27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (1489)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Erlingur Friðjónsson:

Hv. þm. Snæf. gat þess, að honum hefði komið nokkuð á óvart, hvernig jeg hefi tekið í þetta mál hjer í deildinni, og var á honum að heyra, að jeg hefði talað hlýlegar um það í nefnd. Jeg held nú, að hjer hljóti að valda misskilningur hjá hv. þm., að minsta kosti hefir engin skoðanabreyting átt sjer stað hjá mjer. Jeg lít dálítið öðruvísi á aðstæður nyrðra en virtist koma fram hjá hv. þm. Hann vildi jafna saman aðstöðunni á Skagaströnd og í Vestmannaeyjum. Jeg veit ekki til, að aðstaðan í Vestmannaeyjum sje neitt svipuð, hvað þá sambærileg við Húnaflóa. Væri jeg viss um, að hægt væri að koma upp öðrum eins útvegi á Skagaströnd og í Vestmannaeyjum, þá mundi jeg hiklaust greiða atkv. með þessu, þó því aðeins, að jeg teldi það nægilega undirbúið. Jeg sje ekki enn sem komið er, að slík mannvirki sem hjer er um að ræða, sjeu nauðsynleg vegna líkanna fyrir því, að hægt sje að reka þarna stóran útveg, og þess vegna hlýt jeg að vera hægfara í málinu að svo komnu. Jeg beini þessu ekki síður til 3. landsk. Báðir þessir þm., hv. 3. landsk. og hv. þm. Snæf., líta svo á, að hjer sje um að ræða möguleika fyrir miklum útvegi. Jeg efast enn um þetta. Jeg vil í þessu sambandi benda á, að hinumegin við flóann, á Reykjarfirði og Norðurfirði, hafa verið settar upp síldarsöltunarstöðvar, en þær eru nú ekki starfræktar. Aðstöðu mun mega telja þarna nokkuð svipaða og á Skagaströnd, hvað veiðiskap snertir. Þar eru ágætar hafnir, en innsigling að vísu nokkuð varasöm.

Þetta voru aðeins nokkrar almennar athugasemdir, sem ekki snerta ef til vill málið beint, en aðstaðan er þó svo svipuð á þessum stöðum, að það er vert að athuga þá reynslu, sem þar hefir fengist.