17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1423)

79. mál, yfirsetukvennalög

Einar Árnason:

Eins og hv. frsm. tók fram, er þetta frv. enginn nýr gestur í þinginu. Breytingar á launalögum yfirsetukvenna hafa tvisvar sinnum áður gengið í gegnum Ed., en strandað í Nd. Jeg geri ráð fyrir, að eins fari enn, og að þess vegna muni ekki hafa mikla þýðingu að andmæla þessu máli hjer í deildinni. Jeg býst heldur ekki við; að neitt nýtt komi fram í því. Það er búið að endurtaka það sama þing eftir þing. Formælendur málsins telja mikla nauðsyn á að bæta launakjör ljósmæðra. Jeg hefi ekki getað fallist á röksemdir þeirra, þó að jeg hinsvegar vilji alls ekki þrengja sjerstaklega kosti þeirra. Mjer virðist ljósmóðurstarfið vera alveg eins vel launað og önnur störf í þágu hins opinbera. Mjer er kunnugt um, að í sveitunum er þetta mjög lítið starf. Venjulega gengur ekki til þess meira en tveggja til þriggja vikna tími á ári, svo að ljósmæður geta óhindraðar af því stundað aðra atvinnu. Enda veit jeg, að ýmsar merkar ljósmæður, bæði í sveitum og kaupstöðum, álita launin alveg nægileg.

Jeg vildi aðeins láta þess getið, að það er til sú skoðun í þessari hv. deild, að ekki sje frekari ástæða til þess að bæta laun ljósmæðra en ýmissa annara starfsmanna hins opinbera. Vitanlega sker atkvgr. úr, hvernig um þetta fer, en jeg mun greiða atkvæði á móti frv. Jeg er samt meðmæltur brtt. nefndarinnar. Þær eru til bóta. Ef það á að viðurkennast, að laun yfirsetukvenna sjeu of lág, hafa þau vitanlega ekki síður verið það áður.

Mjer þætti leitt, ef það rættist, sem einstakir menn hafa sagt, að frv. yrði til að fækka fæðingum í landinu.