04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (1394)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af þeim ummælum háttv. 3. landsk., að hann skildi við mál þetta með góðri samvisku, af því að hann hefði gert alt fyrir það, sem í hans valdi hefði staðið, vil jeg taka það fram, að jeg undrast þessi brjóstheilindi þm., þegar þess er gætt, að í fyrra voru honum boðin tvö góð boð, sem hann hafnaði báðum. Boð, sem áreiðanlega hefðu haft það í för með sjer, ef þeim hefði ekki verið synjað, að málið stæði mun öðruvísi nú. Jeg mótmæli því, að þessi háttv. þm. hafi gert alt það fyrir þetta mál, sem í hans valdi stóð.

Háttv. 3. landsk. ætti því ekki að vera að hæla sjer af sparnaðarviðleitninni, þar sem hann hefir hrint þeim frá sjer, sem í einlægni vildu sparnað.

Þá hefir því ekki verið hrundið, að breytingar þær í frv. þessu, sem snerta landskjörið, hafi verið reiknaðar út flokki hans til hagsbóta.

Að síðustu langar mig til að segja nokkur orð í spaugi við háttv. 3. landsk. Hann komst að þeirri niðurstöðu við röksemdafærsluna fyrir frv. þessu, að betra væri að semja fjárlög fyrir tvö ár, heldur en eitt, af því að tvö ár í röð bættu hvort annað upp. Út af þessu datt mjer í hug, að í byrjun 17. aldar er fyrsti veturinn kallaður Lurkur, sá næsti Píningur, en hinn þriðji Eymdarár. Þau hefðu dálaglega bætt hvort annað upp, þessi ár — og svo mun oftar reynast.