23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1541)

18. mál, dýralæknar

Gunnar Sigurðsson:

Mjer er altaf illa við að þrautræða mál við 1. umr., en ætla þó að segja fáein orð.

Jeg er þakklátur hæstv. atvmrh. fyrir að hafa flutt þetta frv. hjer í deildinni, því að þetta er mál, sem vissulega þarf athugunar við. En því miður nær þetta þakklæti ekki lengra, því að jeg er honum ósammála í aðalatriðinu.

Það hlýtur að verða ofan á í framtíðinni, að dýralæknum verði fjölgað, en ekki fækkað. Sú hefir orðið reynsla allra landa, þar sem landbúnaður hefir tekið framförum og færst í nýtískuform. Og það er allra álit, sem landbúnaði unna, að takmarkið og eina leiðin til að reisa hann við, sje það, að koma á hann meira nýtískusniði en nú er. Jeg skal rökstyðja þetta, er jeg sagði um reynslu annara þjóða í þessu efni. Jeg nefni Noreg sem dæmi. Þar í landi voru um aldamótin 1900 148 dýralæknar, en 1920 voru þeir 245 að tölu, eða nálægt hundraði fleiri, og nú ættum við að tiltölu við Norðmenn að hafa 25 dýralækna.

Mörg atriði koma hjer til greina. Berklaveiki í kúm hefir orðið vart hjer á landi. Má búast við, að hún aukist, ef ekki er að gert í tíma. Til þess að rannsaka þetta og hafa eftirlit þarf dýralækna. Sumstaðar er það beinlínis heimtað, eins og t. d. í Reykjavík, þar sem mjólk er seld frá þúsundum heimila, að allar kýr sjeu skoðaðar af dýralækni.

Jeg er þakklátur hæstv. atvmrh., að hann tók það fram, að ætti nokkurt einstakt hjerað heimting á sjerstökum dýralækni, þá væri það Suðurlandsundirlendið. Austanfjalls vantar tilfinnanlega dýralækni. Allvíða þaðan er nú farið að selja mjólk til Reykjavíkur, en ekki hægt um vik, að fá lækni hjeðan til þess að skoða kýrnar, auk þess sem þetta er svo stórt landbúnaðarsvæði, að fullnóg verkefni ætti að vera þar fyrir hendi fyrir sjerstakan dýralækni. Þá má benda á í þessu sambandi, að hæstv. stjórn hefir á prjónunum frv. um búfjártryggingar. Það er eitt hið mesta þarfamál. En einmitt það ýtir undir fjölgun dýralækna, kanske meira en nokkuð annað. Án þeirra verður aldrei komið á búfjártryggingum, svo í lagi sje. Jeg ætlast ekki til að þeim fjölgi alt í einu, heldur smámsaman eftir þörfum og getu. Benda má á, að þeir gætu sem best tekið að sjer jafnframt önnur störf. Ætlast jeg til, að þeir sjeu búsettir í sveit. Geta þeir þá tekið að sjer kenslu á búnaðarskólum, eða jafnvel alþýðuskólum. Auk þess virðist hægt og jafnvel sjálfsagt, að þeir taki að sjer og annist búfjársýningar, sem hið opinbera gengst fyrir. Ætti engir að vera til þess betur fallnir en einmitt þeir.

Hæstv. atvmrh. fanst mjer gera heldur lítið úr starfsemi þeirra dýralækna, sem nú eru. Jeg er viss um, ef fólk vendist að leita til þeirra meira en það gerir, og hefði betri aðstöðu til þess, því að nú má það heita frágangssök viðast sakir fjarlægðar, þá mundi gagnið af starfi þeirra verða meira en menn grunar.

Jeg hefi undanfarin ár haft allstórt bú og altaf mist árlega 1–2 stórgripi. Jeg er sannfærður um, að mörgum þeirra hefði mátt bjarga frá dauða, ef hægt hefði verið að ná til dýralæknis. Og enn er eitt, sem jeg tel ekkert smáatriði, og það er mannúðarhlið þessa máls. Mig hefir oft tekið sárt, að verða að horfa upp á dauðveika gripi kveljast, án þess að geta neitt að gert til hjálpar.

Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að sá maður, sem manna mest hefir starfað fyrir íslenskan landbúnað, Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, er mjer sammála um öll þessi atriði. Þar sem hæstv. atvmrh. mintist á stofnun til þess að rannsaka búfjársjúkdóma, þá skal jeg taka það fram, að Jón Pálsson, dýralæknir eystra, hefir skrifað í „Veterinærfysikatet“ viðvíkjandi þessu spursmáli, og forstjóri þess, C. O. Jensen, sent álit sitt búnaðarmálastjóra. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg leyfa mjer að lesa upp það, sem hann segir um samband dýralækna og slíkrar rannsóknarstofu. Honum farast svo orð: „ .... Det vil være en væsentlig Hindring for Laboratoriet, at der ikke findes Dyrlæger spredt í Landet og en Forringelse af det nuværende Antal vil í höj Grad formindske den Nytte, Laboratoriet kan göre.“

Þetta sýnir, að C. O. Jensen álítur það beinlínis hættulegt fyrir slíka stofnun, að fækka dýralæknum. Mun jeg ef til vill síðar fá tækifæri til þess að bera fram brtt. eða frv. í þessa átt.