04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1396)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorláksson:

Jeg hafði gaman af ræðulokum hæstv. forsrh. Við 1. umr. fórust honum svo orð, að þessar breytingar væri lítils virði, en lætur þó svo nú, sem hann muni greiða atkv. með frv., ef það kemur til hv. Nd. En þegar svo að hann lauk ræðu sinni með því, að bera saman árferði í lok 16. aldar, þegar saman fóru harðindaveturnir Lurkur, Píningur og Eymdarár — ja, hvort var hann þá að færa rök með eða móti frv.?

Hæstv. dómsmrh. spurði, hversvegna hefði verið beitt svo mikilli elju af minni hálfu um lagfæringu á landskjörinu. Því hefi jeg margsvarað. Jeg hefi talið það sjálfsagt, að stefna öllum kjósendum til kosninga sama dag, og jeg get fullvissað hann um, að fyrir mjer vakir ekkert annað en að kippa í lag framúrskarandi óskynsamlegri og óhagkvæmri tilhögun, sem nú er.

Hæstv. dómsmrh. mintist á miðlunartill. Framsóknarmanna í fyrra, og sagði, að við Íhaldsmenn hefðum hafnað öllum sáttatilboðum. En sannleikurinn er sá, að þeim hv. Framsóknarmönnum tókst aldrei að orða svo till. sínar, að þeim mætti hlíta.

Þá spurði sami hv. ráðh. (JJ), hvers vegna Íhaldsflokkurinn hefði felt stjórnarskrárbreytinguna 1924. Jeg átti þá ekki sæti í þessari hv. deild, eins og hann, svo að gera má ráð fyrir, að honum sje kunnugra um þetta en mjer. En mig minnir, að inn í frv. væri þá komið ákvæði um að afnema landkjörið, og mun það hafa að mestu ráðið, hvernig fór um frv.

Annars getur hæstv. dómsmrh. leitað nánari upplýsinga um þetta í Alþingistíðindunum frá því ári, svo að óþarft er að orðlengja frekar um það nú.