24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (1458)

122. mál, eignarnám á Reykhólum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Fjhn. hefir haft þetta mál til meðferðar og athugunar. Til nefndarinnar kom bóndi úr sveitinni, þar sem jörðin er, og taldi hann nauðsyn á, að hreppsbúar hefði umráð yfir jörðinni. Frv. á þskj. 240 fer fram á að veita ríkisstjórninni heimild til þess að taka jörðina Reykhóla eignarnámi, landinu til handa, aðallega í því skyni, að jörðin verði læknissetur fyrir viðkomandi læknishjerað. Allir nefndarmenn eru sammála um að sinna beri þessari málaleitan, en það, sem ágreiningur varð um, innan nefndarinnar, var það, að sumir nefndarmenn vilja ganga skemra en frv., eða með öðrum orðum vilja ekki láta taka alla jörðina eignarnámi, heldur aðeins spildu úr henni, sem nægi fyrir læknisbýli, svo sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 536. En hjeraðsbúar hafa fleira í hyggju en læknisbústað á þessari jörð. Það hefir komið til orða að reisa þar í framtíðinni alþýðuskóla Breiðfirðinga, og mun það vera eftir bendingum fræðslumálastjóra, því að jörðin er tilvalið skólasetur. Þar er heitt vatn í ríkum mæli, því að í landi jarðarinnar eru um 20 hverir, og væri því hentugt að byggja þar sundlaug til afnota fyrir hjeraðsbúa. Enn hefir komið til mála að reisa þar heimavistarskóla fyrir börn úr hjeraðinu. Það er því ýmislegt, sem menn hafa í huga að gera við þessa jörð. Þetta mál hefir að öðru leyti verið skýrt við 1. umr., og frv. fylgir greinargerð, ásamt fylgiskjali, sem er brjeflandlæknis, þar sem hann rekur að draganda þess, að þessa er farið á leit. Hafa háttv. deildarmenn átt kost á að kynna sjer þær ástæður fyrir nauðsyn málsins, sem þar eru færðar.

Það er till. mín og að minsta kosti annars nefndarmanns úr fjárhagsnefnd, að frv. verði samþykt óbreytt.