27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1487)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Jón Þorláksson:

Mjer þótti leitt, að hv. sjútvn. gat ekki afgreitt málið á þann hátt, að það kæmist á betri rekspöl. Það er nefnilega sannfæring mín, ekki vegna kunnugleika á staðnum, heldur vegna nokkurs kunnugleika á hjeraðinu yfirleitt, að þetta, sje með merkari málum, sem fyrir þinginu liggja nú.

Ef það reynist kleift, að koma upp þessari hafnargerð, þá er jeg viss um, að þar með er stigið eitthvert mesta framfaraspor, sem hægt er að stiga fyrir þetta hjerað. Með því eru líka skapaðir möguleikar til þess að halda fólkinu kyrru heima í hjeraðinu, og er það mikið atriði í málinu. Hjer er leið til að láta sjávarútveginn styðja landbúnaðinn.

Ef svo fer, að þessu máli verði vísað til stjórnarinnar, vona jeg að það fái góðan undirbúning. Það á það fyllilega skilið.