04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1505)

95. mál, sjúkraskýli og læknisbústaðir

Frsm. (Jón Þorláksson):

Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 678, þá viðurkennir nefndin, að þörf sje á löggjöf um sjúkraskýli og læknisbústaði. Um æði mörg ár hefir verið veitt fje í fjárlögum til að koma þessum stofnunum upp. En einu ákvæðin, sem um þær eru, voru sett í fjárlögum, þar sem fjárveitingin var bundin þeim skilyrðum, að viðkomandi sýslufjelag tæki stofnunina að sjer til eignar og rekstrar. Síðustu ár hefir þetta skilyrði fyrir fjárveitingunni ekki verið sett í fjárlög, en fjárveitingin annaðhvort bundin við sjerstök læknishjeruð, eða verið ósundurliðuð og falin ráðstöfunum stjórnarinnar. Hefir landlæknir tjáð nefndinni, að stjórnin hafi jafnan sett sama skilyrði fyrir styrknum og áður stóð í fjárlögunum.

Nefndin lítur svo á, að þegar sett er löggjöf um sjúkraskýli og læknisbústaði, þá verði hún fyrst og fremst að innihalda ákvæði um skyldu hjeraðanna til að halda þeim við og reka þau. Það er ekki rjett, að láta þetta óumtalað í lögum og ætla samþyktum einunt að kveða á um það.

Eins og frv. liggur fyrir, þá inniheldur það ekki annað en heimild til að gera samþyktir um þessar stofnanir. Þó gefst frv. upp við það, að ákveða, hvernig fara skuli að, þegar svo stendur á, að læknishjerað nær yfir svæði úr tveimur lögsagnarumdæmum, og yrði þá stjórnin að ákveða um það. Öll ákvæði um þetta vantar í frv. Nefndinni finst, að þar sem sýslufjelög hafa upphaflega undirgengist skyldu til að halda þessum stofnunum við og reka þær, þá þurfi að athuga, hvort rjett sje að leyfa sýslunum að skila þeim í hendur tiltekins svæðis, svo sem hreppa eða læknishjeraða. En þar sem svo er áliðið þings, höfum við ekki treyst okkur til að setja inn í frv. ákvæði, sem okkur finst, að það þurfi að innihalda, en í það vantar.

Við leggjum því til, að stjórninni sje falið að undirbúa löggjöf um þetta efni, sem yrði þá væntanlega kallað lög um læknisbústaði og sjúkraskýli, og leggi hún þau fyrir næsta þing. Með þessu fororði gerir nefndin það að tillögu sinni, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.