16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1412)

48. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Baldvinsson:

Það fór svo við 2. umr., að klipt var af það atriðið, sem mjer þótti mestu máli skifta, nefnilega breytingin um aldurstakmark kosningabærra manna úr 25 árum niður í 21 ár. En þó að þetta atriði hafi fallið niður, er eftir allveruleg rjettarbót um það, að menn, sem þiggja sveitarstyrk, geti haft atkvæðisrjett í kosningum í málefnum sveita- og kaupstaða. Þó að jeg telji frv., eins og það er nú orðið, vera til bóta, var þó það atriði, sem búið er fella úr því, svo mikilsvert, að jeg er viss um, að það mun halda áfram að koma fram hjer á Alþingi, þar til það verður samþykt.

Á móti þessu rjettlætismáli verður ekki staðið til lengdar.