21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1445)

49. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það var margt rjett, sem hv. frsm. meiri hl. hjelt fram í framsöguræðu sinni. Fyrst og fremst er það rjett, að lögin eru lítt reynd, eftir aðeins eitt ár; ekki full festa komin í framkvæmd þeirra, og að líkindum ekki allir agnúar þeirra komnir í ljós. En jeg held, að engum geti dulist, að sá agnúi, sem margir sáu að vísu fyrirfram, að einn kaupstaður, Siglufjörður, yrði sjerstaklega hart úti vegna breytingarinnar, hafi þegar sýnt sig.

Jeg minnist þess, að þegar lögin voru til umræðu á þinginu 1926, þá kom hv. 2. þm. Eyf. (BSt) fram með brtt. um að rýmka heimild til að leggja útsvar á þá, er atvinnu reka í dvalarsveit. En svo fór, að þessi brtt. náði ekki fram að ganga.

Siglufjörður hefir algerða sjerstöðu í þessu efni. Atvinnurekstur sá, er myndað hefir bæinn, er eigi rekinn nema 2–3 mánuði ársins, af mönnum alstaðar að af landinu, og jafnvel af útlendingum, í mjög stórum stíl. Að vísu eru til margar aðrar verstöðvar á landinu, en atvinnurekendur þar eru næstum ætíð úr hjeruðunum kringum þær, eða úr sama sýsluhjeraði. Þar sem svo stendur á, er þó með skyldari að skifta en á Siglufirði, þar sem saman hópast menn af öllu landinu, til að njóta hlunninda af afstöðu kaupstaðarins og mannvirkja þeirra, er bæjarfjelagið hefir kostað stórfje til. Veit jeg, að síldveiðistöðvar eru víðar til hjer á landi, t. d. á Akureyri, Ísafirði og Austfjörðum, en þetta er í miklu smærri stíl, og á Ísafirði og Austfjörðum eru síldveiðar jafnvel ekki reknar nema sum ár, og að mestu leyti af hjeraðsmönnum, sem hægt er að leggja útsvör á, eins og áður. Þessu er ekki að heilsa á Siglufirði. Þangað streyma menn í þúsunda tali á sumri hverju, úr öllum áttum. Bærinn er bygður upp á það, að geta náð útsvörum af þessum mönnum. Því hefi jeg borið fram þessar brtt. um sjerstöðu Siglufjarðar, vegna síldveiðanna þar. Tel jeg, að ekkert annað hjerað þurfi að fara fram á samskonar ívilnanir, þótt þær nái fram að ganga, að minsta kosti ekki eins og nú standa sakir.

Enn kemur eitt atriði til greina, sem gerir þessi undantekningarákvæði nauðsynleg. Það er alkunnugt, að töluverður hluti af síldarútvegs- og síldarkaupmönnum þar nyrðra geta sjálfir ekki lagt fje í atvinnurekstur sinn, og eru eignalausir menn. Þeir eru því leppar eða umboðsmenn erlendra síldarkaupmanna, fá hjá þeim tunnur og salt, krydd og annað, sem til síldarverkunar þarf. Sumir þessara manna greiða verkafólki sínu ekkert kaup sum árin, og kemur þetta mest niður á Siglfirðingum. Bæði er það, að utanbæjarmenn eru eftirgangssamari um að heimta kaupgjald sitt og síður hægt að draga þá á langinn, og hitt, að margir þeirra eru skrásettir á skipum og bátum og hafa því sjóveð fyrir kaupi sínu. Þetta rekstrarfjárleysi þessara „leppa“, ef svo má nefna þá, leiðir af sjer, að um leið og seinasta tunnan er farin um borð frá þeim, standa þeir uppi slyppir og allslausir og ekkert af þeim að hafa, hvorki upp í útsvar nje kaupgjald. Hefi jeg heyrt þessa eitt átakanlegt dæmi síðastliðið sumar. Maður einn, er fengið hafði efni, salt og eitthvað af peningum hjá erlendum síldarkaupmönnum, til að kaupa síld fyrir, skildi þannig við á Siglufirði, að hann greiddi hvorki útsvar nje verkakaup. Hann er heimilisfastur í útkjálkasveit, og þar greiddi hann 25 kr. útsvar. Þó hafði hann haft 70–80 manns í vinnu á Siglufirði og velt hundruðum þúsunda yfir atvinnutímann. Þess má nefna fjölmörg dæmi, að bærinn fær ekki útsvar og verkafólk ekki kaup, og verður það því bænum til byrði, beinlínis af þeim ástæðum. Þessir útgerðarmenn verða bænum til byrði í tvöföldum skilningi. Þeir njóta afstöðu og mannvirkja staðarins án endurgjalds, og þeir taka íbúa hans í þjónustu sína, án þess að greiða þeim kaup fyrir.

Brtt. mín er fram komin til þess að koma í veg fyrir þetta ástand. Þar er farið fram á, að heimilt sje að leggja útsvör á skip og báta, sem upp leggja síld á Siglufirði, og ennfremur á einstaka menn eða fjelög, sem kaupa eða selja síld á Siglufirði, eða verka hana þar. Lög þessi eiga einnig að ná til útlendinga. Svo stendur á um marga þeirra, er kaupa, selja eða verka síld, að þeir hafa stórfje handa á milli meðan síldveiðitíminn stendur yfir, en eru slyppir bæði á undan og eftir. Ef útsvarið er eigi lagt á þá, meðan á síldveiðunum stendur, er ekkert af þeim að hafa, og því verða útsvörin að falla í gjalddaga þegar, er þau hafa verið lögð á. Þessi sjerstaða fyrir Siglufjörð er því aðeins vegna síldarútvegsins. Þetta er sú minsta breyting, sem hægt er að fara fram á, og jeg álít, að hjer standi svo sjerstaklega á, að önnur hjeruð geti ekki komið fram með kröfu um slíka breytingu með eins miklum rjetti og Siglufjörður.

Þótt jeg játi, að útsvarslögin sjeu eigi enn orðin fullreynd, þá sjest þó þegar, að Siglufjörður hefir orðið mjög hart úti þeirra vegna. Útsvarsskrá síðasta árs þaðan sýnir, að útsvör hafa lækkað svo mjög, að til vandræða horfir um fje til framkvæmda þeirra og mannvirkja, sem bærinn sjálfur þarf að láta framkvæma og allmikill hluti landsmanna, er síldarútveg stunda, verður við að styðjast.

Menn tala nú um að koma síldveiðunum í fastara horf en áður, og er vonandi, að það takist. En jafnframt verður að gæta þess, að sá staður, þar sem mestur síldaraflinn kemur að landi, fari ekki eins varhluta af gjöldum af þeim atvinnurekstri og reyndin virðist benda á að verði, eftir nýju útsvarslögunum. En úr því verður á engan hátt bætt, nema leyfilegt sje að leggja útsvör á utanbæjarmenn, er þar reka atvinnu, og bærinn þurfi ekki að ganga til skifta við aðra hreppa um þau útsvör. Hygg jeg, að það sje öllum ljóst, að með því fyrirkomulagi verði það venjulega sú sveit, sem maðurinn er heimilisfastur í, sem fær mestan hlut útsvarsins eða allan, en sú sveit eða kaupstaður, sem hann rekur atvinnu í, lítið eða ekki neitt. Jeg álit það að vísu kost, að nokkru leyti, en vil gera undantekningu um Siglufjörð, af þeim ástæðum; sem jeg hefi þegar greint.

Um brtt. hv. 1. þm. Eyf., að í stað 3000 komi 20000, er það að segja, að jeg er henni meðmæltur, ef mínar tillögur falla. Á þann hátt sleppur smáútgerðin og annar smáatvinnurekstur við útsvör, og get jeg fallist á, að svo sje.

Jeg hygg þá, að jeg hafi rökstutt brtt. mínar nægilega.

Um brtt. hv. þm. A.-Húnv. skal jeg ekki fjölyrða að þessu sinni. Býst jeg þó heldur við að verða þeim andvígur. Tel jeg ekki þörf á öðrum brtt. en mínum.