23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (1548)

18. mál, dýralæknar

Sigurður Eggerz:

Hæstv. atvmrh. var að dylgja um það, að eitthvað annað hefði vakað fyrir mjer í bankamálum, en að sjá landbúnaðinum borgið. En hvað annað vakti fyrir mjer? Afstaða mín til fasteignabankans sýndi það, að jeg og samherjar mínir höfðum fullan hug á að koma bankamálunum í gott horf. Og um leið skipuðum við landbúnaðinum í öndvegi.

Jeg held fast við það, sem jeg sagði áðan, að við höfum hjálpað Mjólkurfjelagi Reykjavíkur eftir því sem við höfum getað. Og til þess liggur sú einfalda ástæða, að við berum fullkomið traust til fjelagsins og sjáum, að því er vel stjórnað. Um þetta mætti spyrja framkvæmdarstjóra fjelagsins, og jeg er ekki í neinum vafa um, hverju hann muni svara.

Þá mintist hæstv. atvmrh. á lánið til norðlensku bændanna, og vildi láta líta svo út, að það væri veitt eftir beinni skipun frá sjálfum honum. Jeg vil þá leyfa mjer að spyrja: Er hann þá sem bankaráðsformaður orðinn lánveitandi, eða er það meiningin, að hæstv. stjórn ætli framvegis að blanda sjer inn í einstakar lánveitingar bankans? Ef svo er, þá er hjer lengra gengið en nokkur formaður bankaráðsins hefir leyft sjer áður. Hitt er satt, að hæstv. atvmrh. sagði mjer, að bændur þessir hefðu orðið illa úti, og mæltist mjög vingjarnlega til, að tekið yrði tillit til þessa í bankanum, eftir því sem hægt væri. Að lánið sje veitt eftir skipun hans, er því með öllu órjett.

Annars vil jeg skjóta því til hæstv. atvmrh., að jeg er ekki í neinum vafa um, að mínar till. í bankamálum munu reynast betri og heppilegri en hans, því að mínar kröfur í þessu efni eru bygðar á rjettari og sanngjarnari grundvelli en hann byggir.

Hann spurði líka, hvort jeg mundi standa við þessar kröfur, þegar á hólminn kæmi. Því get jeg svarað strax, að jeg er ákveðinn í því, að vilja styrkja landbúnaðinn svo um muni, því á því tel jeg mikla þörf. Enda hefir ekki verið lögð eins mikil rækt við þennan atvinnuveg og skyldi. Og jeg skal ljúka þessari athugasemd með því, að það er sannarlega kominn tími til þess, að gerðar sjeu viturlegar till. landbúnaðinum til bjargar.