21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (1447)

49. mál, útsvör

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki þreyta hv. deild lengi á því að tala fyrir brtt. mínum. Jeg hefði getað slept því að miklu leyti, ef hv. frsm. meiri hl. hefði ekki vikið að þeim, einkum hinni fyrstu, en hún varðar mestu. Hv. frsm. játaði, að sú brtt. væri til góðs fyrir sveitarfjelögin, enda hljóta allir að gera það, sem nokkuð þekkja til. En svo sagðist hv. þm. ekki finna neitt sjerstakt, sem mælti með brtt., nema ef vera skyldi það, að fólksflutningar í sveitum fara fram í fardögum, í lok reikningsársins. En það er talsvert mikilsvert atriði. Jeg get fært nægar ástæður fyrir því, og gerði það á þinginu 1926, hve óhentugt er, að minsta kosti fyrir hreppsfjelög, að hafa ekki fardagaárið fyrir reikningsár. En hv. frsm. færði engin rök að því, að almanaksárið væri hentugra. Jeg skal játa, að það hefir altaf verið að færast nær því, að almanaksárið væri reikningsár ýmsra fjelaga og stofnana, og það á við í mörgum tilfellum. En í þessu tilfelli er það miklu óhentugra, þar sem fólksflutningar á milli hreppa fara fram í fardögum, eða á miðju núverandi reikningsári. En af því leiðir, að hjá fjölmörgum gjaldendum þarf að skifta útsvarinu á milli 2 hreppa. Þá má benda á, að sveitarómagar eru ráðnir frá vori til vors, en ekki nýári til nýárs, og ýmislegt fleira. En skifting útsvara, eins og frá henni er gengið í lögunum, er fyrirhafnarsöm og varhugaverð að ýmsu leyti. Það eru þegar farnar að koma margar fyrirspurnir til stjórnarráðsins um það, hvernig beri að skilja lögin hvað það snertir, og sýnir það ljóslega, hversu flókin þau eru og óskýr í þessu efni.

Hv. frsm. heldur, að þeir agnúar, sem hann játar sjálfur að sjeu á lögunum, muni slitna af í notkuninni. En það skal ekki koma flatt upp á mig, þó að lögin reynist í framtíðinni nákvæmlega eins illa og þau hafa reynst hingað til. Og væri þessi skoðun háttv. frsm. rjett, að agnúarnir slitni af, virðist óþarft að breyta lögum yfirleitt.

Þar sem jeg er ekki nákunnugur í kaupstöðunum, hefi jeg ekki þorað að halda öðru fram en rjettara væri að lofa þeim að halda því reikningsári, sem nú er. Það er mikill vandi að setja löggjöf um þetta efni fyrir alt landið. Mjer virðist eiginlega vera sjálfsagt, að hafa ein lög um þessi mál fyrir kaupstaði og önnur fyrir sveitahreppa.

Mjer var falið að bera fram þessa brtt. samkvæmt einróma ósk fjölmenns þingmálafundar á Blönduósi. Blönduós er hreppur út af fyrir sig. Það vildi svo vel til, að jeg var farinn af fundinum, þegar þetta kom fram, svo að ekki verður hægt að segja, að það hafi verið fyrir mín áhrif. Þarna vitum við um einn hrepp, sem er kauptún og vill þó hafa fardagaárið fyrir reikningsár.

Það er ekki von, að hv. nefnd hafi athugað frv. með tilliti til minna brtt. Þær komu svo seint fram. En það virðist hafa vakað fyrir hv. meiri hl., að þægilegast væri að breyta engu. Jeg býst við, að tækifæri verði til að tala um þessi lög á hverju þingi, á meðan nauðsynlegar breytingar fást ekki fram. Jeg hugsa, að þing verði ekki lengi svo skipað, að það vilji ekki taka tillit til almennra óska landsbúa. Jeg verð að segja, að jeg álit, að við sjeum ver farnir eftir að endurskoðun laganna hefir farið fram, heldur en með gömlu sveitarstjórnarlögunum. Það var verið að smálaga þau, eftir því sem þörf krafði, þó að ekki væru gerðar neinar stórfeldar breytingar.

2. brtt. mín er um 12. gr. laganna. Það hefir komið fram, að ekki er aðgengilegt að skifta útsvörum eftir aðferðum 12. gr. Það gæti gengið, ef ekki væri lengra á milli hreppa en á milli hornanna hjerna í salnum. Og svo þarf að vera að borga fram og aftur. Ýmist þurfa gjaldendur að borga til baka, eða þá að hreppurinn þarf að borga þeim. Jeg verð að segja, að það er ákaflega klaufalegt fyrirkomulag. Það er eins og það hafi vakað fyrir löggjöfunum, að gera þetta sem allraerfiðast.

3. brtt. mín er um 26. gr. laganna. Jeg vil fella burt 26. gr., að öðru leyti en þessu: „Kærum, sem koma að liðnum kærufresti, verður ekki sint.“ Í niðurlagi 26. gr. er hið dásamlega ákvæði um að yfirskattanefndir megi ekki breyta útsvörunum, ef ekki skakki meira en 10%, þó að þær hins vegar sannfærist um, að kæran sje rjettmæt.

Ef svo færi, að 1. brtt. yrði samþykt, sem ummæli frsm. nefndarinnar benda nú ekki til, þyrfti að breyta bráðabirgðaákvæðunum aftan við lögin, því að þá yrði að taka hálft ár sem sjerstakt reikningsár. Það er dálítil fyrirhöfn, en ekki mikil þó, en líklega meiri en hv. frsm. meiri hl. vildi leggja á sig og nefndin.

Jeg heyrði ekki betur, en að hv. frsm. meiri hl. væri altaf að tala um agnúa á lögunum. Það er óskemtilegt, að hann skuli tala þannig, en þó ekki geta fallist á breytingar. Jeg trúi ekki á, að útsvarslögin óbreytt reynist ekki framvegis slæm. Það hefir mikið verið talað um að skipa milliþinganefnd til þess að athuga skattamálin. Þá ætti ekki síður að vera þörf á að skipa nefnd til að athuga útsvarslöggjöfina, meðal annars af því, að miklu meiri gjöld eru tekin af þjóðinni eftir útsvarslögum en eftir skattalögum.