10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Jeg vil votta hv. fjvn. þakklæti mitt fyrir það, að hún hefir hækkað framlög til verklegra framkvæmda, en þó þykir mjer hún ekki hafa tekið nóg tillit til vegamálanna í hækkunartillögum sínum. Sá liður er útundan hjá hv. þm.

Magnús Stephensen landshöfðingi sagði einu sinni, að hann sundlaði, er hann heyrði miljón nefnda. Nú er sá tími liðinn. En jeg vil minna á í þessu sambandi, að hann var sá maður, er allra manna best skildi, hvaða þýðingu vegir hafa. Þó þektu menn þá ekki jafngóð farartæki og bifreiðar. Jeg hefi jafnan haldið því fram, að samgöngur á landi væru undirstaða landbúnaðarins. Landið á að rækta frá sjónum með nýtísku samgöngum. Jeg hefi því flutt nokkrar brtt. í þessa átt.

Hv. fjvn. hefir lagt til, að tillagið til akfærra sýsluvega væri hækkað upp í 40 þús. kr. Jeg og hv. þm. Mýr. leggjum það til, að það verði hækkað upp í 50 þús. kr. og til vara 45 þús. kr. Vona jeg, að hv. þm. skilji, að það borgar sig, að stjórnin hafi frjálsar hendur um þennan lið og leggi fram það fje, sem sýslunefndir beiðast, þar sem ríkissjóður greiðir einungis helming kostnaðar við vegalagninguna.

Þá er það 12. brtt., sem jeg er meðflutningsmaður að, um fjárveitingu til Fjallabaksvegar, eða öðru nafni Landvegar í Rangárvallasýslu. Mjer þykir verst, að hæstv. atvmrh. skuli ekki vera viðstaddur, því frá honum lá fyrir loforð um, að fje skuli lagt fram til þessa vegar, sem hefir beðið svo lengi. Jeg var svo bjartsýnn, að jeg trúði hæstv. stjórn vel til að standa við það, en sje heldur ekkert á mótí að koma fram með þessa tillögu. Fyrv. atvmrh. mun geta vitnað um, að þessu var og lofað í hans stjórnartíð, og því ber hann till. fram með okkur þm. Rang. Það liggur því fyrir bæði loforð fyrv. stjórnar um fjeð og loforð núverandi hæstv. atvmrh. um að standa við það. — Vegur þessi liggur af Holtaveginum og alla leið austur í Skaftártungu. Rangárvallasýsla hefir viðhald hans alla leið inn á afrjett. En nú er neðri hluti hans orðinn svo bágur, að það má ekki koma skúr úr lofti, svo hann verði ekki ófær, og það jafnvel fyrir gangandi menn. Það er jafnvel betra að fara utan við hann í rigningatíð. Það hafa því verið rannsökuð ný vegarstæði, en útkoman orðið sú, að álitið er heppilegast að taka upp gamla veginn og leggja hann þar í sama farið.