23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (1511)

123. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það má með sanni segja, að eigi sje hörgull á frv. á þingi nú, sem fara fram á að hjálpa almenningi um lánsfje. Eru komin fram eigi færri en þrjú frv. um að veita mönnum lánsfje og rekstrarfje.

Þetta frv. er flutt til þess, að reyna að ljetta undir með þeim mönnum, sem stunda fiskiveiðar á bátum, eða með öðrum orðum smáútgerðarmönnum. Mjög víða hagar svo til, að þessir menn eru bundnir við einhvern vissan kaupmann, um að láta hann fá allan afla sinn, en eiga hins vegar aðgang að honum um lán til heimila sinna og að einhverju leyti til útgerðarinnar. Verðlag á þessum vörum mótast vitanlega af því, að kaupmenn verða oft og tíðum að liggja lengi með fisk þann, er þeir kaupa, og að skuldir þeirra tapast stundum, þegar afli bregst, eða þá að kaupmenn neyta aðstöðu sinnar til að setja lágt verð á fiskinn. Allir telja þetta fyrirkomulag óhafandi, sem von er, og tilraunir hafa verið gerðar í löggjöfinni til að koma í veg fyrir það, en árangurinn hefir ekki orðið meiri en svo, að skuldaverslunin stendur í blóma enn þann dag í dag, bæði hjá kaupmönnum og kaupfjelögum. Væri hægt að koma á peningaviðskiftum meðal manna, mundu viðskiftin verða eðlilegri að öllu leyti og útlenda varan lækka, en sú innlenda hækka. Það er líka kunnugt, að menn horfa fremur í eyrinn, þegar þeir greiða út í hönd, heldur en þegar tekið er út í reikning.

Jeg býst nú ekki við, að frv. þetta komi algerlega í veg fyrir þessa skuldaverslun, en jeg tel víst, að það yrði til mikilla bóta, ef það kæmist fram í svipuðu formi og hjer er lagt til. Verslunin mundi verða hagkvæmari eftir en áður og afkoma manna því betri. Þótt hjer sje stungið upp á ákveðnu fyrirkomulagi um deildir um land alt, skal jeg geta þess, að jeg mun ekki halda fast við það, ef sýnt verður fram á hagkvæmari tilhögun við dreifingu lánsfjárins út um landið. En jeg hefi eftir allmikla umhugsun komist að þeirri niðurstöðu, að deildastofnun sú, sem stungið er upp á í frv., sje heppilegasta ráðið til þess.

Í þáltill. 1927 um lánsstofnun fyrir bátaútveginn var um nokkuð svipað að ræða og í þessu frv. Að vísu var þar átt við rekstrarlán, og felst því nokkru meira í þáltill. en þessu frv., þar sem aðeins er gert ráð fyrir lánum út á fenginn afla. Á að vera hægt á þennan hátt að lána út á fiskinn jafnóðum og hann veiðist, hvort sem það verður gert að þeim hluta, sem ákveðið er í frv., eða eigi. Menn geta ekki beðið eftir því, að fiskurinn sje þurkaður og verði tilbúinn til útflutnings. Margar þarfir kalla að áður, bæði til heimila og útgerðar. Peningarnir þurfa að streyma inn jafnóðum og afli berst á land. Nokkur hluti fiskjarins á þó að verða eftir í eigu mannanna sjálfra, og eiga þeir að geta selt hann fullverkaðan, annaðhvort til innlendra eða erlendra kaupmanna. Hjer er gert ráð fyrir, að lánað verði út á fiskinn nálægt því verði, sem kaupmenn og kaupfjelög gefa fyrir hann, þar sem skuldaverslunin helst. Útlenda varan lækkar í verði, og sá hluti fiskjarins, sem ekki er lánað út á, verður eign útvegsmanna sjálfra. Fiskurinn er og að jafnaði hlutfallslega meira virði fullþurkaður, heldur en nýr eða upp úr salti.

Þó að benda megi á, að menn hafi stundum skaðast á því, að selja fiskinn verkaðan, samanborið við þá, sem seldu hann blautan, þá er reglan sú, að fiskurinn er tiltölulega meira virði fullverkaður. Svo er það, að menn hafa atvinnu við að verka fiskinn, og þá vinnu fá þeir borgaða úr andvirði fiskjarins.

Af því að það fjármagn, sem jeg geri ráð fyrir í þessu frv., er takmarkað, móts við verð það, sem liggur í afla, sem fluttur er á land hjá smærri útveginum, þá hefði jeg viljað í þessu frv. takmarka lánveitingar fyrst og fremst við þá menn, sem hafa mesta útgerð og hafa möguleika til þess að útvega sjer lánsfje hjá kaupmönnum, en láta þá sitja fyrir, sem fátækastir eru. Þá menn er mest ástæða til að styrkja, til þess að þeir geti haft upp úr afla sínum sannvirði þeirrar vöru, sem þeir eru að afla. En hafi sjóðurinn seinna fjármagn til, þá tekur þetta einnig til þeirra, sem hafa útgerð í stærra stíl. En það er fyrst um sinn ekki hugsað til þess, að þeir, sem gera út mótorskip og stærri skip og borga kaup í peningum, geti fengið lán úr sjóðnum. Jeg lít svo á, að þeim mönnum sje það greiður aðgangur að bönkunum, að þeir geti ekki komið til greina um þessar lánveitingar.

Jeg sting upp á, að fiskiveiðasjóður sá, sem nú er til, og nemur nálega 700 þús. kr., renni sem stofnfje inn í þennan veðlánasjóð. Sá sjóður hefir nú á síðustu árum algerlega hætt því starfi, sem honum var í upphafi sett, nefnilega að lána til þess að auka fiskiskipastól landsmanna. Í stað þess hefir hann lánað fje til hafnargerða; og meginhlutinn af fje hans situr þar fast. Verður því ekki sjeð, að hann geri nú sem stendur fiskiveiðunum nokkurt gagn, og hefi jeg ekki sjeð aðra þarfari starfsemi handa honum en láta hann hjálpa mönnum til þess að gera góða vöru úr þeim fiski, sem fiskimenn draga á land. Stofnsjóðurinn verður til þess að lækka dálítið vexti af því lánsfje, sem ríkissjóður leggur honum til, og það er altaf mikilsvert, að vextir geti verið sem allra lægstir. Og ef heppilega tekst til um útvegun lánsfjárins, þá held jeg, að vextir peninga frá veðlánasjóði fiskimanna þurfi ekki að fara fram úr 7½%, jafnvel þótt tekið verði með þessi 1%, sem menn eiga að greiða af andvirði þess afla, sem lánað er út á, í varasjóði deildanna, er einungis koma til góða hverri þeirri deild, sem slíkt varasjóðsgjald fær. Jeg held ekki, að vextir verði hærri en nú í bönkum. Svo er á það að líta, að sjóðurinn eignast sjálfan sig á 40 árum, og eftir þann tíma mætti því lækka vexti mikið. En það verður, í því veltufjárleysi, sem hjer er í landi, náttúrlega ekki aukið, nema með því, að safnað sje í sjóð til framtíðarinnar. Annars verðum við altaf í vandræðum með fjé, ef ekki verður byrjað að safna. Þegar það væri komið í kring, yrðu þetta tiltölulega ódýr lán; og þá mundi sjóðinum sennilega vaxa það fiskur um hrygg, að hann gæti tekið að sjer aðra starfsemi en þá takmörkuðu starfsemi, sem honum er ætlað samkv. þessu frv.

Það er sjálfsagt eitthvað í þessu frv., sem öðruvísi gæti staðið, þó að jeg áliti hinsvegar, að form þess sje sæmilega gott og að ekki þurfi miklu að breyta. Mun jeg fús að taka til athugunar till. um breytingar, ef jeg sje líkur til, að þær miði að því, að ná betur tilgangi þeim, sem sjóðnum er ætlað í þessu frv.

Jeg minnist í aths. frv. á ýmsar fiskiútvegsstöðvar kringum landið, þar sem sjóðurinn skyldi hafa deildir. Geta ef til vill orðið skiftar skoðanir um þetta. En jeg held, að margir af þeim stöðum hljóti að koma til greina fyrst og fremst.

Þá hefði jeg viljað, að svo gæti tekist á milli stjórnar þessa sjóðs og Landsbankans, að bankinn hjálpaði sjóðnum í að ávaxta fjeð þann tíma, sem það er ekki í notkun; en það er svo um þetta fje, að erfitt mun að ávaxta það, eins og er um annað fje, sem lánað er til skamms tíma. Það er varla fært öðrum en Landsbankanum að ávaxta sæmilega hátt slíkt fje, af því að hann hefir viðskifti við útlönd og getur veitt því þangað. Þyrfti því að vera náin samvinna milli þessa sjóðs og Landsbankans. Annars er kanske stærsti erfiðleikinn í þessu, hvernig eigi að ávaxta fjeð þann tíma, sem það er ekki notað, ef ekki nást hæfilegir samningar við Landsbankann. Sami agnúinn var á frv. um atvinnurekstrarlán, sem var fyrir hv. deild um daginn. En lán úr þessum sjóði ættu alls ekki að þurfa að tapast neitt, því að það er aðeins lánað út á fult verðmæti; og þótt maður geti hugsað sjer, að einhverjir reyndu að komast undan því, að láta andvirði afla síns til endurgreiðslu, þá hygg jeg það yrði aðeins sem undantekning og yrði alveg hverfandi. Og mönnum þætti áreiðanlega ódrengilegt að svíkjast undan að greiða slík lán. Það er til þess ætlast, að menn hafi aflann í sjálfsvörslu, þó að hann sje að veði; er það samkv. þeirri heimild, sem samþ. var í lögum á síðasta þingi fyrir bankana. Viðvíkjandi þeirri heimild verð jeg að segja, að jeg hefi ekki trú á því, að bankarnir láni fje svo verulegu nemi til hinna smærri útvegsmanna, bæði af því að þá brestur kunnugleika til þess að vita, hvort óhætt sje að veita þessi lán, og eins af hinu, að þeir geta ekki haft eftirlit með því, að lánin sjeu greidd á gjalddaga. Er öðru máli að gegna, þegar kunnugir menn á hverjum stað eiga að hafa eftirlit með því, að lánin sjeu greidd á þeim tíma, sem varan er seld.

Það hefði verið gott að heyra undirtektir hæstv. stjórnar, sjerstaklega um það, hvernig hún tekur í að útvega lánsfje og hverjar líkur munu til þess, að það fengist með viðunandi kjörum; en hún stendur í styrjöld við þá Íhaldsmennina í neðri deild, sem eru nú að romsa upp hennar syndir. Er því kanske fyrirgefanlegt, þótt tómir sje ráðherrastólarnir.

Jeg geri að till. minni, að frv. þessu verði vísað til fjlm., þó að það gæti að einhverju leyti heyrt undir sjútvn. En svipuð mál koma til fjhn., enda er þetta mikið fjárhagsmál.