22.02.1928
Efri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (1454)

122. mál, eignarnám á Reykhólum

Flm. (Ingvar Pálmason):

Jeg þarf ekki miklu við þá greinargerð að bæta, er frv. fylgir. Eins og hún ber með sjer, þá hafa ríkisstjórninni borist áskoranir frá íbúum Reykhólahjeraðs, um það, að hjeraðinu verði trygður læknisbústaður á Reykhólum.

Nú hefir verið reynt að fá keypta spildu úr Reykhólalandi, undir læknissetur, en sú málaleitun hefir orðið árangurslaus. Er því sú leið farin, að fá heimild þingsins til að taka jörðina eignarnámi. Að farið er fram á að taka jörðina alla, er af þeirri ástæðu, að auk þess sem hún er vel fallin fyrir læknissetur, er þar og ákjósanlegur skólastaður, vegna jarðhita, sem er þar svo mikill, að nægja mun til að hita margar stórbyggingar. Auk þess er foss skamt frá bænum, sem er sá aflgjafi, er nægja mundi til að hita upp margar byggingar og haft gæti þýðingu í framtíðinni.

Það er þýðingarlaust að lesa hjer upp þau plögg, er málinu fylgja. Þau verða væntanlega athuguð í nefnd. En jeg vil aðeins geta þess, að fasteignamatsverð Reykhóla, með hjáleigum, er nú 42 þúsund krónur. Þar sem svo er ástatt, að jörð þessi er vel í sveit sett, með tilliti til opinberra bygginga, þá þykir mjer sjálfsagt að Alþingi athugi þetta mál vel, áður en því er hafnað. — Rjett er að taka það fram, að jörð þessi er nú setin af leiguliða, og að engin líkindi eru til að eigandi eða börn hans þurfi á henni að halda til ábúðar fyrir sig sjálf í náinni framtíð. Þessi jörð stendur nærri því að lenda í braski, og er nú talin miður vel setin. Er því hætt við, að henni fari hnignandi. Það er því margt, sem mælir með því, að hún verði tekin, og því fyr því betra.

Jeg tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Jeg hefi kynt mjer plögg málsins, en ekki dregið saman efni þeirra; tel víst, að þau verði rækilega athuguð í nefnd.

Jeg vil svo leyfa mjer að óska þess, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. Það getur verið álitamál, hvort málið eigi fremur heima í fjhn., eða allshn. Tel þó líklegra, að það eigi heima í allshn.