrða, að það yrði til óþæginda fyrir hverja stjórn, sem situr að völdum, ef fjárlög gilda fyrir tvö ár í einu, Það geta allir getið nærri, sem eitthvað hafa fjallað um stærri fjármál en þau, sem hægt er að koma fyrir í einni peningabuddu, að það hlýtur að hafa í för með sjer stórkostleg óþægindi, að þurfa að ganga frá fjármálum heillar þjóðar fyrir tvö ár í einu. Frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna yfirleitt er það sjálfsagður hlutur, að stjórnin, hvort sem hún er skipuð af Framsókn eða Íhaldi, eigi að hafa það meira aðhald, sem skapast af þinghaldi árlega heldur en annaðhvert ár.

Einn hv. þm., mig minnir hv. 3. landsk., talaði um það, að sú stjórn, sem sæti að völdum, mundi hafa lagt stjskrárfrv. fyrir Ed. nú, og taldi það þess vegna vera hennar mál. Það má að sönnu vera fyrir ókunnugleika minn, en jeg hefi litið þannig á, að þetta þing sje fyrst og fremst kallað saman á óvenjulegum tíma vegna stjórnarskrárbreytingarinnar. Ef þetta er rjett, fæ jeg ekki sjeð, að þetta sje mál núverandi stjórnar, heldur þeirrar stjórnar, sem lagði þetta mál fyrir þjóðina. Glögg yfirlýsing frá þjóðinni liggur nú ekki fyrir um það, hvort hún vilji, að stjórnarskrárbreytingin eigi fram að ganga eða ekki. En hv. 3. landsk. var að minnast á það í sambandi við þetta mál, að „yfirmennirnir“ í Reykjavík, ætla jeg hann segði, þeir hefðu látið sitt boð út ganga til kjósendanna, og að kjósendur greiddu svo atkvæði eftir þeirra óskum. Jeg verð að líta þannig á, þar sem hjer á hlut að máli formaður Íhaldsflokksins, þá sje hann að tala um reglu, sem gildi í hans flokki. Og ef það er nú rjett, að sá fyrverandi meiri hluti í þinginu, sem á þennan hv. þm. sem formann, hafi látið sitt boð út ganga frá Reykjavík til kjósenda um, hvernig þeir ættu að greiða atkvæði í þessu máli, þá sýnist mjer vilji þeirra kjósenda ljóst kominn fram. Og viljinn er sá, að stjórnarskrárbreytinguna, sem fyrir liggur, eigi ekki að samþykkja. Kjósendurnir hafa ekki að þessu sinni verið nógu auðsveipir við yfirmennina í Reykjavík.