23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1516)

123. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Eiginlega er dæmið., sem hv. þm. Snæf. tók þarna að vestan, áþreifanleg sönnun þess, að eitthvað verður að gerast í þessu efni, og jeg held einmitt, að það, sem stungið er upp á í frv., geti orðið til mikilla bóta. Mennirnir þarna fyrir vestan eru svo undirgefnir kaupmannsvaldinu, að þeir þora ekki að selja afla sinn fyrir peninga, sem þeir geta keypt fyrir vörur annarstaðar og ódýrara en kaupmaðurinn á staðnum selur þær.

Þetta dæmi sýnir átakanlega, hve brýn þörf er að bæta úr þessu. Dæmið er smellin lýsing á ástandinu, eins og það er víða, þar sem almenningur er bundinn á klafa hjá kaupmanninum. Hann veit, kaupmaðurinn, hvað hann má bjóða sjer: Þið þurfið ekki að koma til mín, jeg lána ykkur ekkert! Ef þið hagið ekki öllu ykkar heimilislífi eftir því sem jeg legg fyrir, þýðir ekkert að leita til mín!

En þó að þetta dæmi lýsi ástandinu átakanlega, eins og það er, sannar það ekkert um, að ekki sje hægt með lánum úr sjóðnum að tryggja það, að mennirnir geti sjálfir átt aflann og selt hann hæsta verði. Maðurinn fyrir vestan bauðst að vísu til að borga aflann með peningum út í hönd, en hann gaf þeim ekki sömu vonir um verðið, eins og ef þeir gætu sjálfir átt aflann, þangað til hæsta markaðsverð býðst. Þegar svona fiskkaupmaður tekur sjer bólfestu um stundarsakir, þora menn ekki að sleppa viðskiftunum við fasta kaupmanninn á staðnum. Á þessum mönnum er ekkert að byggja til langframa; þeim er hvergi markaður bás, þeir geta tilt sjer þarna niður eina vertíð og flogið svo út í veður og vind. Þetta vita menn, og eru því hræddari að slíta gömul viðskifti, þótt óhagkvæm sjeu, vegna þessara aðvífandi manna.

En ef stofnun, sem ríkið stendur á bak við, styður slík viðskifti, þá er von um, að úr þessu sje bætt, og ekki aðeins tjaldað til einnar nætur, heldur haldi slíku áfram. Eins mætti ætla, að kaupmenn sæju sjer lítinn hag í að vinna móti slíkum lánveitingum, af því að margir þeirra eru skuldugir og verða oftast að fá lán hjá umboðsmönnum sínum, og þau sjaldnast hagkvæm, sem kemur fram í dýru vöruverði. Kaupmenn ættu því að stuðla að því, að slík viðskifti kæmust á, enda mundu þau öllum fyrir bestu.

Það getur líka komið fyrir, að kaupmenn láti vanta í búðir sínar algengustu nauðsynjavörur. Mjer er t. d. kunnugt um, að á Vesturlandi hefir það átt sjer stað, að kaupmenn hafa ekki pantað matvæli eða haft slíkar vörur til sölu svo tímum skifti, og það kanske þegar harðast var hjá fólkinu. Og þegar kaupmennirnir eru spurðir, hvers vegna þeir láti sjer farast svona ómannlega, þá afsaka þeir sig með því, að þeir segjast ekki geta haldið vörunum fyrir fátæklingum, sem þurfa þeirra við, en hafa ekkert handa milli til þess að greiða vörurnar með. Og þá grípa þeir til þessa snjallræðis, að hætta við að panta matvörur og aðrar nauðsynjar, svo að þeir losni við að sinna fátæklingunum, sem til þeirra leita, þegar heimilin eru bjargarlaus.

Dæmið, sem hv. þm. Snæf. tók, og það, sem jeg nefndi áðan, sanna einmitt um nauðsyn þessa máls, er frv. þetta flytur.