28.01.1928
Neðri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (1533)

28. mál, hveraorka

Jörundur Brynjólfsson:

Eins og getið er í ástæðum frv. þessa, er það fram borið eftir áskorun Alþingis í fyrra. Hefi jeg ekkert sjerstakt að athuga við meginatriði frv., en þó langar mig til að vekja athygli þeirrar nefndar, sem það fær til meðferðar, á nokkrum ákvæðum þess, og þá einkum 12. gr.

Í frv. er gert ráð fyrir, að jarðeigandi geti tekið hveraorkuna til nauðsynja sinna, og einnig er það heimilt leiguliða, ef lánardrottinn vill ekki nýta orkuna. Þá er og ennfremur heimilað hjeraðsstjórn að taka eignarnámi hveraorku einhverrar jarðar til almennra afnota í hjeraðinu. Og loks er heimilað, að ríkið taki eignarnámi jarðhitaaflið, undir vissum kringumstæðum.

Við öllum þessum ákvæðum er í sjálfu sjer ekkert að segja, og er þannig frá þeim gengið, að vel má fylgja þeim. En þetta verður alt athugaverðara, þegar hægt er eftir 12. gr. að færa rjettindin út til einstaklinga, svo að þeir geta fengið sjerleyfi til borunar í landeign manns, jafnvel þótt hann sje því andvígur og þurfi sjálfur á hitaorkunni að halda. Í 12. gr. er komist svo að orði: „Nú vill einhver annar en landeigandi eða umráðamaður bora eftir jarðhita, og sýnir, að hann er þess megnugur, og skal hann þá fá leyfi til þess hjá lögreglustjóra — Áður en leyfi er veitt, skal lögreglustjóri tilkynna landeiganda, að sótt hafi verið um borunarleyfi.“ Þetta ákvæði um tilkynningarnar er að vísu gott, en það nægir enganveginn, því að hvergi er tekið fram, að lögreglustjóri hafi ekki heimild til að veita leyfið, fyr en komið sje svar frá landeiganda. Þó virðist mjer, að ekki mætti minna vera, en að slíkt ákvæði væri sett. Samkv. greininni, eins og hún er nú, virðist mjer rjettur ábúanda og eiganda jarðar ekki nægilega trygður. Þess er og getið í greininni, að sá, sem borunarleyfi fær, skuli ganga fyrir um sjerleyfi til notkunar hitanum. Að vísu er jafnframt sagt, að ríkisstjórn eða hjeraðsstjórn geti tekið hitaorkuna til almennra þarfa, hvað langt sem verkinu er komið, en þess er hvergi getið, að eigandi jarðar eða ábúandi geti fengið rjettindin til sín aftur. Mjer sýnast þeir því æði hart leiknir með þessum ákvæðum. Vel getur staðið svo á, að eigandi sje ekki viðbúinn að taka hitann til eigin afnota, þegar einhver sækir um borunarleyfi, og er þá hart, að annar maður, sem aðeins hefir betri fjárráð þá stundina, geti svælt undir sig þessi mikilsverðu rjettindi.

Þessum atriðum vildi jeg hreyfa, áður en málið færi til nefndar. Vona jeg, að hún komi með þær brtt., að rjettur eiganda og ábúanda verði ekki fyrir borð borinn.