17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (1429)

79. mál, yfirsetukvennalög

Einar Árnason:

Ræða hv. þm. Snæf. gefur nú í raun og veru ekki ástæðu til þess að tala í meira en 5 mínútur. Hv. þm. taldi röksemdir mínar lítils virði. En jeg vil þá skjóta því til hans, að sjá svo um, að yfirsetukonurnar geri skyldu sína. Tel jeg honum það skyldast, þar sem hann hefir flutt þetta frv. svo oft. Það skakkar töluverðu um tímann hjá okkur hv. þm., þann, sem við teljum að eyðist hjá yfirsetukonunum í þarfir sængurkvenna. En jeg fullyrði, að það, sem jeg sagði um það, er rjett. Það mun vera fremur fátítt til sveita, að yfirsetukonurnar sje meira en tvo sólarhringa, að jafnaði, við hverja barnsfæðingu. Það er að minsta kosti ekki, þar sem jeg þekki til, og með þeirri staðreynd reiknaði jeg. Það væri því rjett að tryggja það, að þær gerðu þessa skyldu sína, sem hv. þm. talar um, um leið og laun þeirra verða hækkuð, en það gera þær ekki nú, eftir því sem hv. þm. Snæf. segir vera skyldu þeirra. En, eins og jeg sagði áður, þá eru ekki meira en 5–6 fæðingar á ári í flestum hreppum landsins. Og þegar yfirsetukonurnar eyða að jafnaði ekki nema 2 sólarhringum við hverja fæðingu, verður dæmið mjög auðvelt.

Jeg stend líka við það, sem jeg sagði áður, að yfirsetukonurnar geti stundað aðra atvinnu. Þær, sem eru giftar, stunda bú sín. Og þótt þær tefjist frá um tvo sólarhringa í senn, þá fellur ekkert niður fyrir það hjá þeim. Enda er það ekki meira en að skroppið sje í kaupstað.

Þá sagði sami hv. þm., að krafan um bætt launakjör væri ekki verri fyrir það, þó að óskin um hana hefði komið fyrst frá Reykjavík. Jeg sagði það ekki heldur, að hún væri verri fyrir það. En það er auðskilið mál, að með fortölum má fá hverja stjett sem vera vill til að gera kröfur um að bæta sinn hag, ef farið er að berjast fyrir því að fá hana til þess.

En um þetta þýðir víst ekki að fara fleiri orðum; úrslit málsins munu fyrirfram ákveðin.