21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (1446)

49. mál, útsvör

Einar Árnason:

Það munu nú vera um átta vikur, síðan þetta mál var látið ganga til allshn. Hefði því mátt ætla, eftir tímanum að dæma, að nefndin hefði varið allmiklum tíma til að athuga málið. En þegar litið er á niðurstöður hennar, einkum meiri hl., virðist eigi sem svo hafi verið. Hins vegar vil jeg þakka hv. minni hl. fyrir tillögur hans í þessu máli. Mjer finst hann hafa sýnt góðan skilning á málinu, og brtt. hans sýna það, að hann vill leitast við að bæta úr þeirri rangsleitni, sem Siglufjörður verður fyrir af útsvarslöggjöfinni. Jafnvel þó að brtt. hv. minni hl. breyti frv. allmikið, vil jeg þó lýsa yfir því, að jeg felst á brtt. hans, af því að þær nálgast svo mjög það, sem farið er fram á í mínu frv., að þær geta að miklu leyti bætt úr því ástandi, sem er. Það er viðurkent af mörgum, þar á meðal hv. minni hl., að Siglufjörður hafi allmikla sjerstöðu í þessu efni. Um engan stað á landinu er eins ástatt og Siglufjörð. Það er svo, að núgildandi útsvarslöggjöf ýtir undir menn að fara ýmsar krókaleiðir til þess að komast hjá því að greiða útsvar. Löggjöfin gefur ágætt tækifæri til þess, þar sem maður getur rekið atvinnu í stórum stíl á Siglufirði, án þess að hægt sje að leggja á hann útsvar, ef hann telur sjer heimili í sveit, þar sem eru hjer um bil engin útsvör. Siglufjörður getur ekki fengið útsvar frá heimilissveit hans, en hins vegar verður bærinn, til þess að hægt sje að reka þar atvinnu, að halda uppi ýmsum mannvirkjum og leggja mikið í kostnað við höfn og vegagerðir.

Jeg vil vekja athygli á því, að jeg hefi flutt brtt. við 3. gr. frv., af því að jeg hefi orðið þess var, að 3. gr. er sú greinin, sem mestum ágreiningi veldur. Jeg hefi ekki getað skilið, af hverju hv. meiri hl. hefir lagt á móti 1. og 2. gr., því að jeg get ekki sjeð, að þó að þær verði samþyktar, raski þær neitt því heildarfyrirkomulagi, sem í útsvarslöggjöfinni felst, og hafa lítil eða engin áhrif á aðrar sveitir. Jeg viðurkenni hins vegar, að ákvæði 3. gr. raska grundvelli útsvarslöggjafarinnar. En með því að samþ. brtt. mína um, að í stað 3 þúsunda komi 20 þúsund, verður það ekki mikið, sem útsvarslöggjöfin raskast. Það yrði þá aðeins hinn stærri útvegur á Siglufirði, sem kæmist inn undir þetta ákvæði.

Jeg hefi flutt þessa brtt., sem einskonar varatillögu, ef brtt. hv. minni hl. verða feldar. Að sjálfsögðu kemur mín brtt. ekki til atkvæða, ef brtt. hv. minni hl. verða samþyktar. En jeg hefi lýst yfir fylgi mínu við þær.

Um dagskrártillögu hv. meiri hl. hefi jeg ekki margt að segja. Hún er ljós vottur um viljaleysi hv. meiri hl. til þess að bæta úr þeirri rangsleitni, sem sumar sveitir og bæjarfjelög eiga við að búa af núgildandi útsvarslöggjöf. Jeg vænti, að hv. deild felli þá tillögu, til þess að tækifæri gefist til að greiða atkvæði um hinar ýmsu brtt., sem fram eru komnar við frv.