21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1527)

13. mál, bygging húss fyrir opinberar skrifstofur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er að vísu ekki eins þýðingarmikið og það, sem síðast var afgreitt hjer í deildinni (sundhöll). En þó er hjer um nauðsynjamál að ræða.

Sundhöllin er menningarmál, og til þess fram borið, að bæta heilbrigði þjóðarinnar, en ekki fyrst og fremst til að spara fje.

Með þessu frv. er aðeins um fjárhagslegt atriði að ræða fyrir ríkissjóð. Og þó að það yrði samþykt nú, sem jeg skal ekkert segja um að verði, þá gæti vel farið svo, að eitthvað dragist að byrja á byggingunni. En frv. hefi jeg borið fram vegna þess, að þegar hagur ríkissjóðs leyfir, verður ekki komist hjá því að byggja þetta hús. Annars liggja tvær höfuðástæður til þess, að frv. er fram borið.

Í fyrsta lagi mun það reynast ódýrara fyrir ríkið að byggja yfir skrifstofur sínar, heldur en að leigja húsnæði fyrir þær víðsvegar úti um bæ. Mundi því vera um allmikinn fjársparnað að ræða fyrir ríkissjóð, kæmist það í framkvæmd að reisa húsið.

Í öðru lagi eru líkur til, að hægt yrði að draga saman störf í skrifstofunum, ef þær væru allar í sama húsi, og minka þannig mannahald. Mundi samfærsla spara starfsmönnum skrifstofanna margan snúning og tafir. Auk þess yrði hún til mikilla hagsmuna fyrir alla þá menn, sem erindi eiga í skrifstofurnar. Eins og kunnugt er, eru skrifstofur þessar dreifðar út um allan bæ, svo að hjá ferðamanni, sem mörgum erindum hefir að gegna, fer hálfur dagurinn í að hlaupa milli þeirra.

Annars vil jeg taka það þegar fram, að til mála hefir komið að byggja við stjórnarráðshúsið í þessu skyni, og þá stungið upp á að bygðar yrðu álmur út að Bankastræti og Hverfisgötu. En að byggja þessar hliðarálmur við húsið eins og það er, mundi aldrei fara vel og spilla mjög útliti þess hluta bæjarins, sem húsið stendur í. Stjórnin hefir því helst hugsað sjer að nota lóð ríkisins á Arnarhólstúninu og reisa þar nýtt hús með einföldu sniði, er fullnægi þó kröfum tímans. Heppilegast mundi að hafa það með því sniði, sem liðkast um slíkar byggingar í Ameríku, og byggja smátt og smátt, eftir því sem fjárhagur ríkisins leyfir. Til útlits þessa húss þarf ekki að gera jafnháar kröfur og þeirrar byggingar, sem stæði á stjórnarráðsblettinum. (MJ: Það verður þó að vera hljóðhelt!). Já, stjórnarráðshúsið er nú hljóðhelt. Það eru metraþykkir múrveggir í því, og þó að það sje gamalt, er það vandað og traust, enda var það til forna hvorttveggja í senn: betrunarhús og letigarður.

Eins og jeg gat um í upphafi máls míns, getur dregist, að húsið verði bygt, enda þótt heimildin yrði samþykt. En fyr eða síðar hlýtur að koma að því, að það verði reist. Og þá er gott, að heimildin sje til.

Jeg þykist ekki þurfa að fara um frv. fleiri orðum. Það mun vera best komið hjá hv. fjhn., og geri jeg að till. minni, að því verði þangað vísað, að þessari umr. lokinni.