10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Þó að allmargar brtt. væru gerðar á ýmsum liðum fjárlagafrv. við 2. umr., breyttist niðurstaðan. ekki mikið frá því, sem fjvn. hafði lagt til. Tekjuafgangurinn hækkaði um 11 þús. kr. En nú liggja fyrir yfir 100 hækkunartill., og nema þær, eftir því, sem jeg hefi lauslega áætlað, um 850 þús. kr.; þar af nema hækkunartill. fjvn. 365 þús., stjórnarinnar 225 þús. og hækkunartill. einstakra þm. 260 þús. kr. Hjer er því um stórmiklar hækkunartillögur að ræða, og reynir nú mjög á varfærni háttv. þdm. um afgreiðslu þeirra.

Til skýringar hækkunartill. nefndarinnar og til að gera það ljóst, að hún ætlast ekki til, að þær eigi raunverulega að orsaka tekjuhalla á fjárlögunum eins og þau verða afgreidd endanlega, vil jeg vísa til þess, sem jeg ljet um mælt fyrir hönd meiri hl. við 2. umr., að því aðeins treystum við okkur til að hækka fjárveitingar til ýmsra verklegra framkvæmda — brúagerða, símalagninga o. fl. —, að þingið samþ. að einhverju leyti tekjuaukafrv., er fyrir þinginu liggja. Þetta var ekki sjeð við aðra umr., og þess vegna bárum við engar hækkunartill. fram þá, þó að við teldum þær nauðsynlegar. Enn er að vísu ekki til fulls sjeð um afdrif tekjuaukafrv. En eftir meðferð þeirra í hv. Ed. þykist nefndin mega treysta því, að þingið samþykki einhvern tekjuauka, meiri eða minni. Þess vegna sjer hún nú fært að bera fram till. um hækkun nokkurra liða 13. gr., alls 320 þús. kr. Gerir hún það með það fyrir augum, að síðar, þegar betur sjást úrslit um tekjuaukafrv., megi hækka tekjubálkinn, svo að unt verði að afgreiða fjárlögin án tekjuhalla, en það vill meiri hl. nefndarinnar halda fast við.

Að vísu má að sjálfsögðu hlaða svo á útgjaldahliðina, að erfitt verði að ná þessu marki. Er hætt við, að svo færi, ef allar þær brtt., sem fyrir liggja, yrðu samþ. En nefndin er fyllilega þeirrar skoðunar og vill undirstrika það, að þær tillögur, sem hún ber fram við þennan kafla, eigi að sitja fyrir og hafi mestan rjett á sjer. Og hún væntir stuðnings hv. deildar til þess að svo megi verða. Hinsvegar treystir hún á varfærni deildarinnar gagnvart hækkunartill. einstakra hv. þingmanna.

Jeg skal þá víkja að brtt. nefndarinnar, hverri fyrir sig. Skal jeg taka það fram, að ein þeirra er aðeins um lagfæringu á prentvillu, og því sjálfsögð. Sú fyrsta eiginlega brtt. er við 13. gr. b, 3. lið, um brúagerðir. Leggur nefndin til, að fjárveitingin til brúa sje hækkuð úr 100 þús. upp í 200 þús. krónur.

Eftir að hafa kynt sjer till. vegamálastjóra, kom nefndinni saman um, að ekki mundi mega ætla minna til brúagerða en 200 þús. kr. árið 1929, eins og vegamálastjóri hefir farið fram á í tillögum sínum. Til brúagerða er æt]að í yfirstandandi fjárlögum 190 þús. kr., en á síðastliðnu ári var eytt 45 þús, kr. umfram það, er stóð í fjárlögum þess árs, svo ekki er eftir nema 145 þús. kr., ef þessi fyrirframeyðsla er tekin af veitingu þessa árs. Nú liggja fyrir margar nauðsynlegar og þegar ákveðnar brúabyggingar, sumar mjög dýrar. Þannig er áætlað, að Hvítárbrúin muni kosta um 150 þús, kr., auk þess undirbúnings, sem þegar er gerður og kostað hefir 35 þús. kr. Vegamálastjóri lagði fyrir nefndina lista yfir þær brýr, sem mjög væri aðkallandi að byggja. Nemur kostnaðurinn við þær samtals nokkuð yfir 400 þús. kr. Þótti nefndinni auðsætt, að ekki væri hægt að komast af með minni fjárveitingu til brúagerða en 200 þús. kr., miðað við þær skýrslur, sem fyrir lágu, til þess að mæta hinum mest aðkallandi þörfum, og leyfir sjer því að leggja það til.

Þá hefir nefndin leyft sjer að bera fram till. um að hækka fjárveitinguna til fjallvega upp í 25 þús. kr. — Þessi liður er að vísu hækkaður í frv., samkv. till. vegamálastjóra, upp í 20 þús. kr. úr 12 þús. kr., sem áður hefir verið veitt til fjallvega. Ástæður fyrir þessari hækkun eru þær, að ætluð er ríflegri upphæð til vegarins um Mývatnsheiði og Laxárdalsheiði og búist við auknum aðgerðum á fjallvegum til Þingvalla, vegna væntanlegrar hátíðar 1930. En fyrir nefndinni lá, auk þessa, beiðni um fjárveiting til að gera akfæran vegarkafla af sýsluveginum á Svalbarðsströnd upp á þjóðveginn, sem nú er verið að byggja yfir Vaðlaheiði. Áður hefir ríkissjóður lagt fram nokkurt fje til fjallvegarins yfir Steinskarð. En þar sem nú er ákveðið, að þjóðvegurinn liggi út á Steinskarð, er aðeins um það að ræða að fá lagðan akvegarspotta, er tengi saman hinn væntanlega þjóðveg og sýsluveginn, sem liggur eftir Svalbarðsströnd. Er hin mesta nauðsyn fyrir hjeraðsbúa austan Vaðlaheiðar, að þessi vegarspotti sje gerður akfær, þar eð þeir hafa sláturhús á Svalbarðseyri og flytja alla sína aðalþungavöru þaðan. — Hefir vegamálastjóri ákveðið að láta athuga komandi sumar, hvar hentast mundi að leggja þennan vegarspotta og hvað það mundi kosta. Nefndin er hlynt því, að vegargerð þessi komist sem fyrst til framkvæmda, og með það fyrir augum leggur hún til, að fjallvegafjeð verði hækkað upp í 25 þús. kr.

Miðað við þau líkindi, sem nefndin þóttist hafa um aukning ríkisteknanna, leyfir nefndin sjer að bera fram af nýju aukið tillag til akfærra sýsluvega. Hefir hún sömu ástæður fyrir sig að bera í því efni og áður, sem sje hina stórmiklu nauðsyn hjeraðanna og kröfur um aukið framlag frá ríkinu til sýsluveganna, sem hjeruðin leggja fram helming á móti. Gangi brtt. fram, verður þessi liður jafnhár og í núgildandi fjárlögum, 40 þús. kr.

Nefndin leggur til að hækka fjárveitinguna til nýrra símalagninga upp í 300 þús. kr. En hún treystir sjer ekki til að verða við till. setts landssímastjóra, sem leggur til að veita alls 398 þús. kr. Býst nefndin við, að hægt verði að fullnægja þrem fyrstu tillögum hans, sem sje: 1) tillag til Suðurlandslínunnar, 2) bygging línu frá Víðimýri til Akureyrar og 3) bygging loftskeytastöðva í Grímsey og Flatey með móttökustöð á Akureyri. Og þó áætlun landssímastjóra um kostnað við þetta þrent sje 315 þús. kr., væntir nefndin, samkv. upplýsingum frá landssímastjóra, að nokkuð kunni að sparast á Suðurlandslínunni, sökum hagkvæmra kaupa á efni, svo 300 þús. kr. kunni að nægja. Vill nefndin benda á hina miklu nauðsyn þess, að línan frá Víðimýri til Akureyrar sje ekki látin bíða lengur, bæði sökum þess, hvað síminn er ofhlaðinn vestan við Akureyri á sumrin, vegna Siglufjarðar, og hins, að með því fæst einnig stórum betra og tryggara símasamband á vetrum, þar eð línustæðið er svo miklu betra á Öxnadalsheiði en Heljardalsheiði, þar sem síminn liggur nú. Einnig má minnast þess, að nefndar loftskeytastöðvar hafa þegar tvisvar staðið í fjárlögum áður, svo sanngjarnt virðist, að þær sjeu ekki látnar bíða lengur.

Þá leggur nefndin til að setja inn nýjan lið: Til byggingar nýrra vita 60 þús. kr. Í till. sínum til stj. fer vitamálastjóri fram á, að reistir verði tveir nýir vitar árið 1929, Hornviti og Tjörnesviti, og áætlar, að bygging þeirra muni kosta 87 þús. kr. Nefndin viðurkennir hina fylstu þörf á því, að haldið sje áfram að bæta vitakerfið eftir föngum ár frá ári, en treystir sjer þó ekki að leggja til, að hærri upphæð sje veitt að þessu sinni en 60 þús. kr. til þessara hluta, er notuð sje eftir því, er stjóxnin telur mesta nauðsyn bera til. Telur nefndin sennilegt, eftir því, sem fram hefir komið, að Hornvitinn verði látinn sitja fyrir, enda þessi upphæð að nokkru leyti miðuð við það.

Fyrir nefndinni lá erindi um 500 kr. styrk til að koma upp leiðarljósi við Vestrasund svonefnt á Akranesi. Er mikil nauðsyn á þessu, þar sem Syðrasund er svo grunt um stórstraumsfjöru, að stærstu vjelbátar, er til fiskjar ganga, fljóta þar ekki, en verða að fara um Vestrasund. Nefndin mælir með því, að af liðnum 13. gr. E. 2. a. — til uppsetningar leiðarljósa — megi verja alt að 500 kr. til þessa verks.

Þá er lokið þeim till., sem fjvn. ber fram, og læt jeg bíða að lýsa afstöðu nefndarinnar til annara brtt., þar til flm. hafa mælt fyrir þeim.