21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (1449)

49. mál, útsvör

Guðmundur Ólafsson:

Háttv. frsm. meiri hl. vildi halda því fram, að hreppsnefndirnar væru alt af að læra, og þyrftu að læra betur að framkvæma þessi lög. Þennan mikla lærdóm, sem hreppsnefndirnar verða að leggja á sig, til þess að skilja lögin, tel jeg ókost á þeim, því að það gefur í skyn, að þau sjeu þó meir en lítið tvíræð. Annars held jeg, að þó að gerðar væru einhverjar breytingar á þessari útsvarslöggjöf nú, þá væri það ekki meira en það, sem oft hefir verið gert áður, bæði á þessum lögum og öðrum.

Þá sagði háttv. frsm. meiri hl., að jeg hefði viðurkent, að almanaksárið væri hentugra reikningsár fyrir kaupstaðina. En þetta er ekki rjett. Jeg komst aldrei svo langt. Jeg sagði, að það gerði kaupstöðunum lítið til, en sveitunum mikið. Þá fullyrti háttv. þm., að fardagareikningsárið væri miklu verra fyrir kaupstaðina en almanaksárið, en honum láðist alveg að færa nokkur rök fyrir þeirri fullyrðingu. Þau liggja svo sem ekki á lausum kili rökin hjá háttv. meiri hl. í þessu máli. Annars er það eins og háttv. meiri hl. sje í tilhugalífi við þessi vitlausu og ranglátu lög, sem hann getur aldrei varið.