23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (1512)

123. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Halldór Steinsson:

Það er enginn vafi, að það er hið mesta nauðsynjamál, sem hjer er á ferð, og það er heldur enginn vafi, að tilgangurinn með frv. er í sjálfu sjer góður, og hv. flm. hefir ekki gengið til nema alt hið besta með að flytja það.

Á síðasta þingi var samþ. þáltill. um það, að skora á ríkisstjórnina að gera gangskör að því, að undirbúa mál um lánsstofnun fyrir bátaútveginn. Samkv. þessari áskorun hefir hæstv. stjórn skipað nefnd manna til að íhuga málið. Og álit þessarar nefndar er komið fram. Jeg er samdóma hv. flm. þessa máls, að þær till., sem nefndin lagði fram, geti alls ekki komið bátaútveg landsins að verulegu haldi. Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það, að smærri bátaútvegi landsins veitist kostur á lánsfje áður en aflinn er fenginn. Og þess vegna stóð jeg upp, að jeg vildi benda á, að þetta frv. nær ekki þessum aðaltilgangi, sem ætti að vera. Það er ekki nóg fyrir smærri útvegsmenn að eiga von á lánum eftir vertíð; það kemur ekki að neinu haldi. Margir eru svo settir, að þeir verða að láta jafnóðum afla sinn til viðurværis, til þess hreint og beint að geta lifað. Nei, það, sem þeir þurfa helst á að halda, er að fá lán fyrirfram, til þess fyrst og fremst að geta trygt sjer veiðarfæri og lífsviðurværi yfir þennan tíma, þangað til aflinn er orðinn að verkaðri vöru. Þetta er aðalatriðið. Og meðan ekki er fundin leið út úr þessum vandræðum, þá sitjum við í sama farinu.

Jeg verð að segja, að eins og gert er ráð fyrir að fyrirkomulagi um atvinnurekstrarlán sje varið með því frv., þá eru meiri líkindi til, að brátt gæti komist sú æskilega tilhögun í kring, því að þar er ætlast til, að fjelagi manna sje veitt lán fyrirfram, og það er það eina, sem dugar. Jeg skal ekki um segja, hvort þau lán yrðu eitthvað ótryggari; það kynni að vera, en má þó alls ekki ganga út frá því sem vísu; það er komið undir lánsstofnuninni. Og þar sem jeg þekki til, er svo trygg stjórn fyrir sparisjóðum úti um land, að litlar líkur tel jeg á, að misnotkun eigi sjer stað. Með því fyrirkomulagi skilst mjer, að frekar mætti ná þessum aðaltilgangi, að veita sjómönnum lán áður en aflinn er fenginn, sem er aðalmergur þessa máls.