24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (1460)

122. mál, eignarnám á Reykhólum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af því að jeg hefi átt þátt í að bera fram þetta frv., sem flutt er eftir óskum landlæknis, vildi jeg segja um það nokkur orð.

Undanfarin ár hafa íbúarnir í Reykhólahjeraði verið í mestu vandræðum með læknissetur. Höfðu þeir fengið augastað á jörð til þess, en feldu sig ekki við þann stað, er til kom, og hafa verið á hrakningi með lækninn síðan. Nú hefir landlæknir lagt áherslu á að læknissetrið skuli vera á Reykhólum. Er þegar fengin til þess meirihlutasamþykt í hjeraðinu. Samninga hefir verið leitað um kaup á jarðnæði undir læknisbústaðinn, en sonur ekkjunnar, sem er eigandi að Reykhólum, hefir ekki fengist til að selja part af jörðinni í þessu skyni. Því er ekki um annað að ræða en eignarnám, ef unt á að vera að reisa læknisbústaðinn, þar sem landlæknir telur hann best settan.

Reykhólar eru ein af helstu hverajörðum landsins og að öðru leyti mikil hlunnindajörð, enda gamalt höfuðból. En jörðin er nú komin í niðurníðslu. Eins og nú horfir um landbúskap, verður hún tæplega starfrækt af einum bónda, svo að nokkur mynd sje á. Til þess er hún alt of fólksfrek og erfið. Þetta forna höfuðból er nú til lítillar prýði, húsalaust orðið og illa setið.

Ástæðan til þess, að lagt er til, að landið eignist alla jörðina, er sú, að þetta höfuðból er nauðsynlegur staður fyrir viðreisn hjeraðsins. Fyrst og fremst er jörðin sjálfsagður staður fyrir heimavistarskóla handa börnum í hjeraðinu. Ennfremur má benda á hana sem glæsilegan stað fyrir væntanlegan unglingaskóla Breiðfirðinga. Færi mjög vel á því, að þar væri skóli fyrir nokkurn hluta Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Það er vitanlega aðeins tímaspurning um að bæta úr alþýðufræðsluþörf þessa afskekta hjeraðs.

Sumar jarðir eru þannig settar og þannig útbúnar frá náttúrunnar hendi, að þær eru betur komnar í eigu hins opinbera heldur en einstakra manna. Þessi jörð er ein af þeim, einkum vegna hins mikla aflgjafa, jarðhitans, sem þar er. Þó að landið eignaðist hana og þar yrðu auk læknisbústaðarins settir tveir skólar, mundi hún samt geta borið nokkur minni býli, sem starfrækt væri vegna þessara stofnana.

Brtt. háttv. 1. þm. G.-K. og háttv. 3. landsk. hygg jeg muni verða til þess, að frv. verði síður samþykt. En það væri leiðinlegt, því að hjeraðsbúar hafa nú þegar beðið lengi eftir læknisbústað, fyrir þá sök, að jarðnæði hefir vantað. Nú er orðið svo áliðið þings, að minstu má muna um frv., að þau nái fram að ganga.

Jeg get gefið þær upplýsingar, að nálega helmingur af fasteignaverði jarðarinnar er skuld við sjóði, sem eru undir umsjá ríkisstjórnarinnar. Þessvegna er ekki um það að ræða, nema að nokkru leyti, að binda nýtt fjármagn úr ríkissjóði, þó að jörðin yrði keypt. Í öðru lagi álít jeg það enga hættu fyrir landið, að eiga nokkrar jarðir. Ríkið hefir þegar selt margar jarðir, en hlýtur altaf að þurfa að eiga nokkrar til eigin afnota.

Jeg geri ráð fyrir, að jörðin muni altaf ávaxta þá fjárhæð, sem í hana væri lögð. Og jeg vil leggja áherslu á, að það er gert þvert ofan í óskir hjeraðsbúa, að leggja á móti því að þetta mál gangi fram. Eins og jeg hefi áður tekið fram, var jörðin fyrrum höfuðból, en er nú niðurnídd, húsalaus, hálfnotuð, óræktuð og nærri í auðn. Hjer er því um beint framfaramál að ræða, með því að ekki lítur út fyrir, að núverandi eigendur hafi dug eða þrótt til að bæta jörðina.