20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1434)

79. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þessi brtt. er einföld, og gat því nefndin gert sjer grein fyrir henni í fljótu bragði.

Nefndin þóttist hafa farið fram á eins lág launakjör handa ljósmæðrum og hægt væri, og leggur til, að brtt. verði feld. Þó að 100 kr. sjeu ekki mikil upphæð hjá þeim, sem úr miklu hafa að moða, er slík lækkun alltilfinnanleg á svo lágum launum. Það hefir áður verið gerð grein fyrir, að þessi launakjör, sem farið er fram á, sjeu sanngjörn. Og svo á að fara að klípa af því litla, sem upphaflega var farið fram á.

Hv. flm. vill að vísu bæta kjör ljósmæðranna, en hann telur sig knúðan til að bera fram þessa brtt. af sparnaðarástæðum. En jeg hygg, að sparnaðurinn, sem af brtt. leiðir, sje ekki þess virði fyrir ríkissjóð, sem hækkunin er fyrir þá, sem taka við laununum. Auk þess sem hækkunin mundi gera ljósmæðurnar ánægðari við starfið og leiða til þess, að hæfar ljósmæður fengjust í flestum eða öllum hjeruðum landsins.