17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1428)

79. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir góðar undirtektir hennar og skilning á þessu máli. En jeg get ekki þakkað hv. 1. þm. Eyf. fyrir undirtektir hans, sem hafa verið á sama veg nú sem fyr. Hann reis upp nú, sem áður, til að andmæla frv., en röksemdir hans hafa þó ekki aukist eða batnað. Hann hjelt því fram, að störf yfirsetukvenna væru lítilfjörleg, einkum í sveitum, og að ársstarf þeirra þar næmi ekki meiru samtals en 2–3 vikum. En þetta eru áreiðanlega ýkjur. Jeg hygg, að varla sje um svo fámenna hreppa að ræða, að þar sjeu eigi 4–5 fæðingar árlega, og eru það þá jafnmargar vikur, því það er skylda yfirsetukvenna, að vera minst viku yfir hverri sængurkonu. Og sjeu þær skemur, þá gera þær ekki skyldu sína. En nú er þetta aðeins í minni hreppum, sem fæðingar eru svona fáar. Í stærri hreppum eru þær fleiri. En svo ber að gæta þess, að ekki má eingöngu miða við þann tíma, sem yfirsetukonurnar eru yfir sængurkonum, því að í raun og veru eru þær altaf bundnar við starf sitt og geta því ekki ráðið sig til fullkominnar vinnu, eins og aðrar konur. Það lítur svo út sem þessi hv. þm. (EÁ) hafi ekki gert sjer fulla grein fyrir því, en þetta er einmitt mikilsvert atriði.

Hv. sami þm. sagði, að sumum yfirsetukonum væri óþægð í því, að launin væru hækkuð. Jeg veit nú ekki hvaðan hv. þm. kemur sú viska. Frá miklum meiri, hluta þeirra liggur fyrir áskorun um að bæta launakjör þeirra. Og þótt þær yfirsetukonur, sem gengist hafa fyrir þessari áskorun, eigi heima hjer í Reykjavík, þá er hún í sjálfu sjer ekkert verri fyrir það, þótt áhugasöm kona hjer vilji halda uppi rjetti stjettar sinnar.

Þá sagði hv. þm., að það væri álit ýmsra, að þetta frv. verði til að fækka fæðingum, ef samþykt verður. Það væri æskilegt, að hv. þm. vildi skýra þetta nánar. Jeg sje að minsta kosti enga ástæðu til að ætla, að svo muni fara, þó gerðar sjeu ráðstafanir til þess að fá betri yfirsetukonur.