24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (1464)

122. mál, eignarnám á Reykhólum

Páll Hermannsson:

Mig langar til að gera örstutta grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Hjer er um það að ræða að taka eignarnámi hið forna höfuðból Reykhóla. Jeg get ekki fallist á, að það verði gert, og skal jeg færa nokkrar ástæður fyrir þeirri afstöðu minni. Jeg get fallist á, að jörðin sæti nú ekki eins góðri meðferð eins og hún ætti skilið, og vildi jeg gjarnan, að úr því yrði bætt. En jeg get ekki fallist á, að gildar ástæður sjeu til að fara þá leið, sem hjer er farið fram á. Jeg skal viðurkenna, að ríkið hefir látið ganga sjer úr greipum fleiri góðar jarðir en rjett hafi verið að selja, og þar á meðal mörg höfuðból, og gæti verið rjett að hugsa sjer að ná sumum þeirra aftur, en mjer er sárara um að ríkið beiti þeirri aðferð um jarðir, sem aldrei hafi verið í þess eign. Jeg hygg, að þessi jörð hafi frá öndverðu verið í eign bænda. Núverandi eigandi er gömul kona. Þetta skiftir máske litlu máli, en það er þó — með fleiru — ástæða, sem jeg vil ekki ganga fram hjá að óþörfu. Það er skiljanlegt, að fyrir hana sje viðkvæmt mál að missa þessa eign sína, og sjerstaklega á þennan hátt. Mjer finst heldur ekki nein sjerstök ástæða til að taka þessa jörð eignarnámi, vegna þess, að land vanti undir læknisbústað. Jeg veit, að Barðstrendingar hafa ráð á öðrum stað, hentugum fyrir læknissetur. Og því þá að taka land eignarnámi að óþörfu. Jeg get því alls ekki greitt atkv. með frv., með því að jeg tel ekki gildar ástæður til að fara þessa leið.