03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Borgf. (PO). Jeg tel það alveg vafalaust, að margir menn úr ungmennafjelögum landsins myndu sækja íþróttaskóla að Laugum, sem starfaði 8–9 mánuði ársins. Ungmennafjelögin hafa undanfarin ár sent menn á íþróttaæfingar í Reykjavík, sem nú hafa lagst niður fyrir aðstoðarleysi frá bænum. Til skýringar skal jeg taka það fram, að gert er þarna ráð fyrir fullkominni íþróttastofnun, en ekki einungis leikfimikenslu við Laugaskóla, þótt hún sje höfð í sambandi við hann einungis af „praktiskum“ ástæðum. En aðstaðan á Laugum er í raun og veru engu betri fyrir slíka stofnun heldur en á hverri annari hverajörð, t. d. í Borgarfirði eða á Suðurlandi, nema ef til vill að því leyti, að þar eru meiri snjóalög að vetri til. Það er ekki gert ráð fyrir, að skólinn verði mjög stór, búist við, að 12–14 menn myndu taka námskeið á vetri. Nú er það svo, að flestir okkar leikfimikennarar hafa stundað nám sitt í Danmörku, en með tíð og tíma myndu þeir geta stundað nám sitt þarna. Ennfremur, vil jeg skýra það, að sparast mundi dálítið, þótt ekki muni það miklu, ef Björn færi frá mentaskólanum. Hann hefir nú full kennaralaun, en ef maður yrði ráðinn í hans stað, myndi mega komast af með tímakennara. Þó ætla jeg ekki að fara að mæla sjerstaklega með þessu vegna sparnaðarins.