03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Háttv. þm. eru nú búnir að gera grein fyrir brtt. sínum við fjárlagafrv., og á þar við hið fornkveðna, að hverjum þykir sinn fugl fagur. En þar sem það hefir orðið niðurstaða nefndarinnar að skjóta þá fugla alla í sama skotinu, þá get jeg verið stuttorður, og það því fremur, sem þessar brtt. eru flestar gamlir kunningjar frá nefndinni og áður hefir verið um þá rætt þar.

Jeg ætla þá að fara nokkrum orðum um afstöðu nefndarinnar til hinna einstöku liða, og ætla að byrja á brtt., sem eru á þskj. 353.

Það er þá fyrst brtt. VIII, frá hæstv. forsrh. (TrÞ). Meiri hl. nefndarinnar hefir ekki getað fallist á þessa till. og leggur því til, að hún sje feld. Nefndin er þó ekki óskift um það, og hefir því óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur.

Þá er brtt. X, sem flm., hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), hefir tekið aftur.

Um IX. brtt. hefir nefndin klofnað, og hefir því óbundnar hendur, þegar til atkvgr. kemur um hana.

Þá er XI. brtt., frá háttv. 2. þm. Reykv. og fleirum, um skólagjöld. Leggur nefndin til, að hún sje feld.

Þá er XII. brtt. Nefndin er öll á móti henni, nema hv. þm. Ísaf. (HG), sem á sjálfur sæti í nefndinni. Nefndin viðurkennir að vísu þörfina á því, að barnakennarar fari utan, enda er gert nokkuð til þess að fullnægja þeirri þörf, þar sem ætluð er í fjárl. upphæð til þessa. En þar sem þessi fjárveiting er ákveðin, þá álítur nefndin sjálfsagt, að menn snúi sjer beint til hæstv. kenslumálaráðherra og fræðslumálastjóra, sem er ráðgjafi hans um þau mál; því að ef þingið á í hverju einstöku tilfelli að úrskurða, hverjir skuli njóta þessa styrks, þá er hætt við, að úrskurður þess geti orðið nokkuð af handahófi vegna ókunnugleika þess á verðleikum umsækjenda. Það er hætt við, að þar komi fram sami tvískinnungurinn og nú á sjer stað um námsstyrkinn til stúdenta erlendis. Til þeirra er veitt ákveðin upphæð, en menn leita samt unnvörpum til þingsins um meira. Og það fer oft svo, að slíkar fjárveitingar eru samþ. annað árið, en feldar hitt. Þetta álít jeg, að sje stúdentum meir til tjóns en góðs, því að með þessu leiðast menn, sem vonlegt er, til þess að byrja ákveðið nám, en verða svo að hætta, er þeir standa uppi með tvær hendur tómar og hafa verið sviftir styrknum.

Þá er brtt. XIII, frá háttv. 2. þm. Reykv. og fleirum, um skólagjöldin. Hún sætir auðvitað sömu forlögum og hin fyrri.

Þá er brtt. XIV, frá hv. þm. Ísaf., um hækkun styrks til kvenfjelags á Ísafirði. Þótt nefndin hafi nokkra tilhneigingu til að hækka slíka styrki, þá þykir henni hjer alt of langt gengið, og leggur því til, að brtt. þessi sje feld.

Þá er XV. brtt., frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf., sem báðir eiga sæti í nefndinni. Leggur nefndin til, að hún sje feld, en hefir þó óbundnar hendur við atkvgr. að því leyti, sem þessir tveir háttv. þm. hafa þar sjerstöðu.

Jeg leyfi mjer annars að vísa til þess, sem hæstv. kenslumrh. (JJ) sagði um þetta mál, þar eð það fellur mjög saman við álit meiri hlutans.

Þá er XVI. brtt., frá háttv. 2. þm. Reykv., um hækkun styrks til Ólafs og Jóns sundkennara Pálssona. Þótt nefndin viðurkenni að vísu, að starf þessara manna sje þarft og gott, en laun þeirra hinsvegar lág, þá álítur hún, að það sje meir fyrir Reykjavík en landið í heild, og ætti því styrkur frekar að koma frá Reykjavíkurbæ en Alþingi. Nefndin leggur því til, að þessi brtt. verði feld.

Þá er XVII. brtt. á sama þskj., frá hv. þm. Skagf. báðum, til Sundlaugar að Steinsstöðum í Skagafirði. Um þessa brtt. hefir nefndin klofnað, og hefir því óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur. Mjer finst ekki ástæðulaust, að þingið ljeti rannsaka, hve margir teldu sig hafa rjett til samskonar veitinga, ef þessi yrði samþykt áður en það er ákveðið; því að vitanlega eru takmörk fyrir því, hve langt megi ganga í slíkum samþyktum, er þannig verka aftur fyrir sig.

Þá er XVIII. brtt., frá hv. þm. Ísaf., og legst öll nefndin á móti henni nema hv. flm.

Þá er XIX. brtt., frá mörgum hv. þm., um styrk til Páls Ísólfssonar. Um hana hefir nefndin klofnað, og hefir því óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur.

Þá er brtt. XX, um að lækka styrkinn til hljómsveitar Reykjavíkur um helming, úr 4000 kr. niður í 2000 kr. Sú brtt. er frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Um hana er það að segja, að nefndin hefir að vísu óbundnar hendur við atkvgr., en allir nefndarmenn, að undanteknum þessum 2 hv. flm., eru á móti henni. Líta þeir svo á, að þessi hljómsveit sje nauðsynlegur liður í þeim undirbúningi, sem verður að gera undir árið 1930, og vilja halda fast við hærri upphæðina.

Þá er brtt. XXI, frá hv. þm. Ísaf. Er nefndin öll á móti henni, nema hv. flm. sjálfur. Rök hv. flm. í ræðu hans fyrir þessar í fjárveitingu, þar sem hann bar þennan styrk saman við styrkinn til Páls Ísólfssonar og hljómsveitarinnar, eru alls ekki frambærileg. Það er fyrst og fremst hjeraðsmál Ísafjarðarkaupstaðar, að þar verði komið upp smáhljómsveit, og það er alls ekki sambærilegt við þá nauðsyn, sem landinu er á því að eiga góða hljómsveit 1930, og sem liggur til grundvallar fyrir styrkveitingunni til hljómsveitar Reykjavíkur. Ekki fæ jeg heldur skilið, að þessi maður sje sambærilegur við Pál Ísólfsson. Það er þess að gæta um þann mann, að hann er maður, sem hefði verið innan handar að setjast að erlendis og vinna sjer þar fje og frama, en sest í þess stað að hjer á landi og helgar landinu krafta sína. Hann er sá maður, sem langfærastur er um að auka og efla hljómlistarmenningu hjer á landi, og því ber landinu sjerstök skylda til að sjá um, að hann geti notið krafta sinna og lifað hjer sómasamlega.

Þá er brtt. XXII, frá háttv. 1. þm. Reykv. (MJ), um styrk til útgáfu nýrrar Íslandssögu. Meiri hl. nefndarinnar leggur á móti þessari brtt. — Nefndin viðurkennir auðvitað þörfina á þessu verki, en flestir nefndarmenn álíta, að enn sje fullmikið á reiki um framkvæmd þess, svo að tæpast sje rjett að taka afstöðu til þess nú og ákveða að leggja út í það. Annars get jeg vísað til ræðu hv. 2. þm. Árn. (MT) í þessu efni, því að hann talaði mjög frá brjósti þeirra manna í nefndinni, sem harðast mæla á móti þessari veitingu.

Þá er brtt. XXIII, frá nokkrum hv. þm., um 2000 kr. styrk til dr. Bjargar C. Þorláksdóttur. Meiri hl. nefndarinnar er á móti þessari veitingu, en nefndin hefir þó að nokkru leyti óbundnar hendur um hana.

Þá er XXIV. brtt., um að fella niður styrkinn til Björns Jakobssonar, frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Um þessa till. hefir nefndin óbundnar hendur, en jeg get vísað til þess, sem hæstv. kenslumálaráðherra (JJ) sagði um þessa veitingu í dag.

Um brtt. XXV hefir nefndin óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur.

Þá kem jeg að brtt. XXVI á þessu sama þskj. Hún er frá háttv. 1. þm. Reykv., og eru tveir fyrstu liðir hennar um uppbótargreiðslur fyrir vinnu að íslensk-dönsku orðabókinni sælu. Eins og jeg gat um í framsöguræðu minni í gær, hefir nefndin tekið upp nokkurn hluta þess styrks, sem farið var fram á. Eins og jeg áleit það sjálfsagt, eins er jeg algerlega á móti því, að meira sje greitt. Jeg vil engan veginn mótmæla því, að prentsmiðjan hafi skaðast, en jeg fæ ekki sjeð, að ríkið verði krafið þeirrar fjárhæðar, sem hjer er farið fram á. Það er prentsmiðjunnar að gera ekki samninga út í bláinn, og ef hún hefir gert það, þá verður hún að reka sig á það, að það er hægra sagt en gert að fá bætur fyrir það eftir á, alveg jafnt hjá ríkinu og einstökum mönnum.

Um upphæð þá, sem farið er fram á til Jóns Ófeigssonar kennara, verður að segja eitthvað svipað. Jeg veit það vel, að ekki þarf lengi að leita til þess að finna mörg verk, sem eru betur borguð en það mikla starf, sem hann hefir sjálfsagt unnið við orðabókina. En það er nú yfirleitt svo um bókmentastörf hjer á landi, að þau eru fremur unnin til frægðar en fjár. Það er svo um flest stórvirki, sem unnin hafa verið í bókmentastarfsemi allra þjóða, að það er áhugi manna, sem hefir hrundið þeim fram, en ekki það, að menn geti vonast eftir, að þau geti nokkurntíma orðið þeim, sem vinna þau, fjeþúfa eða gullnáma. Þetta er að vísu raunalegt, en það verður svo að vera.

Jeg get um þetta vitnað til þess mikla þrekvirkis, sem þau Björg Þorláksdóttir og Sigfús Blöndal hafa leyst af hendi með samningu þessarar orðabókar, fyrir svo litla borgun, að það skýtur ekki skökku við, þótt aðrir, sem unnið hafa að bókinni, fái ekki meira en þeir höfðu samið um við þau fyrir sína vinnu. Það er að vísu leiðinlegt, að Alþingi skuli ekki geta orðið við beiðni þessara manna, en það er ómögulegt að búast við að fá slík verk sem þessi eins vel launuð og þau verk önnur, sem arðvænleg þykja.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ríkissjóður hefði tekið að sjer að greiða kostnað við útgáfuna. Jeg vil benda hv. þm. á það, að ríkissjóður hefir aldrei gert það, og jeg vil fullyrða, eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið um málið, að ríkissjóður hefir fullnægt því, sem hann tókst á hendur í þessu máli. Annars var það svo, að ríkissjóður Dana tók að sjer 5/8 útgáfukostnaðar og ríkissjóður Íslands 3/8, en hjer er farið fram á, að allar eftirstöðvar útgáfukostnaðarins greiðist úr ríkissjóði Íslands.

Þá er það c-liður brtt. XXVI, um 1200 kr. lokastyrk til sögunáms handa Barða Guðmundssyni. Um þessa brtt. er nefndin skift, og hefir því óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur.

Þá kemur brtt. XXVII á sama þskj., athugasemd um steinsteypukenslu, frá hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf. Um það hefir nefndin líka óbundnar hendur að því leyti sem þessa hv. þm. snertir. Skal jeg ekki ræða um það, með því líka að hæstv. kenslumálaráðherra hefir gert grein fyrir því.

Þá er brtt. frá hv. 2. þm. Rang. á sama þskj., XXVIII. liður, sem nefndin hefir klofnað um og hefir því óbundin atkvæði.

Þá er brtt. á sama þskj., XXIX. liður, sem hefir verið tekin aftur, og get jeg því leitt hjá mjer að ræða hana.

Þá er brtt. XXXI á sama þskj., frá þrem hv. þm.: „Til Guðrúnar Egilson, 2000 kr., auk 100 kr. með hverju barni hennar í ómegð, 2500 kr.“. Meiri hl. nefndarinnar legst á móti þessari tillögu, þar sem henni þykir, að hjer sje farið fram á of háa upphæð, sem geti skapað bæði örðugt og hættulegt fordæmi.

Þá er sama að segja um brtt. XXXII, frá hv. 1. þm. Skagf. (MG) og 2. þm. G.-K. (ÓTh); um hana hefir nefndin óbundnar hendur. Jeg skal segja það fyrir mitt leyti, að jeg hefi tilhneigingu til að vera með þessari fjárveitingu, en hefi ekki leyfi til að segja neitt ákveðið um það frá nefndarinnar hendi.

Þá er brtt. XXXIII, frá hv.1. þm. Skagf., „til Önnu Bjarnadóttur, ekkju Hjálmars Lárussonar, 300 kr.“. Nefndin hefir lagst á móti þessari till., eða að minsta kosti meiri hl. hennar. Þó að okkur detti ekki í hug að efast um það, að ekkja þessa manns hafi fulla þörf fyrir þennan styrk, þá verður maður því miður að segja það sama um margar ekkjur, bæði hjer á landi og annarsstaðar, og þótt svo vilji til, að menn, fyrir meira og minna hæpnar ástæður, komist inn í fjárlög, þá getur Alþingi þó ekki gengið inn á þá braut að taka ekkjur þeirra inn í fjárlögin að þeim látnum.

Þá er brtt. XXXIV, sem hefir verið tekin aftur, og get jeg því leitt hjá mjer að ræða hana.

Þá kem jeg að lokum að brtt. á sama þskj., XXXV og XXXVI, og brtt. II á þskj. 374. Jeg ætla að taka þessar brtt. og ræða þær í einu lagi. Nefndin hefir óbundnar hendur um þessar brtt., og það, sem jeg ætla að segja um þær, segi jeg frá sjálfum mjer.

Jeg verð að líta þannig á, að allar þessar brtt., sem hjer liggja fyrir, sjeu að meira eða minna leyti hliðstæðar við tillögu, sem komist hefir inn í 22. gr. fjárlagafrv., um eftirgjöf á láni til Flóavegarins. Því hefir verið haldið fram af ýmsum hjer, að um nokkuð ólíkar ástæður væri að ræða með tilliti til þessara vega, en jeg sje ekki annað en að það sje algerlega rjett, sem hv. þm. Rang. hafa haldið fram um Holta- og Flóaveginn, og að Rangæingar hafi staðið við það, sem þeim bar, en Árnesingar ekki, og jeg sje enga ástæðu til að fara að hegna mönnum fyrir það, að þeir standa í skilum.

Um brtt. okkar hv. þm. Borgf. verð jeg að segja það, að jeg lít mjög svipað á hana. Á öðrum staðnum er talað um endurbyggingu, en á hinum um viðhald, og jeg sje ekki betur en að þetta falli svo saman, að erfitt sje að kveða á um það, hvort um endurbygging vegar eða viðhald sje að ræða. Það kemur oft fyrir, að þarf að endurbyggja vegi, og hvað Flóaveginn snertir, þá stafar endurbygging hans af því, að það var trassað að halda honum við, og ef trassað verður í mörg ár að halda Borgarfjarðarbrautinni við, þyrfti að endurbyggja hana líka. Þess vegna efast jeg um, hvort það er rjett að gera svo mikinn mun á því, hvort um viðhald eða endurbyggingu er að ræða. Jeg skal segja það strax, að jeg ber þessa brtt. fram af ásettu ráði, ásamt hv. þm. Borgf., af því að jeg þóttist sjá, hvaða dilk það mundi draga á eftir sjer, ef farið verður að samþykkja annað eins og farið er fram á í 22. gr. fjárlaganna. Fjöldi hjeraða kemur þá á eftir með sama rjetti, og þess vegna er best, að hv. þm. sjái það strax, á hverju þeir mega eiga von, ef þetta verður samþykt, svo að þeir geti stemt á að ósi.

Mjer þykir leitt, að háttv. 2. þm. Árn. (MT) er hjer ekki við, af því að jeg vildi svara honum ofurlítið ýmsu því, sem hann nefndi til samanburðar Borgarfjarðarbrautinni og afstöðu þeirra og Árnesinga til þessa máls. Jeg sje ekki annað en að hjer sje um hliðstæður að ræða. Jeg hefi hjer minst á, hve líkt getur verið um endurbyggingu og viðhald, eftir því, hvernig á stendur. Hv. þm. (MT) talaði um, að á þessum vegi væri svo mikil umferð, því að þar væru ekki aðeins Rangvellingar á ferðinni, heldur líka Skaftfellingar og fjöldi af Reykvíkingum og margt manna úr öðrum hjeruðum. Sama er að segja um Borgarfjarðarbrautina, þar eru ekki aðeins innansveitarmenn á ferðinni, heldur líka fjöldi af Norðlendingum og mesti sægur Reykvíkinga, og jeg verð að segja það, að jeg hefi farið um báða þessa vegi og aldrei sjeð slíkan mannfjölda á austurvegunum eins og á Borgarfjarðarbrautinni, svo að jeg álít, að þessar tvær sýslur hafi fyllilega eins mikinn rjett eins og Árnessýsla.

Jeg get ekki fært fram tölur um það, hve miklu er búið að verja til viðhalds á þessum vegi, en ef farið væri út í það, þá væri það áreiðanlega ekkert smáræði.

Þá var hv. þm. (MT) að minnast á styrkinn til Borgarfjarðarbátsins, sem sýslan fengi fram yfir Árnessýslu. En jeg skal minna hv. þm. á það, að Árnessýsla á líka sinn Borgarfjarðarbát, þar sem er Hellisheiði, sem varið er mörgum tugum þúsunda til, bæði með snjóplóginum, sem hefir verið keyptur eingöngu með tilliti til þessa vegar, og sífeldum snjómokstri; jeg er ekki viss um, að það sje minni tilkostnaður heldur en til Borgarfjarðarbátsins. Annars sagði hv. þm., að Árnessýsla væri að sökkva í framfaraskuldir, og býst jeg við, að rjett væri fyrir hv. þm. að minnast þessa, ef síðar meir yrði farið fram á styrk til frekari framkvæmda í þessari sýslu, úr því að framkvæmdirnar virðast ætla að verða steinn um háls henni, sem dragi hana lengra og lengra niður í skuldafenið. Annars virðast mjer röksemdir hv. þm. í þessu máli ekki ósvipaðar höfuðröksemd hans hjer í dag — sem var götótt spýta úr Miklavatnsmýraráveitunni.

Þá er ein brtt. fjvn., á þskj. 294, það er 44. brtt., a-liður, til brimbrjóts í Bolungarvík. Hæstv. atvmrh. hefir óskað eftir, að hessi brtt. yrði tekin aftur til 3. umr., vegna upplýsinga, sem hann óskaði eftir að gefa nefndinni viðvíkjandi því máli. Þetta hefir verið borið undir nefndina, og hefir hún orðið ásátt um að verða við þessari beiðni hæstv. ráðh.

Man jeg svo ekki eftir að þurfa að tala meira um það, sem hjer er til umr., að sinni.