23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (1517)

123. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Halldór Steinsson:

Jeg skal kannast við, að þetta dæmi, sem jeg nefndi, sannar, að mönnum, sem smábátaveiði stunda, er nauðsynlegt að geta fengið lán. En hv. flm. komst ekki í þessari síðustu ræðu sinni að kjarna málsins, eða því, sem um er deilt, en það er það; hvort lánið skuli veitt fyrirfram eða á eftir, þegar aflinn er fenginn. Í kringum þetta hefir hann farið, en látið í veðri vaka, að mönnum mundi nóg að fá lánið eftir á. Að öðru leyti þarf jeg ekki að fjölyrða um það hjer, að við erum sammála um þörfina fyrir þessar lánveitingar. En jeg held hinu fram, að mönnum komi betur að geta fengið lánið í byrjun vertíðar, eða áður en þeir búa sig til veiðanna.

Þá fanst mjer hv. flm. leggja fullmikið upp úr því, að jeg hefði með dæmi því, er jeg nefndi, farið niðrandi orðum um kaupmenn á Vesturlandi. Það var fjarri mjer, að jeg vildi álasa þeim á nokkurn hátt. Jeg sagði, að það væri ekki nema von, þó að kaupmenn hættu að lána þeim, sem fara með vörur sínar eitthvað annað. Þetta er ekki nema mannlegt, hjá kaupmanninum; ekki er að ætlast til þess, að hann láni, nema einhver von sje um endurgreiðslu.