03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1929

Hannes Jónsson:

Jeg hefi ekki borið fram neinar brtt. við þessa umr., og það fer nokkuð eftir atkvgr. um brtt. nefndarinnar, hvort jeg kem með brtt. við 3. umr. Jeg skal ekki fjölyrða um brtt., en vildi víkja nokkrum orðum til hv. fjvn. út af brtt. á þskj. 353, XXXV. og XXXVI. lið, og á þskj. 374, II. lið. Jeg er dálítið hissa á þeim hv. nefndarmönnum, sem koma með þessar. brtt., því mjer skilst, að þeim sje ekki fylsta alvara með að fylgja þeim fram. Ástæðan til þess, að þessar brtt. hafa komið fram, mun vera 22. gr. 5. liður í frv., sem þeir vilja feigan. En þá hefði verið hreinlegra miklu af nefndinni að flytja brtt. við þann lið og leggja til, að hann verði lækkaður eða feldur niður. En það er augljóst, að ef þær brtt., sem þeir hafa stutt, ná fram að ganga, þá koma aðrir á eftir og krefjast þess sama fyrir sín hjeruð. Jeg mun því greiða atkv. á móti þessum brtt. Enda hygg jeg þær ekki á rökum bygðar. Að vísu hefi jeg ekki enn sett mig inn í það, hvort ákvæði 22. gr. 5. í frv. hefir við rök að styðjast. En þó hygg jeg, að þar sje öðru máli að gegna en með brtt. Jeg get búist við, að hinar örðugu ástæður Árnesinga rjettlæti það að halda henni, en fella þó brtt. En það er fráleitt að fara inn á þá braut að endurgreiða landshlutum vegakostnað, hvar sem vera skal. En hafi þeir hugsað sjer að koma á samræmi með þessu, þá lá nær að fella aftan af 22. gr. En nú stendur gr. óhögguð, ef brtt. verða feldar. Háttv. flm. kunna að hafa hugsað, að það gerði ekkert til, þótt brtt. kæmu til atkv. við þessa umr., og vilja sjálfsagt fá þær samþ. En þetta er nokkuð mikil ljettúð. Svo gæti farið, að fram kæmu fleiri brtt. sem þessar um margfalt hærri upphæðir, nákvæmlega jafnrjettmætar. Væri ekki hægt að fella þær, er þessar væru samþyktar.